24.02.1932
Neðri deild: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

41. mál, ríkisábyrgð á innstæðufé Útvegsbanka Íslands

Héðinn Valdimarsson:

Ég veit ekki, hvort ég er eini þm., sem er á móti þessu máli. Hv. þm. Seyðf. hefir skýrt frá afstöðu flokksins í málinu, og ég mun ekki ganga á móti samþ. hans með því að greiða atkv. gegn þessu frv., en ég er því algerlega andstæður og tel skyldu mína að lýsa afstöðu minni hér í deildinni.

Alþingi hefir nú hvað eftir annað haft með þessi mál að gera, fyrst Íslandsbanka og síðan Útvegsbankann. Fyrir 2 árum síðan var skörp orrahríð hér út af Íslandsbanka. Þá var það samþ. gegn atkv. okkar jafnaðarm. að ganga svo frá bankanum sem nú er, og honum þá lagt til hlutafé, um 7,5 millj. kr., auk 5 millj. kr. áhættufjár frá póstsjóði Dana, og virðist þetta hafa att að vera nægilegt. Jakob Möller, sem enn er bankaeftirlitsmaður, var það og þá. Var hann kallaður til að meta hag bankans, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að bankinn væri „solvent“, þ. e. að ekki væri nema þáverandi hlutafé bankans tapað. 4 Íslandsbanka fór síðan fram nokkurskonar yfirmat, framkvæmt af þrem mönnum. Þessir þrír menn voru Helgi Briem, Stefan Jóh. Stefánsson og Sveinbjörn Jónsson. Þessi nefnd gaf svo út það álit, að skuldir bankans umfram eignir mundu nema um 31/2 millj. kr. En það var vitanlegt, að þessi niðurstaða n. var meðaltal af áliti þessara þriggja manna, eða sem næst áliti Helga Briems. Sveinbjörn Jónsson, sem var fulltrúi sjálfstæðismanna í n., áleit tapið minna, en Stefán Jóh. Stefánsson meira. Það er þegar synt, að álit flokksmanns okkar var réttast. Enn kemst Jakob Möller að þeirri niðurstöðu við nýtt mat á bankanum nú, að hlutafé Útvegsbankans, 71/2 millj. kr., sé tapað og skakkar þá nú frá fyrsta mati Jakobs Möllers 12 millj. kr., og er þó hvorki um yfirmat né endanlega reynslu að ræða. Það er komið á daginn, að heppilegast hefði verið að fara eftir till. okkar jafnaðarmanna, þegar Útvegsbankinn var stofnaður, þeim, að gera sérstaklega upp bú Íslandsbanka og ég tel, að eins standi á nú, og þó enn meiri ástæða til að flækja ekki ríkissjóði meira inn í þennan banka en óhjákvæmilegt er. Eins og hæstv. fjmrh. gaf í skyn í ræðu sinni, þá er þetta aðeins fyrsta sporið, sem stíga þarf til styrktar Útvegsbankanum. Að minni hyggju er ekki rétt að stíga það spor, hvorki að því er þennan banka snertir, né heldur sparisjóði víðsvegar um land. Öðru máli tel ég gegna, þótt tekin væri ábyrgð á innstæðufé Landsbankans. Hann er og á að vera aðalbanki landsins, eign landsins að öllu leyti, og fullnægja jafnframt þeim skyldum, er á slíkum banka hvílir. Þótt slík ábyrgð sé aðeins til handa einum banka, þá er ekki þar með útilokað, að aðrir bankar eða sparisjóðir geti fengið innstæðufé til starfsemi sinnar. Það er hægt að fá t. d. með því að greiða ríflegri vexti af því en aðalbankinn gerir, og viðskiptamennirnir mundu að öðru jöfnu ávaxta fé sitt í viðskiptabanka eða sparisjóði sínum. En þótt þessi ábyrgð sé tekin, og þar með sú áhætta, sem því fylgir og máske er ekki mjög mikil, þá leysir það þó ekki úr málinu til fulls. Eins og kunnugt er, þá hefir Útvegsbankinn 4 millj. kr. í umferð af seðlum, sem hann atti lögum samkv. að draga inn, er hann tók til starfa. En með vitund þingsins hefir það ekki verið framkvæmt. Hæstv. fjmrh. sagði, að þetta atriði þyrfti að leysa, annaðhvort á þann hátt, að bankinn heldi þessari seðlafúlgu framvegis, eða þá að honum væri séð fyrir jafndýru rekstrarfé á annan hátt. nú hefir mörg undanfarin þing staðið styrr um þetta atriði. Hefir verið barizt fyrir því, að öll seðlaútgáfan væri í hendi Landsbankans, enda er það í samræmi við það, sem gert er í öðrum löndum. Að láta útvegsbankann halda seðlaútgáfunni er því í raun og veru spor aftur á bak, þar sem það hindrar það um ótiltekið árabil, að hið eina rétta takmark náist um seðlaútgáfuna.

Ég get eigi séð, að þótt Útvegsbankinn væri gerður upp nú, þyrfti það að veikja traust á landinu í viðskiptamálum. Slík lokaskil fóru vitanlega fram á mörgum árum og mundu því ekki valda neinum vandræðum. Ef nýju lífi á að hleypa í bankann, þá þarf að taka til traustra ráða. Og ég hygg, að í þrengingum þeim, sem íslenzka ríkið og þjóðin á nú við að stríða, þá væri þeim fjárstyrk, sem ráð er á, betur varið til eflingar Landsbankanum og það mundi koma atvinnuvegum þjóðarinnar að fyllri notum.

Mun ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, enda er víst um úrslit þess. En ég mun haga atkvgr. minni eins og ég þegar hefi lýst, og menn munn sjá síðar afleiðingarnar.