18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

23. mál, breyt. á vegalögum

Guðmundur Ólafsson:

Það eru einungis fáein orð, sem ég þarf að segja, og verð ég að segja, að hann gerði mér það ekki auðveldara næsti ræðumaður á undan, því að hann var svo voðalega kurteis og þakkaði víst einum tvisvar sinnum fyrir undirtektirnar. Ég get ekki fundið, að hann hafi nokkuð að þakka, heldur gæti skeð, að ég hefði ástæðu til að þakka, því að frsm. n. var ekki viss um, hvort ég ætlaði að sýna veglyndi eða hrossakaup. Ef hann ætlar mér, að ég sýni veglyndi, þá hefi ég ástæðu til að þakka, en hrossakaupin hafa nú aldrei verið álitin neitt sérstaklega heiðarleg verzlun í þeirri merkingu, sem venjulega er höfð um þau hér, og get ég ekki þakkað það, ef ég á að vera mikið við þau riðinn. — Ég skal svo fara nokkrum orðum um þessa vegaspotta, sem ég er með. Hann fór réttum orðum um það, að það væri nýbyggður vegur eystri vegurinn — Svínvetningabrautin —, og þá sagði hann, að allmikið hefði verið að Vatnsdalsveginum gert fyrir fáum árum. Í allmörg ár hefir verið gert við hann á hverju ári og vegurinn er góður, þegar þurrt er. Annars er hann nú ekki góður. En svo segir hann, þegar hann er búinn að tala um mína vegarkafla, að þetta sé innanhéraðsvegur og ekki víst, hvort rétt sé að taka slíka vegi inn í vegalögin og gera að þjóðvegi. En hvaða vegir eru það, sem lagt er til í frv. að teknir séu í þjóðvegatölu? Eru það ekki innanhéraðsvegir, Laugardalsvegur, (Gnúpverjavegur, Hafnarfjallsvegur og yfirleitt flestir þessir vegir, sem taka á inn? Það er ekkert sérstakt við þá og þeir eru samskonar þeim, sem ég legg til, að teknir verði í þjóðvegatölu, svo að það er nú hlutdrægni að mæla með sumum, en á móti öðrum, á þeim grundvelli. Þessi ummæli voru það einkum, sem komu mér til að standa upp aftur, en það er til lítils að vera að tala um svona hluti langt mál. Þeir deildarmenn, sem eru inni, skilja þetta og langrar útlistunar þarf ekki við.

Þá taldi hv. frsm., að það væri óheppilegt að taka sýsluvegi upp í tölu þjóðvega, af því að vegamálastjóri réði þá mestu um byggingu þeirra og hvenær farið yrði að vinna að þeim.

Hvað snertir Svínvetningabraut, frá Blönduósi að Svínavatni, þá ber ég nú ekki svo mikinn kvíðboga fyrir þessu, af því að það er nú búið að leggja þá braut. Þar er því aðeins um viðhald að ræða. Nokkuð öðru máli gegnir um Vatnsdalsveginn, frá Vatnsdalshólum að Undirfelli, sem að litlu leyti er lagður vegur, og þar vantar nauðsynlega brú á smáá, sem oft er ill yfirferðar.

En það var sérstaklega eitt atriði í ræðu hv. frsm., sem ég kunni ekki við, þar sem hann sagði, að n. legði á móti því, að innanhéraðsvegir væru gerðir að þjóðvegum. Ég sé ekki betur en að fjöldinn af þeim vegum, sem hér verða bornir undir atkvæði, bæði í frv. og í brtt. einstakra þdm., séu innanhéraðsvegir. Ég er ekki klókur í því fyrirfram, hvaða afstöðu hv. þdm. ætla að taka. Mér skilst, að ýmsum brtt. verði frestað til 3. umr., en líklega hljóta þær að koma þá undir atkvæði. (EÁrna: Það er ekki víst). Ja, ég verð nú að segja, að ég met það ekki sérlega mikils, þó að 2 hv. nm. segist ætla að fórna sínum brtt., ef þeir geta með því fellt brtt. allra annara þdm. Ég ætla mér ekki að þakka hv. n. þá hugulsemi, en hv. 2. þm. S.-M. má gera það, ef honum sýnist.