18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

23. mál, breyt. á vegalögum

Frsm. (Einar Árnason):

Ég ætla aðeins að fara örfáum orðum um það, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði um innanhéraðsvegina. Hann gat þess, að ýmsir af þeim vegum hefðu verið teknir upp í þetta frv. Það er vitanlegt, að þjóðvegirnir eru líka í mörgum tilfellum innanhéraðsvegir. Hv. þm. gat um nokkra vegi, er væru hliðstæðir þeim, er hann flytur brtt. um: Hafnarfjallsveg, Fljótsheiðarveg o. fl. Ég skal t. d. nefna Hafnarfjallsveg í Borgarfjarðarsýslu, sem er innanhéraðsvegur. Það er ekki sanngjarnt, að sýslan kosti að mestu lagningu þess vegar, því þess ber að gæta, að þar er mjög mikil umferð langferðamanna. Sama má segja um Fljótshlíðarveg. Þessi viðbót, sem þar er um að ræða, er aðeins tæpir 3 km. inn að hinum fornfræga stað, Hlíðarenda í Fljótshlíð, sem margir útlendir og innlendir langferðamenn vilja gjarnan heimsækja og skoða. Hinsvegar ber einnig að gæta þess um Hafnarfjallsveg, að þó hann liggi eftir miðri sveit, þá er hann einn kafli í hinum langa og fjölfarna Norðurlandsvegi. Þess vegna hlýtur hann að verða tekinn í þjóðvegatölu, og á því ekkert skylt við þá vegi, sem hv. þm. A.-Húnv. flytur till. um.

Annars vil ég taka það fram aftur fyrir hönd n., að hún telur rétt, að frv. sé samþ. óbreytt, þó að hún hinsvegar leggi ekkert kapp á það að fella allar brtt. einstakra þdm. Hún vill aðeins benda á, að það muni vera mjög varhugavert að bæta öllum vegaköflunum, sem einstakir þdm. flytja brtt. um, inn í frv., af því að það getur valdið hinu mesta reiðuleysi í vegamálunum og tafið fyrir því, að þetta frv. verði að lögum.