21.04.1933
Efri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

23. mál, breyt. á vegalögum

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Mér skilst, að sá meiningamunur, sem hér er, sé einkum um það, hvort miða eigi þessa áætlun við nokkur næstu ár eða óralangan tíma. Frá hinu síðara sjónarmiði eru brtt. fram komnar, en það er mjög erfitt að semja áætlun fyrir mjög langan tíma um þessar framkvæmdir. Og ég held, að það verði engum til góðs að semja lög um vegi, sem engin kostnaðaráætlun er til um og sumstaðar ekki einu sinni lengdarmælingar eða rannsókn á vegarstæðum. Ég hefi þá skoðun, að betra sé að miða áætlunina við stuttan tíma og endurbæta hana síðan eftir þörfum. A. m. k. þurfa að fara fram rækilegri rannsóknir og athuganir á öllu vegakerfinu og nákvæmari kostnaðaráætlanir en enn eru gerðar, áður en hrapað er að því að ákveða með lögum, að allir þeir vegir skuli gerðir að þjóðvegum, sem hv. þdm. bera fyrir brjósti. Ég held því fram, að lögin ein séu ekki einhlít til að leggja vegina. Austurland hefir nú á 6. hundrað km. í vegalögum, en vegi, því miður, ekki að sama skapi. Því gæti ég trúað því, að það drægist að leggja suma þá vegi, sem brtt. hljóða um, t. d. veginn til Mjóafjarðar.

Einn sýslunefndaroddviti hefir tjáð mér, að ef brtt. um þjóðvegi í hans sýslu verði allar samþ., sé stefnt til vandræða um vegamál sýslunnar. Verði allir sýsluvegir gerðir að þjóðvegum, kippa sýslurnar að sér hendinni og framlag ríkissjóðs fellur burt. Það getur því hreint og beint orðið til að tefja fyrir vegagerðum að taka þessa vegi upp í frv.

Hér eru margar brtt. um fjallvegi, sem hefir verið hugsað til að leggja fé til úr ríkissjóði án nýrrar löggjafar. Til eins sýsluvegar, sem mikil umferð er um, hefir verið lagt meira fé en lög áskilja. Og með því að taka sérstakt tillit til slíkra vega fæst betri lausn fyrir báða aðila en með því að taka þá í þjóðvegatölu. Þó get ég viðurkennt, að í sumum brtt. eru vegir, sem öll sanngirni mælir með að taka upp í frv. Vil ég sérstaklega nefna veginn yfir Siglufjarðarskarð, sem opnar samband við upplandið og yrði til hagsbóta bæði fyrir kaupstaðinn og héruðin, sem þá fá aðstöðu til þess að notfæra sér markaðsmöguleika. í Siglufjarðarkaupstað. Með þessari brtt. vildi ég því mæla, einkum þar sem búið er að samþ. brtt. um veg til Norðfjarðar.

Ég skal ekki fara út í einstakar brtt. Þær hafa ekki verið bornar fram í samráði við stj. eða vegamálastjóra. Þess hefir því ekki verið kostur að láta sérfræðing gera þar um neina athugun, og því síður áætlanir. En af hliðarálmunum tel ég mesta sanngirni mæla með álmunni til Þykkvabæjar. Þar er stórt þorp, sem lifir mest á mjólkurframleiðslu, og mælir öll sanngirni með því, að þessum mönnum sé veitt hjálp til að koma vörum sínum á markað.

Ég vænti þess, að hv. d. miði atkv. sín við það, að fá sem bezta lausn í bili, en geri ekki þær breyt. á frv., að því sé stefnt út í þær öfgar, að það nái alls ekki fram að ganga á þinginu.