08.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

23. mál, breyt. á vegalögum

Ingólfur Bjarnarson:

Ég á 3 brtt. við þetta frv. Hin fyrsta er á þskj. 532 og er í tveimur liðum. 1. liðurinn lýtur að breyt. á Norðurlandsveginum, þannig, að úr því kemur austur fyrir Ljósavatnsskarð, þá skuli þjóðvegurinn liggja norður Köldukinn yfir fyrirhugaða brú á Skjálfandafljóti, sem ákveðin er í brúalögunum, norðan við svonefndan Núp, fram hjá Garði. Leiðin, sem hér um ræðir, er um 27 km., en lengd þjóðvegarins eins og nú er, yfir Fljótsheiði, er 33 km., eða 6 km. lengri en verða mundi, ef hann lægi hina leiðina. Þetta er tekið upp eftir skýrslu vegamálastjóra, svo að ég hygg, að þetta muni vera rétt.

Annað er það líka, sem ynnist við þessa breyt., að vegurinn lægi alltaf á láglendi fyrir norðan endann á Fljótsheiðinni, norðan undir svonefndum Núp. En nú liggur leiðin, eins og mönnum er kunnugt, yfir Fljótsheiði, sem oft er illur farartálmi fyrir bíla að vetrarlagi og fram eftir vori vegna snjóþyngsla. Ætti það að vera auðskilið öllum, að ólíkt er að leggja vegi og halda þeim við uppi á heiðum eða niðri á láglendinu.

Ég vil geta þess, að vegamálastjóri og starfsmenn hans, sem starfað hafa að brúagerðum og vegagerðum þar nyrðra, hafa lýst því yfir við mig og aðra, að þeir teldu sjálfsagt, að vegurinn lægi þarna í framtíðinni, en vegamálastjóri hinsvegar tekið það fram, að fé væri ekki fyrir hendi sem stæði til þess að byrja á þessum framkvæmdum, og að meðan ekki væri komin brú á Skjálfandafljót þarna, kæmi vegurinn ekki að gagni. Leiðin frá Krossi og að Skjálfandafljótsbrúnni fyrirhuguðu er 17 km., óveguð sem stendur og ekki fær bílum. En þaðan og á brautina hjá Garði, sem er um 10 km. leið, er nú þegar kominn bílfær vegur. Nú finnst mér, þegar verið er að ákveða framtíðarskipulag þjóðvegarins, æði andkannalegt, ef ekki yrðu strax ákveðnir þeir vegir, sem sjálfsagðir eru taldir í framtíðinni. Og er sjálfsagt við endurskoðun vegalaganna að taka upp það skipulag, sem á að ríkja, og sem tryggir, að framkvæmdir á þessu sviði komi ekki í bága við framtíðarskipulagið. Hinsvegar er hér ekki farið fram á, að þessi vegur sé strax byggður, enda legg ég ekki til, að sá þjóðvegur, sem nú er ákveðinn, falli niður, en mér þykir líklegt, þegar búið er að leggja þennan nýja veg, sem hér um ræðir, þá megi fella Fljótsheiðarveginn úr tölu þjóðvega og gera hann að fjallvegi. Þetta er mestmegnis gamall vegur, góður á sumrin, þegar þurrt er um, en eigi nægilega upphækkaður, svo hann er slæmur að vetrarlagi. Það væri því óskynsamlegt, að byggja þennan veg upp og máske leggja í hann stórfé með það fyrir augum, að þjóðvegurinn yrði svo lagður allt annarsstaðar. Ég hélt þessu fram í samtali mínu við vegamálastjóra, og viðurkenndi hann, að þetta væri alveg rétt og var mér samdóma um, að það bæri að taka þennan veg upp í vegalögin síðar meir sem þjóðveg.

Þá kem ég að 2. lið á sama þskj., um að taka upp í þjóðvegatölu hinn svonefnda Mývatnsveg. Samgmn. hefir tekið vel undir þetta og lagt það til. Þessi vegur liggur frá Breiðamýri fram Reykjadal upp að Mývatnsheiði. Er sú leið um 13 km. Þarna er lagður vegur mjög vandaður og fullgerður fyrir nokkru. Vegurinn yfir Mývatnsheiði frá Máskoti að Helluvaði er um 10 km. Þetta er fjallvegur, sem ríkið kostar nú hvort sem er.

Nú stendur svo á, síðan Mývatnsheiði varð bílfær á sumrum, að um þennan veg er óslitinn ferðamannastraumur 1—2 mánuði á sumri hverju. Þennan tíma fara oft fleiri tugir bíla um veginn á dag. Ég læt þetta nægja, en tek undir það, sem hv. þm. Borgf. tók fram í ræðu sinni, að það er ekki sanngjarnt að ætla héruðunum að viðhalda vegum fyrir langferðamenn. Í þessu tilfelli hefir héraðið lagt fram mikla fjárhæð til að byggja myndarlegan veg, svo að hér er aðeins um viðhald að ræða. Þar sem hv. samgmn. hefir tekið það fram um þennan veg, að hann væri sérstaklega maklegur til þess að verða tekinn upp í þjóðvegatölu, þá sé ég ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta meira, en vænti, að hv. d. geti fallizt á till. n. í þessu efni. Ég get að endingu hent á það, að vegamálastjórnin telur sýnilega rétt, að ríkið taki að sér viðhald á skemmtiferðavegum, eins og t. d. upp að Geysi, upp í Hreppa, austur í Fljótshlíð o. s. frv., og hér stendur alveg eins á um þennan veg.

Þá á ég till. á þskj. 588, um að ákveðinn sé þjóðvegur frá Veigastöðum gegnt Akureyri út með ströndinni norður að Grenivík. Vegalagafrv. hefir tekið miklum breyt. frá því það var lagt fram í efri deild, og ég býst við, að í þessari hv. d. verði fleiri nýir vegir teknir upp. Er það meðfram tilefni þess, að ég ber fram þessa till., því hún á sannarlega rétt á sér, eftir þeirri stefnu, sem virðist koma fram í þessu máli hjá þingi og stjórn. Ég vil benda á til samanburðar till. um að taka veginn vestanmegin fjarðarins upp í þjóðvegatölu, sem hæstv. stj. hefir borið fram. Mér er satt að segja ekki almennilega ljóst, hver munur er á þessum vegum austanmegin fjarðarins og vestan. Austanmegin fjarðarins er mjög þéttbýlt; þar búa 12—13 hundruð manns. Mér virðist þessir íbúar austanmegin hafa jafnan rétt til stuðnings frá ríkinu til vegagerða eins og þeir, sem vestanmegin búa. Ég vildi gjarnan heyra rök, sem mæltu í móti því, frá hæstv. stjórn. Ég flyt þessa till samkv. ósk þeirra héraða, sem hlut eiga að máli og þykist órétti beittur, ef ríkið tekur að sér vegagerðina vestan fjarðarins, en ekki að austan.

Eins og nú standa sakir, þá er búið að leggja veg að mestu leyti frá Grenivík að Fnjóskárbrú. Sömuleiðis eftir Svalbarðsströndinni út að sveitamörkum, en sá vegur er ekki fullkominn, enda þótt bílfært sé að sumarlagi. Ég veit ekki, hvað þessi leið er löng; það er ekki hægt að sjá af skýrslum vegamálastjóra. Þar er þessa vegar ekki getið, enda þótt þar séu nefndir margir innsveitavegir. Finnst mér þetta benda til þess, að ekki sé hugsað mjög um vegaþörf þarna. Ég gæti gizkað á, að leið þessi væri um 35 km. a. m. k., og tel það vera knýjandi nauðsyn fyrir héraðsbúa að fá þarna góðan veg. Höfðahverfið er mannmargt, en hefir slæmar hafnir, og því valt að byggja á sjóleiðina. Enda fyllsta réttlæti, að þjóðvegur sé ákveðinn þarna, í samanburði við ýmsa vegi, sem þegar eru komnir í frv. og augsýnilega hafa stórum minni rétt. — Ég sé svo ekki þörf að orðlengja þetta, en vil bæta því við um brtt. mína á þskj. 588, að hún er nýkomin fram, og hefir hvorki hv. samgmn. né vegamálastjóra gefizt kostur á að kynna sér hana. Ég tel því réttara, ef n. óskar eftir því, að taka hana aftur til 3. umr. Ég legg ekki kapp á, að hún komi til atkv. nú við þessa umr., ef hv. n. æskir eftir því að fá að athuga hana betur.