18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

23. mál, breyt. á vegalögum

Ingvar Pálmason:

Hv. frsm. lýsti því yfir, að brtt. nm. væru teknar aftur til 3. umr., þar til séð yrði, hver úrslit yrðu um aðrar brtt. við frv. Ég geri ráð fyrir; að aðrir dm. ætli sér að fara að dæmi n. og taka aftur sínar till., af því að enginn þeirra kvaddi sér hljóðs. En ég skal lýsa því yfir, að ég vil ekki láta brtt. mínar lognast þannig út af, að ég taki þær aftur, hvað sem aðrir hv. þm. gera við sínar till.

Ég vil þó áður en ég vík að brtt. mínum fara nokkrum orðum um frv. sjálft. Í frv. er tekið allmikið af vegum inn í þjóðvegakerfið, sem náðu ekki að komast inn í vegal. 1924 eða síðan. Þetta er mjög gott, en það virðist svo, sem allstórir landshlutar hafi orðið allmjög útundan við þessa endursamningu vegal. Þar til vil ég sérstaklega nefna Austfirði og Vestfirði. Virðist einkennilegt að hafa þannig að olnbogabörnum þá útkjálka landsins, sem allra verst eru settir með samgöngur. Það virðist ekki hafa verið uppi sú stefna í vegamálum, að leggja mesta áherzlu á að leggja vegi út frá hafnarstöðunum og út um byggðirnar. Aðalstefnan hefir verið sú, að koma einum aðalvegi hringinn í kringum allt land, og þá byrjað út frá Reykjavík, sem er eðlilegt, en þeir vegir, sem fengizt hafa út um einstök héruð landsins, hafa fengizt með talsverðri togstreitu. Ég skal að þessu sinni ekki fara neitt út í þá stefnu, að leggja svo mikið kapp á að koma aðalþjóðvegi hringinn í kringum land um óbyggðir, fjöll og firnindi, en ég verð þó að líta svo á, að notadrýgstir verði þeir vegir, sem lagðir eru um byggðirnar.

Nú er svo komið, að telja má líklegt, að eftir nokkur ár verði Austurland komið í vegasamband við Rvík, og í nál. er þess getið, að þá fái Austfirðingar langþráða ósk uppfyllta. Ég ber ekki brigður á þetta, en hinu held ég fram, að það hafi engu síður verið langþráð ósk Austfirðinga, að hættar verði þær erfiðu samgöngur, sem eru þar innan héraðsins. Það er almennt viðurkennt, að samgöngur séu eitt af því allranauðsynlegasta fyrir afkomu manna, og því virðist mér það full sanngirniskrafa, þegar nú er verið að breyta vegal., að reynt sé að tengja Austfirði við Fljótsdalshérað. Það má að vísu segja, að Fagradalsbrautin sé slíkur tengiliður, en sá vegur nær aðeins til Reyðarfjarðar. Einnig mætti benda á Fjarðarheiðarveginn, þegar honum er lokið, en allt ber þar að sama brunni, því að sá vegur getur ekki gilt nema fyrir þann eina fjörð, því að samgöngur frá honum til nærliggjandi fjarða eru algerlega útilokaðar. Hinsvegar hagar svo til, að við Fagradalsbrautina má tengja alla Austfirði nema Borgarfjörð og Loðmundarfjörð. Við Austfirðingar lítum svo á, að það sé mesta ástæða fyrir okkur að keppa að því að fá slíkt samband innan héraðs, svo að menn geti, ef svo mætti að orði kveða, skipzt á andlegum og líkamlegum verðmætum, því að það eru mikil höft á andleg viðskipti Austfirðinga, ekki síður en þau verklegu, hvað samgöngur allar eru erfiðar. Þess vegna er það eðlilegt, að við Austfirðingar viljum heldur fá þetta innanhéraðssamband en að geta farið í bíl til Rvíkur, ef okkur langar til að leika okkur, því að það vita allir, að ef menn eiga nauðsynjaerindi til Rvíkur, þá verða skipaferðirnar heppilegastar, þó að þær séu strjálar. Og ég geri varla ráð fyrir, að sjúkraflutningur til Rvíkur verði landveg, en það eru þau helztu viðskipti, sem Austfirðingar verða að hafa við Rvík.

Ég skal þá fyrst drepa á a-lið brtt. minnar. Ég hygg, að það hafi verið 1931, sem við Austfirðingar fengum því framgengt, að vegarstæði og vegarlengdir eystra væru mældar af því opinbera, en til þessa hefir þó ekkert heyrzt um þessar mælingar, svo að helzt lítur út fyrir, að litið hafi verið unnið úr þeim enn. Ég stend því lakar að vígi með að lýsa þessum brtt. mínum en ella, ef fengizt hefði unnið úr þessum mælingum. Í a-lið brtt. minnar er ekkert tekið fram um það, hvar vegurinn, sem þar er áformaður milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar, skuli liggja, og ástæðan er sú, sem ég áður nefndi, að mér er ekki kunnugt, hvað mælingarnar segja í því efni, svo að ég vil ekki slá neinu föstu um það. Verða fagmenn að sjálfsögðu að segja til um það, hvar vegurinn á að liggja. Ég skal þó aðeins geta þess, að hér er um tvær leiðir að velja, en vegarlengdirnar eru þó misjafnar. Önnur leiðin mun vera nálægt 18½ km., frá Eskifirði og inn á verzlunarlóð Neskaupstaðar, en eftir sveitinni inn frá Neskaupstað hefir verið lagður vegur, sem má kalla sæmilegan á löngum kafla, og er þessi vegur, sem búið er að leggja, um 8 km. fullir, svo að segja má, að ekki þurfi að leggja nema 10 km. af nýju, ef þessi leið yrði valin, en leiðin liggur að vísu yfir háan fjallgarð, og verður þar erfitt með vegarlagningu á ca. ½ km. stykki, en að öðru leyti er vegarstæði þarna gott, þannig, að auk þessara 8 km., sem þegar eru lagðir, kæmu 5 km. eftir sléttlendi, eftir dal, sem liggur lítið eitt hærra en sveitin sjálf. Það væri ekki geigvænlegt, þótt þessi vegarspotti væri tekinn í þjóðvegatölu, og við það ynnist, að fjölmennasta kaupstaðarbyggðin á Austurlandi kæmist í vegasamband fyrst og fremst við það innanhéraðssamband, sem þegar er til, en auk þess við vegakerfi landsins. — Hin leiðin, sem þarna er um að ræða, er 35 km., og af henni liggja 9 km. eftir byggðinni Reyðarfjarðarmegin, en þessi leið hefir þann kost fram yfir styttri leiðina, að fjallgarðurinn er lægri, en hinsvegar er vegarstæðið víða gallað t. d. yfir tvennar skriður að fara, sem töluvert erfitt er að leggja veg yfir, og önnur skriðan er auk þess ekki alveg hættulaus. Ég hefi viljað lýsa þessum leiðum fyrir hv. dm., til þess að þeim yrði ljóst, að hvortveggja þessi leið er fær, en ég ætlast á engan hátt til þess, að Alþingi ákveði hvort vegarstæðið eigi að velja, eins og ég áður tók líka fram.

Þá kem ég að b-lið till. minnar, sem er ákveðnari, því að þar er kveðið á um það, hvar veginn skuli leggja og vegarstæðið ákveðið, frá Fagradalsbraut í Reyðarfirði um Sléttuströnd og Hrossadalsskarð að Búðum í Fáskrúðsfirði. Þessi leið var mæld 1931, eins og ég drap á áður, og sá, sem leiðina mældi, taldi sjálfsagt, að einmitt yrði farið yfir Hrossadalsskarð, vegna þess, hve auðvelt er að leggja veg yfir skarðið, og vil ég jafnframt taka það fram, að hann athugaði fleiri möguleika í þessu sambandi. Annars má geta þess, að eftir því, sem sunnar dregur á strandlengjunnni eystra, lækka fjallgarðarnir og ganga ekki stæltir í sjó fram eins og norðar, heldur liggur nes fyrir framan, svo að hægt er að leggja vegina meðfram sjónum út fyrir fjallsendana. — Ég þori ekki að segja neitt upp á víst um það, hvað þessi vegarlengd er mikil, en ég ætla þó, að hún verði eitthvað yfir 30 km. Vegarstæðið er víða gott og alstaðar sæmilegt, og er ekki minnsta vafamál, að ef vegarlagningar hér á landi eiga nokkra framtíð fyrir sér og Austfirðir koma til með að njóta svipaðrar aðstöðu og aðrir landshlutar í þeim efnum, sem maður verður að telja, að verði með tímanum, þótt ekki hafi verið til þessa, verður þessi vegur áreiðanlega tekinn í þjóðvegatölu, því að hann er byrjunin að því að tengja syðri firðina við vegakerfi landsins. Er auðvelt að leggja veg frá Búðum yfir Víkurheiði til Stöðvarfjarðar, og þá er ekki eftir, til þess að vegasambandið komist á, nema leiðin yfir Kambanes til Breiðdalsvíkur, sem yrði nokkuð dýr vegarlagning á stykki. Þess ber þó að gæta í þessu sambandi, að ekki verður talin brýn þörf á að leggja veg þar í milli, þegar þjóðvegurinn yfir Breiðdalsheiði út til Breiðdalsvíkur er kominn á. Slitnaði vegasambandið þá milli þessara tveggja fjarða, sem mætti una við.

Það verður ekki fram hjá því gengið, að annaðhvort liggur fyrir að koma Austfjörðum í samband við vegakerfi landsins með vegum eða að hafna þessari leið og hverfa að hinu, að koma Austfjörðum í samband við Fagradalsbrautina með nógu þéttum strandferðum. Yrði að því horfið, er gefið mál, að vegurinn yfir Fjarðarheiði er þar með orðinn óþarfur, því að ef strandferðirnar eru hafðar nógu þéttar, þarf ekki nema einn tengilið á landi til þess að tengja Austfirði við vegakerfi landsins. Nú er hinsvegar ekkert útlit fyrir, að að þessu verði horfið, heldur mun talið sjálfsagt af öllum, að haldið verði áfram í þá átt að tengja Austfirði við vegakerfi landsins með vegum, og samþykkt þessarar till. er því ef til vill fyrst og fremst vitnisburður um það, hvert Alþingi ætlast til, að stefnt verði í þessum málum í framtíðinni.

Þá á ég aðeins eftir c-lið till. minnar, sem fjallar um það, að vegur verði lagður frá Fagradalsbraut við Köldukvísl um Eyvindardal, Slenjudal og Mjóafjarðarheiði að Mjóafirði. Þessi fjallgarður, Mjóafjarðarheiði, er annar lægsti vegurinn milli Héraðs og Fjarða, nokkuð hærri en Fagridalur, og nokkuð lægri en Fjarðarheiði. Á þessari leið eru ekki miklar torfærur við vegalagningu, nema Mjóafjarðarmegin. Þar er brött brekka, sem taka verður sneiðinga í. Að öðru leyti er þarna gott vegarstæði, eftir hallalitlum dölum héraðsmegin og rennsléttum dal eftir að ofan af heiðinni kemur. Eins og ég tók fram í upphafi, hefir enn ekki verið unnið úr mælingum þarna eystra frá 1931, og get ég því ekkert um það sagt, hvað þessar vegalagningar mundu kosta, enda tel ég það ekki skipta neinu máli í þessu sambandi, vegna þess að ekki er um það að ræða, að fé verði varið til þessara framkvæmda á næstu árum, heldur þýddi samþykkt till. nánast það, að Austfirðir ættu jafnan rétt sem aðrir landshlutar til að komast í samband við vegakerfi landsins, og að þótt þeir komi seinna, eigi þeir þó líka að koma, enda tek ég það svo, ef Alþingi fellir þessar till. mínar, sem Alþingi vilji með því lýsa yfir, að það líti svo á, að Austfirðir geti séð um sig sjálfir í þessum efnum, svo illa sem þeir þó eru settir frá náttúrunnar hendi um samgöngur og yrði slíkt svar frá Alþingi þó enn kaldranalegra, þegar litið er til þess, að í ýmsum héruðum, t. d. hér í nágrenni Rvíkur, liggur eitt samfellt veganet um allar sveitir, svo að kalla má, að hver bær geti haft beint bílsamband við Rvík. Ég þykist því mega vænta þess, að hv. d. taki þessum till. mínum með velvild, meiri velvild en þær hafa að fagna hjá hv. n., og samþ. þær, enda þótt slíkt yrði til þess, að eitthvað af þeim till., sem dm. hafa tekið aftur til 3. umr. kæmist inn í frv. áður en það verður afgr. héðan úr d. — Ég get búizt við því, að dm. reyni að afsaka sig með því, að þessa vegi megi gera að sýsluvegum, en slíkt er ekkert svar, m. a. af þeirri ástæðu, að sú stefna er ekki uppi að láta sýslurnar sjá um sína vegi á eiginn kostnað. Ef hinsvegar svo væri, væri ekki miklu hér til að svara. Í flestum sýslum landsins norðan og sunnan, að Vestfj. undanteknum, liggja nú þjóðvegir eftir endilöngum sýslunum. Svo verður ekki í Múlasýslu, því að svo má kalla, að þjóðvegurinn, sem þar er ákveðið að leggja, komi til með að liggja að miklu leyti þvert yfir sýsluna. Er að vísu nokkur bót ráðin á þessu, ef álman fæst tekin upp í vegalögin út frá aðalveginum, en mikið þó enn óunnið til þess, að sæmilegt megi teljast. Er það að vísu ekki furðulegt, því að það er eðlilegt, að það taki marga áratugi að koma vegakerfi landsins í sæmilegt horf, svo að flestir fái vel við unandi sinn hlut. Undanfarið hafa verið mjög miklar framfarir í vegamálum okkar og meira framkvæmt en nokkru sinni áður á því sviði. Má búast við, að minna verði um framkvæmdir á næstunni, en vegamálastjóri gerir þó ráð fyrir, að eftir 6 ár verði lokið að leggja þá vegi, sem eru undir 1. lið í gildandi vegal. Þar sem ég geri ráð fyrir, að d. taki þessum till. mínum vel, sé ég ekki ástæðu til að tala frekar fyrir þeim að svo stöddu, en ef þær koma til með að sæta sérstökum andmælum, mun ég skýra þær frekar en ég hefi gert, ef mér virðist ástæða til.