18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

23. mál, breyt. á vegalögum

Frsm. (Einar Árnason):

Ég átti von á því, að þeir, sem flytja hér brtt., mæltu fyrir þeim, enda hafa sumir gert það, en ekki allir. Ætla ég nú að gera grein fyrir þessum brtt. af hálfu n., hvort sem talað hefir verið fyrir þeim eða ekki. Ég vil þá fyrst taka það fram, að samgöngumn. lítur svo á, að í frv. felist svo mikilsverðar umbætur á vegakerfi landsins, að nauðsynlegt sé, að frv. gangi í gegn á þessu þingi. En n. álítur, ef bætt er inn í frv. mörgum till. um þjóðvegi skipulagslaust, að það geti orðið til að hindra framgang málsins, og eru þá hv. þdm. ekki betur settir en þó að þeir taki brtt. sínar aftur.

Við hv. þm. Snæf. höfum því lýst yfir því, að við tökum brtt. okkar aftur. Við sýnum með því sjálfsafneitun, sem aðrir hv. þdm. ættu að taka sér til fyrirmyndar. Okkur er auðvitað ekki síður annt um okkar brtt. en þeim um sínar, en við viljum sýna, að okkur sé alvara með að koma frv. fram. En þeim, sem leggja alla áherzlu á að pota fram sérstökum brtt. frá sjálfum sér, getur tæplega verið mikil alvara með það.

Vík ég þá að brtt. Brtt. hv. 5. landsk. hafa verið teknar aftur til 3. umr., og get ég því sleppt þeim.

Þá vík ég að þeim brtt., sem hefir verið mælt fyrir, og þá fyrst að brtt. frá hv. þm. A.-Húnv. um Vatnsdalsveg og Svínvetningabraut. Vatnsdalsvegur er 12 km. langur, en akfær og þarf lítilla umbóta við. Hann kostaði lítið, er lítið uppbyggður og vegarstæði gott. Viðgerð á veginum fór fram fyrir fáum árum, og lagði ríkissjóður þá fram helming kostnaðar. Þá er Svínvetningabraut. Hún er sýsluvegur, 24 km. langur, sem liggur út frá aðalþjóðveginum. Nú er um það deilt, hvort taka eigi slíka vegi í tölu þjóðvega. Verði slíkt gert hér, er hætt við, að slíkt yrði að gera víðar, en vandséð, hve miklu skipulag eða sanngirni ræður, ef þetta verður ýmist fellt eða samþ. eftir brtt. einstakra manna. Nú ganga 15% af bílaskatti til sýsluvega, og léttir það viðhaldið. Hv. flm. þessara brtt. var gamansamur og bauð okkur tveim í samgmn., sem brtt. fluttum, upp á hrossakaup. Ef brtt. hans verða samþ., ætlar hann að greiða okkar brtt. atkv. við 3. umr. Var á honum að heyra, að þetta væri sérstakt veglyndi, en á venjulegu máli heitir þetta hrossakaup.

Hv. þm. A.-Húnv. hnaut um ummæli í nál., þar sem talað er um, að gagn af lögfestingu nýrra þjóðvega sé lítið eða ekkert. Ég held, að ef þetta er skoðað niður í kjölinn, sé þetta á rökum byggt. Nú geta sýslur fengið helming kostnaðar til sýsluvega. Ef svo stæði nú á, að sýsla væri hálfnuð við sýsluveg, sem gerður væri að þjóðvegi, hætti sýslan auðvitað að leggja af mörkum til vegarins. En hinsvegar eru lítil líkindi til þess, að ríkissjóður geti lagt fram mikið af vegabótafé næstu árin. Þetta gæti því orðið til þess að tefja hreint og beint fyrir vegalagningunni. Ella hefði sýslan brotizt í framkvæmdunum.

Þá átti hv. 2. þm. S.-M. brtt. og mælti fyrir þeim. Hann sagði, að Austfirðir væru olnbogabörn ríkissjóðs, og þá víst sérstaklega um vegi. Í nál. er skýrsla um skipulag þjóðvega. Af þessari skýrslu sést, að Suður-Múlasýsla og Norður-Múlasýsla eru næsthæstar um þjóðvegalengd. Aðeins Árnessýsla ein er hærri. Ef brtt. hv. 2. þm. S.-M verða samþ., verða þær hæstar á landinu. Með þessu er ég ekki að segja, að Suður-Múlasýsla hafi lengsta akfæra vegi. Þetta eru fyrirhugaðir vegir. En það sýnir aðeins, að þótt vegur sé í vegalögum, kemur hann ekki að gagni strax. Og svo hygg ég, að yrði hér, þótt brtt. yrðu samþ. Vík ég þá að þessum brtt., hverri fyrir sig. Verður þá fyrst fyrir Norðfjarðarvegur. Hv. þm. skýrði allgreinilega frá öllum ástæðum. Hann er að vísu kunnugri þarna en ég. En ég þekki þó það til á Austfjörðum, að ég veit, að þessi vegur verður að liggja yfir lítt kleif fjöll og getur ekki verið fær nema stuttan tíma ársins, eða aðeins á sumrin. Þetta vegarstæði á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar hefir verið rannsakað og vegamálastjóri látið það álit í ljós, að vegna legu sinnar geti vegurinn ekki orðið nema sumarvegur. Ég hefi engu við þetta að bæta, og vera má, að hv. 2. þm. S.-M. geti gert aths. við þetta, en n. hefir ekki annað en þetta fyrir sig að bera. Þá er það Fáskrúðsfjarðarvegur. Sá vegur er 34½ km. á lengd, og telur vegamálastjóri, að megi gera óvandaðan bílfæran veg fyrir 50 þús. kr., en þó yrðu óbrúaðar smáár og lækir. Þessi vegur er með suðurströnd Reyðarfjarðar, en þar er byggð strjál.

Þá er Mjóafjarðarvegur, 42 km. á lengd. Þessi vegur yrði fyrir Mjóafjörð einan, en þar búa 170 manns. Vegurinn liggur yfir heiði, 550 metra háa, og er þar snjóþungt, svo að vegurinn gæti ekki orðið nema sumarvegur.

Ég hygg, að þótt þessir vegir yrðu allir teknir í þjóðvegatölu, þá yrði gagnið að því ekki eins mikið og menn ætla. Alla þessa vegi er erfitt að byggja og nota vegna snjóþyngsla. Ég neita því ekki, að þeir geti orðið til þæginda, þegar þeir eru komnir í kring, en ég held, að þess yrði langt að bíða, þótt þeir kæmust inn í frv.

Eftir frv. á nú að bæta 586 km. í þjóðvegatölu og eftir brtt. 454 í viðbót, eða samtals yfir 1000 km. Nú eru þjóðvegir samtals 2500 km., og yrðu því eftir þessu 3500 km. Ef ríkissjóður tekur mikið af sýsluvegum í tölu þjóðvega, hlýtur framlagið að vaxa og þá lamast geta ríkissjóðs til að leggja nýja vegi. Því er vafasamt, að nokkuð vinnist við að fá slíka vegi inn í frv. Ég vil vekja athygli á því, að tekjur af bílaskatti til sýsluvega nema 45 þús., sem verja á til viðhalds miðað við bílferðir á veginum og hag sýslusjóðs. Þessar tekjur hljóta að geta létt undir svo að um munar.

Ég tel vafasamt, eins og ég hefi þegar sagt, að það flýti fyrir vegagerðum, að umráðarétturinn yfir sýsluvegum sé fluttur yfir til löggjafarvaldsins frá sýslunefndunum, svo að þær hætti að hafa yfir því að segja, hvaða vegir eru lagðir. Ég held, að betur fari á, að sýslunefndir ráði þessu eins og verið hefir og fái þann styrk frá ríkissjóði, sem hægt er að veita.