17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Frsm. (Bergur Jónsson):

Allshn. hefir orðið sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ. eins og hv. Ed. hefir gengið frá því.

Það er kunnugt, enda þótt eigi liggi fyrir um það skýrslur, að mjög mörg hreppsfélög hér á landi eru í fjárþröng, sum svo, að þau mundu verða gjaldþrota, ef að þeim væri gengið. Í slíkum tilfellum eiga gjaldþrotalögin mjög illa við, og er í raun og veru óhugsandi að nota þau gegn fjárþrota hreppsfélagi. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa ákvæði um það í lögum, þegar slíkt ber að höndum, hverja meðferð skuli hafa. Ég býst við, að ákvæði frv. um aðstoðarmann við samninga við skuldheimtumenn kæmi hreppsfélögunum að nokkru liði. Hinsvegar er rétt að geta þess, að í þessu frv., eins og reyndar víðar í nýrri löggjöf, er fulllangt gengið, í því að fá úrskurðarvaldið í hendur framkvæmdavaldinu eins og 13. gr. ber með sér, þar sem ráðh. er gert að úrskurða um, hvort skuldir skuli eftir gefnar að nokkru eða öllu leyti, eða þeim frestað, og í þriðja lagi, hvort vextir skuli falla niður. En hér er þó talsvert vel um hnútana búið, þar sem heimtað er, að skrifstofustjórinn í atvmrn., sýslumaður viðkomandi hreppsfélags og hagstofustjórinn séu allir sammála um, hve mikið skuli eftir gefið. En eins og sakir standa, þá virðist ekki verða hjá því komizt að ganga frá þessu máli, vegna fjárhagsvandræða ýmsra sveitarfélaga.