21.04.1933
Efri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

23. mál, breyt. á vegalögum

Jón Baldvinsson:

Smátt og smátt eru að koma nýjar og nýjar brtt. við vegalagafrv., og ætla ég að auka þar við og bera fram 2 nýjar till.

Svo leit út í upphafi þessarar umr., sem n. mundi verða andvíg því, að fleiri brtt. kæmu til greina við frv. en samþ. höfðu verið við 2. umr., en mér skilst, að hér muni koma fram fleiri till. og verða samþ., og eiga þær að vísu fullan rétt á sér flestar, en mínar till., sem ég ætla hér að leyfa mér að bera fram, eiga það í tvennum skilningi. Fyrst og fremst fjalla þær um vegi á Vestfjörðum, en þar hefir verið lagt minna af vegum en í öðrum héruðum landsins, að Austfjörðum einum ef til vill undanskildum, og líklega þó ekki. Á Vestfjörðum er og erfitt um vegarlagningar, og munu Vestfirðingar yfirleitt seilast til að nota sjó til flutninga, en það hefir þó sýnt sig, að flutningarnir eru öruggari og ódýrari, ef hægt er að koma þeim við á landi eftir veg milli þorpanna. Væri t. d. vegur milli Ísafjarðar og Bolungavíkur, væri ódýrara að flytja á bifreið milli staðanna en að manna út mótorbát í þessu skyni.

Ég hefi því leyft mér að bera fram svo hljóðandi brtt.:

„Við 1. gr. B. 12. a. Nýir liðir:

1. Frá Ísafirði um Hnífsdal til Bolungavíkur.

2. Frá Ísafirði kringum Skutulsfjörð til Súðavíkur“.

Þessi þrjú þorp, sem hér er farið fram á að tengja saman með veg, eru allmannmörg.

Síðari brtt. gengur í þá átt, að tengja saman Ísafjörð og Súðavík. Í Súðavík hefir mjög aukizt útgerð á seinni árum, og því mikið hagsmunamál, að samgöngur séu gerðar þar á milli, einnig á landi. Enda ætti svo að vera, að Ísafjörður gæti tengzt við vegakerfið úr Dalasýslu, að Arngerðareyri sunnan við Djúpið, eins og tengja á Reykjavík við Austfirði. Það væri mjög eðlilegt, að svo væri gert, þegar þess er gætt, hve miklar tekjur ríkissjóður fær úr þessum landshluta, Vestfjörðum, og hve spart ríkið hefir þó jafnan verið á framlög til verklegra framkvæmda þar, jafnvel þótt brimbrjóturinn í Bolungavík sé reiknaður með. Vænti ég því þess, að deildin veiti þessum brtt. fyrst og fremst afbrigði frá þingsköpum og samþ. þær því næst, því að ég hygg, að þær eigi meiri rétt á sér en margar aðrar brtt., sem hér hafa verið bornar fram.