08.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

23. mál, breyt. á vegalögum

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Hæstv. stj. lagði þetta frv. fram í byrjun þings, og hefir það nú gengið í gegnum Ed. Tók það þar allverulegum breyt., því að þar var allmörgum vegaköflum bætt í þjóðvegatölu. Þeir liðir, sem bætt var inn í frv., eru 4., 5. og 7. liður 1. gr. c., sem sé Vatnsdalsvegur, Svínvetningabraut og Siglufjarðarvegur. Þá var og bætt inn í frv. 4., 8., 9. og 10. lið 1. gr. D., en það er Upphéraðsvegur, Norðfjarðarvegur, Fáskrúðsfjarðarvegur og Mjóafjarðarvegur.

Ef þessar breyt. eru athugaðar, þá sést, að vegirnir, sem bætzt hafa í frv. í Ed., eru aðallega í tveimur landshlutum, sem sé Austurlandi, og mest í Múlasýslum, og svo í Norðlendingafjórðungi, og mest í Húnavatnssýslu. N. átti tal við vegamálastjóra um þessa viðauka. Hann taldi, að þarna væri fulllangt gengið, og óskaði í raun og veru eftir, að flestir þessara viðauka væru teknir út aftur. N. sá sér ekki fært að breyta frv. mikið frá því, sem Ed. gekk frá því, ef líkindi ættu að vera til, að frv. gæti gengið fram á þessu þingi, en til þess áleit n. vera knýjandi þörf. Þess vegna fór hún þá leið, í stað þess að taka út viðauka Ed., sem hæpið verður að teljast, að séu þar réttmætir, að leggja til, að nokkrum liðum yrði bætt inn í frv., til að jafna það misræmi, sem orðið var á frv. eins og það kom frá Ed.

Þessir liðir, sem n. leggur til, að bætt verði inn í frv., eru prentaðir ásamt nál. á þskj. 555. Er þar fyrst Þykkvabæjarvegur, frá vegamótum Suðurlandsvegar fyrir vestan Ægissíðu að Hábæ í Þykkvabæ. Það virðist alveg eins rétt, að þessi vegur teljist með þjóðvegum eins og t. d. vegurinn, niður á Eyrarbakka og Stokkseyri, sem tengir heil þorp við þjóðvegakerfi landsins. Þarna er fjölmennt þorp, sem hefir blómgast á síðari árum. Þarna er því mikil flutningaþörf og því brýn nauðsyn að fá þennan vegarspotta sem fyrst. Þessi vegur er aðeins 16 km. að lengd.

Þá er Bolungavíkurvegur, frá Ísafirði um Hnífsdal til Bolungavíkur. Það er ekki mikið um þjóðvegi í Ísafjarðarsýslu eða Vestfjörðum yfirleitt, því að þar er yfirleitt mjög slæm aðstaða til vegalagninga. Það virðist því fullkomlega réttmætt, að leiðin milli þessara fjölmennu kaupstaða, Ísafjarðar og Bolungavíkur, sé tekin í tölu þjóðvega, þar sem vegarstæði er líka talið sæmilegt á þessari leið.

Þá er 3. brtt. n., Miðfjarðarvegur, frá vegamótum sunnan Melstaðar að Litlu-Tungu. Þessi till. er einkum borin fram til jöfnunar milli Vestur- og Austur-Húnavatnssýslna, þar sem hv. Ed. tók 2 vegi í austursýslunni inn í frv., sem alveg eru hliðstæðir þessum vegi í vestursýslunni. Væri órétt að afgr. frv. þannig, að bætt væri við tveimur hliðstæðum vegum í austursýslunni, en engum í vestursýslunni.

4. brtt. n. er um að Mývatnsvegur frá Breiðamýri að Skútustöðum verði tekinn í þjóðvegatölu. Ég hygg, að það hafi frekar verið gleymska en ásetningur hjá stj., þegar hún lét semja frv., að þessi vegur skyldi ekki vera tekinn með, því að með honum er fjölmenn sveit tengd við vegakerfi landsins. Einnig er þess að gæta, að nú orðið fer mjög margt fólk þessa leið í skemmtiferðum að sumarlagi, og er það alltaf að færast í vöxt. Ég hygg, að það sé sérstakl. þessi vegur, sem sjálfsagt sé að taka upp í frv. eins og það er nú orðið.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég vekja athygli á prentvillu, sem er í nál. Þar stendur, að vegir þeir, sem Ed. hefir bætt inn í þjóðvegatölu, og þeir vegir, sem samgöngumálan. Nd. leggur til að hætt verði við, séu samtals 380 km. að lengd, en á að vera 280 km. Þetta er líka auðséð á því, að í nál. er það tekið fram, að þeir vegir, sem Ed. bætti inn í frv., séu 180—190 km., en þeir vegir, sem n. leggur nú til, að bætt verði við, séu um 100 km.