18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

23. mál, breyt. á vegalögum

Ingvar Pálmason:

Ég vil þakka hv. frsm. fyrir að hafa sýnt brtt. mínum þá viðurkenningu að ræða um þær. Ég vil líka þakka fyrir það, sem hann hefir upplýst. Vegamálastjóri hefir eitthvað unnið úr mælingum þeim, sem gerðar voru á þessu svæði nú fyrir skömmu. Hv. frsm. vildi álasa okkur flm. brtt. fyrir það, að við kæmum með þessu skipulagsleysi á vegamálin ef brtt. þær, sem fyrir liggja, væru teknar inn í l. án athugunar. Ég vil minna á það, að n. hefir haft brtt. okkar til meðferðar í 8 vikur, og ég hefði ekki tekið illa upp fyrir n., þótt hún hefði lagfært þær, því að vel má vera, að gallar séu á þeim. En það hefir n. ekki gert. Ég get ekki sýnt þá sjálfsafneitun að falla frá brtt., með því móti brygðist ég því trausti, sem mínir kjósendur, og líka þeir, sem ekki hafa kosið mig, bera til mín. Þessar brtt. hafa fylgi í mínu kjördæmi, og ég á ekki lakara með að standa við það, að það sé almenn ósk Austfirðinga, að þessir spottar verði teknir inn í l. heldur en n. að standa við þá langþráðu ósk Austfirðinga að fá veg yfir Möðrudalsöræfi. Hv. frsm. sagði, að við mættum ekki sýna það alvöruleysi að spilla þessu frv. með till. okkar, svo að það yrði því að bana. Það hefir verið hent á, að við nytum góðs af þeim brtt., sem þegar væru komnar inn í frv., og ég veit, að við njótum einhvers góðs af þeim. En ég lít svo á, að ekki sé nema örlítið af því, sem til framkvæmda kemur á þessu ári, og ég hefi þá reynslu í vegamálum, að því meir sem menn nudda við að koma sínu fram, því meiri verði árangurinn, og ég get ekki talið það afskaplegan skaða, þótt afleiðingin yrði sú, að frv. gengi ekki fram nú. — Þá ætlaði nú hv. frsm. alveg að rota mig með því, að Suður- og Norður-Múlasýslur væru með þeim sýslum, er mesta hefðu þjóðvegalengd. Það er auðvitað rétt, og þó má henda á Árnessýslu, er hefir lengri þjóðvegi, en á samt að fá viðbót í þessum l., og er ég ekki að telja það eftir. En það verður að gá að því, þegar talað er um lengd þjóðveganna, hver aðstöðumunurinn er. Ég held, að um þetta valdi nokkuð ókunnugleiki, eins og hv. frsm. viðurkenndi líka. Og án þess að lá vegamálastjóra, þá vil ég halda því fram, að ef honum hefði verið eins tíðförult um þessa vegaspotta, sem ég fer fram á, að teknir verði upp í frv., eins og um vegina hér í kringum Rvík, þá hygg ég, að hann fyndi til þess, að kröfurnar eru ekki framkomnar að ástæðulausu. Það er eðlilegt, að menn finni lítið til þess, sem ekki snertir þá sjálfa neitt. Ég er óhræddur um, að hver, sem kynnir sér stærð Suður-Múlasýslu undrist ekki, þótt hún hefði lengsta vegi, svo að það út af fyrir sig, hve mikið er komið af þjóðvegum á pappírinn í þessari sýslu, hefur ekki mikið að segja, því að enginn skýrði frá því, hve mikil er búið að leggja af þessum vegum. Þeir hafa komið inn í vegalögin á seinni árum. Póstleiðin gamla liggur yfir Breiðdalsheiði, út Breiðdal og yfir Berufjarðarskarð. Við þetta sat lengi, en nú er ætlað að færa veginn á þá leið, sem auðvelt er að leggja bílveg, og ég hygg, þótt ég sé ekki alveg viss um það, að sú viðbót, sem við eigum að fá, liggi mest í því, að póstvegurinn er færður út fyrir hjá Stræti, og verður að telja það einungis lagfæringu ríkissjóði í hag. — Þá gaf hv. frsm. nokkra lýsingu af þessu vegarstæði, eftir vegamálastjóra, og skal ég hvorki rengja vegalengd né hæðarmælingar. Mig brestur gögn til þess. En í 700 m. hæð hefur Oddsskarð ekki verið talið hingað til. Ég skal þó ekki neita því, því að sjálfur hefi ég ekki mælt það og hef ekki fyrir mér svo ugglausa mælingu, að ég geti staðhæft, að þessi mæling sé of há. En grunur minn er sá, að þar sé heldur bætt við en dregið úr. En hvað sem því líður, þá hefi ég fyrir mér orð verkfræðings, sem hér á sæti í d. og hefur orðið mér samferða yfir Oddsskarð, um það, að engir tekniskir ómöguleikar væru á því að leggja veg yfir Oddsskarð. Hinu lét hann ósvarað, hvað það myndi kosta. Það, að vegurinn verði ekki fær nema að sumrinu til, er að miklu leyti rétt. En hve mikið af okkar þjóðvegum er fært bæði sumar og vetur. Ég er hræddur um, að þeir styttist æðimikið, ef miðað er við það, hvort þeir séu færir árið um kring eða ekki. En það, sem ég gat sem meðmæla með Oddsskarði, er vegamálastjóri telur nú óhagstæða leið milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, að þar eru 12—15 km. bílfærir svona oftast allan veturinn, og við erum svo nægjusamir þarna austur frá, að við teljum það mjög mikið hagræði, ef við getum af þessari vegalengd, sem er um 20 km. frá Nesi til Eskifjarðar, farið um helminginn í bíl flesta tíma árs, þótt við verðum að fara hinn hlutann öðruvísi. Við erum vanastir því Austfirðingar að láta fæturna hafa það. En ég skal ekki nokkurn hlut um það deila, og það má vel vera, að þessi vegur frá Eskifirði til þess sé hefur kominn ytri leiðina. Hann verður miklu dýrari, en það er sá kostur við hann, að hann verður miklu lengur fær, því að þótt minnzt væri á Víkurheiði sem fjallgarð, þá er hún lágur fjallgarður og snjó leysir þar snemma á vorin og leggur seint á haustin. Snjór liggur lengur á Oddsskarði, en beggja megin við skarðið getur verið bílfært löngu áður en leysir af háskarðinu, og býst ég við, að Eskfirðingar og Norðfirðingar myndu ekki telja eftir sér að moka af því, svo að það yrði fært e. t. v. mánuði eða þrem vikum fyrr en ella. Þetta verður að taka með í reikninginn. Hæsta hæð fjallsins er einungis hryggur, en norðanmegin dalur, sem liggur lágt, og sunnan megin lækkar mjög fljótt. Ég ætla ekki að gera það að neinu ágreiningsatriði, hvor leiðin verður valin, og skal ég alls ekki deila um það, en mér þótti það dálítið einkennilegt í umsögn vegamálastjóra, að hann skyldi taka það fram, að báðir vegirnir, bæði Fáskrúðsfjarðar og Norðfjarðar, lægju eftir strjálbýlum héruðum. Ég veit ekki betur en að aðalstefnan hafi verið sú, að leggja þjóðvegi yfir óbyggðir. Ég hefi ekki farið um Möðrudalsveginn. Þó held ég, að meðfram honum sé næsta strjálbýlt og á köflum líklega ekki öllu þéttbýlla en við vegarspottann minn. Þetta gefur mér hendingu um, að öll atvik séu hér ekki athuguð eins og þarf, og held ég sem sagt, að nokkru valdi ókunnugleiki vegamálastjóra um aðstöðu á þessu svæði — miklu fremur en að hann vilji spyrna á móti aðalrökum og kröfum þessa héraðs. — Að því er snertir þessa lauslegu áætlun vegamálastjóra um kostnað við vegalagninguna, þá vil ég taka það fram, að ég hefi ekki orðið var við, að hann hafi gefið n. nokkrar upplýsingar um kostnað við vegalagningu frá Eskifirði yfir Oddsskarð. En hann nefndi upphæðir við báðar hinar vegalagningarnar, og hann sagði, sem að líkindum mun vera rétt, að ytri leiðin frá Eskifirði að Nesi myndi vera um 40 km. Reyndar var þetta mælt áður af manni, sem er í trúnaðarstöðu hjá vegamálastjóra, og honum reiknaðist til, að það myndu vera 35 km., en mér þykir sennilegra, að tala vegamálastjóra sé rétt, og taldi hann, að þann veg mætti leggja fyrir 150 þús. kr., fyrir utan það að brúa Norðfjarðará, en hún kemur hvor leiðin sem valin er. Þess ber þó að gæta, að eftir áliti vegamálastjóra verður brúin 13 þús. kr., verði þessi leið valin, en óhætt mun að fullyrða, að sá kostnaður yrði miklu minni, ef hin leiðin yrði valin. Um veginn frá Búðareyri við Reyðarfjörð að Búðum í Fáskrúðsfirði gerði vegamálastjóri ráð fyrir því, að gera mætti hann færan fyrir 50 þús. kr. Þetta virðist mér sanna það, sem ég hefi haldið hér fram, að yfirleitt sé þessi leið ekki mjög óhagstæð til vegalagningar. Ég held því, að þessar upplýsingar, sem koma frá vegamálastjóra, en því miður eru of litlar, hnigi í þá átt, að þessi vegarspotti ætti að takast upp í þjóðvegatöluna. Að því er haldið fram, að þessi vegur sé aðeins fyrir ferðafólk, stafar einungis af ókunnugleika. Mætti e. t. v. frekar segja slíkt um veginn yfir Möðrudalsöræfi og ekki myndi þar verða flutt kjöt eða fiskur. En þegar litið er á Norðfjörð og Fáskrúðsfjörð, sem eru stærstu fiskiverin á Austurlandi, myndi það verða til stórra hagsbóta að fá þennan tengilið, er kæmi þeim í beint samband við Fljótsdalshéraðið, sem skortir alveg fisk, a. m. k. á meðan ekki gengur meira með klakið í Lagarfljóti. En frá Fljótsdalshéraðinu fengju kaupstaðirnir aftur nýtt kjöt og aðrar landbúnaðarafurðir. Getur því enginn sagt, að þetta sé fyrir „short“. En þarna er höggið of nærri þeirri stefnu, sem hefir komið fram hér í d. Aðalþörfin fyrir þessa vegi er einmitt í sambandi við Fljótsdalshéraðið, til þess að geta komið á hagkvæmu sambandi við kaupstaðina. Ég get þess þó, að úr þessu mætti bæta með því að láta haganlegan bát ganga milli fjarðanna a. m. k. einu sinni í viku. En stefnan virðist ekki vera sú. Það er hreinasti misskilningur, sem ég vil kveða niður hér, að þessi vegur eigi að verða til þess að leika sér á. Það liggur og í augum uppi og þarf ekki nema lauslegt yfirlit yfir atvinnureksturinn í þessum tveim stöðum til þess að sjá undireins tilgang þessa vegar. Þetta myndi að vísu ekki koma að fullum notum á vetrum til flutninga, en það stendur svo á hjá okkur Íslendingum, að því miður getum við ekki notað okkar akvegi á vetrum, a. m. k. ekki nema á litlum hluta landsins. Ég er sem sagt þakklátur hv. frsm. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefir gefið í þessu máli, því að þær hníga allar að því, að þessi vegarkafli verði tekinn í þjóðvegatölu.

Ég skal einungis minnast á þriðju brtt., um veg frá Fagradalsbraut niður í Mjóafjörð. Það getur e. t. v. orðið til þess að gleðja hv. frsm., að þessi vegur hefir verið í tölu fjallvega, svo að þar er ekki verið að létta neinu af sýslunum, og ég veit, að stundum hefir komið fyrir, að til hans hefir verið varið af fé til fjallvega, en sá vegur liggur bara ofan til Mjóafjarðar, og verður þeim firði ekki á annan hátt komið í samband við aðra firði landleiðina. En nákvæmlega sama er að segja um Seyðisfjörð, og veit ég ekki til, að það hafi verið haft sem andmæli gegn vegi yfir Fjarðarheiði. (EÁrna: Fleira fólk þar). Já, nú sem stendur, en það eru ekki mörg ár síðan eins margt fólk var í Mjóafirði, og Mjóifjörður hefir sýnt, að þar eru mikil skilyrði til útgerðar. Hann er síldarsælasti fjörður Austurlands. Það geta orðið knýjandi ástæður til að gefa Mjóafirði samband við upphéruðin, þótt nú séu þar ekki nema 170—200 íbúar. Ég held því, að við, sem að þessum till. stöndum, en, það eru miklu fleiri en ég, þótt þær eigi ekki fleiri formælendur í d. en mig, og vænti ég, að ég megi reikna þar með hv. 2. þm. N.-M., því að hann hefir svipaðra hagsmuna að gæta, getum vænzt þess, að þótt svo fari, að þessir spottar fáist ekki inn í 1. nú, þá liði ekki langur tími unz það verður, sérstaklega ef þetta mál verður ekki látið ganga fram á þessu þingi. Þess vegna er það, að ég mun tvímælalaust og án þess að kveinka mér greiða atkv. gegn þessu frv., verði brtt. felldar, því að ég er viss um, að það flýtir fyrir, að þessar till. komist fram, og ég tel ekki neitt stórvægilegt í hættu þótt þær umbætur, sem frv. þetta felur í sér, yrðu að bíða næsta þings, því að ég hygg, að það verði ekki stórvægilegt, sem framkvæmt verði af þeim umbótum í sumar.