10.05.1933
Neðri deild: 70. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

23. mál, breyt. á vegalögum

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. við 9. lið 1. gr. A. í þessu frv. Í frv. er ætlazt til, að tekinn sé í þjóðvegatölu vegurinn frá vegamótum Skeiðavegar sunnar Laxár um brú á Kálfá að vegamótum hjá Þjórsárholti. En í till. minni er farið fram á, að þessi liður orðist svo:

Gnúpverjavegur: Frá vegamótum Skeiðavegar sunnan Laxár um brú á Kálfá og norðan Skaftholtsmúla að Ásólfsstöðum. Frv. gerir ráð fyrir, að þjóðvegurinn á þessari mjög fjölförnu leið nái ekki nema að Þjórsárholti. Umferðin að þessum stað er ekki nema að nokkru leyti fyrir skemmtiferðafólk, því að þessi vegur nær ekki nema fram í miðjan dalinn. En nú er orðinn mjög mikill ferðamannastraumur í Þjórsárdal, en hann fer yfirleitt lengra inn í dalinn en ætlazt er til, að þessi þjóðvegur nái. Það er aðallega um helgar á sumrin, að fólksstraumurinn er mestur, og fara þá stundum tugir bíla fullir af fólki innst inn í dal. Frá Þjórsárholti inn í dalinn eru þetta 20—25 km., en till. mín fer ekki fram á, að tekinn sé í þjóðvegatölu lengri vegarkafli en að Ásólfsstöðum, og mun það vera um 12 km. lengra en nú er ætlazt til í frv. Ég ætlast ekki til þess, að byggður sé vegur austur að ferjustaðnum Þjórsárholti, heldur sé veginum haldið áfram upp með Þjórsá, allt að Ásólfsstöðum. Frá Skaftholtsmúla að Ásólfsstöðum mun vera um 15 km., en með því að samþ. brtt. mína sparast vegurinn austur að ánni. En þar sem þetta er svo mjög fjölfarin leið, er sýslufélaginu ekki almennilega kleift að halda veginum við sem skyldi. Og mér finnst sjálfsagt, að þessi vegarspotti verði tekinn í þjóðvegatölu, fyrst verið er að gera breyt. á vega1. á annað borð, sérstaklega af því að svona stendur á, að vegurinn er eiginlega að litlu leyti í þágu sveitarinnar. Það eru ekki nema 2—3 bæir þarna inni í dalnum, sem gagn hafa af þessari þjóðvegaviðbót, — en hann er í þágu þeirra mörgu vegfarenda, sem þarna eiga leið um, og þeirra bílaeigenda, sem stöðugt senda vagna sína í þessar ferðir. Ég vænti þess, að þeir, sem hafa heyrt mig skýra frá þessari brtt., hvað þetta er lítil viðbót, en þó nauðsynleg, geti fallizt á hana. Ég skil það vel, að það muni reynast ærið erfitt fyrir þessa hv. d. að samþ. allar þær brtt., sem fram eru komnar, en ef aðrir tillögumenn gætu orðið ásáttir um að taka brtt. sínar aftur til 3. umr. og freista þess, hvort ekki væri hægt að komast að sanngjarnri lausn þessa máls, væri ég fús til að taka mína brtt. aftur líka. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál, þar eð ég mun ekki gera brtt. annara að umtalsefni.