10.05.1933
Neðri deild: 70. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

23. mál, breyt. á vegalögum

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Fyrir hönd nefndarinnar hefi ég ekki mikið að segja um tillögur þessar, sem fram eru komnar. Fyrir þeim liggur víst öllum nokkur sanngirni og eflaust mikil þörf, og ég efast ekki um, að framgangur þeirra skipti nokkru máli fyrir sýslur þær, er hlut eiga að máli, og það undrast ég ekki, þó að hv. þm. sýni áhuga fyrir velferð héraða sinna, með því að reyna að sjá sem bezt borgið hagsmunum þeirra við afgreiðslu þessa frv., því að ég er sannfærður um það, að samgöngurnar eru þeim öllum eitt hið þýðingarmesta velferðar- og framtíðarmál. Hinsvegar verður því ekki neitað, að inn í frv. er komin mjög mikil viðbót frá því, er var í upphafi, og verður eflaust meiri, ef taka á upp allt, sem til fulls jafnaðar horfir; og því álítur n., að frekari viðbót muni mjög hefta framgang málsins, og mun hún yfirleitt mæla gegn viðbótartill., þótt hún reyni að meta tillögurnar og að sýna þar á fulla sanngirni. Ég ætla ekki að fara sérstaklega inn á hinar ýmsu tillögur, en þó vil ég benda á það, sem mælt hefir verið fyrir ýmsum till., t. d. þegar hv. þm. Borgf. talaði fyrir sinni till., um að Reykholtsvegur yrði tekinn í þjóðvegatölu vegna þess, að um hann færi svo mikill ferðamannastraumur mestan hluta sumars. Þetta er alveg sama og hv. þm. Árn. lét um sína till. mælt. Þetta er að vísu rétt, en það eru nú fleiri sveitir, og þær ekki svo fáar, sem eiga slíka vegi, sem mikið eru notaðir af ferðafólki á sumrum, en sveitirnar standa þó að öllu leyti undir þeim einar. Sú röksemdafærsla mundi óhjákvæmilega hafa í för með sér mjög mikla aukningu. Um það hnútukast til n., að hún hafi nokkuð freklega séð um hlut sinna héraða, eins og hv. þm. Barð. sagði, þarf ég ekki að fjölyrða. (ÓTh: Já, það var víst nokkuð ómaklegt!). Ég gat um þær breyt., sem gerðar hafa verið til þess að jafna það misrétti milli héraðanna, sem nú er, og er vonandi, að hv. d. láti þær ná fram að ganga. Ég skal til skýringar benda á þá skrá, sem vegamálastjóri hefir látið fylgja till. sínum. Af henni kemur greinilega í ljós, hve misskipt er milli einstakra héraða við þá aukningu, sem upphaflega er tekin inn í frv. Ég vil t. d. benda á, að í Borgarfjarðarsýslu hafa verið teknir upp nýir vegir, 64 km. að lengd. Í Snæfellsnessýslu 70,6 km. og í Barðastrandarsýslu 27 km., sem hefir þó hér verið kvartað um, að hafi verið útundan. Í V.-Ísafjarðarsýslu 15 km., Skagafjarðarsýslu 25 km., Eyjafjarðarsýslu 34,8 km., Norður-Þingeyjarsýslu 122 km., Norður-Múlasýslu 97 km. og Suður-Múlasýslu 48 km. og Árnessýslu 38,4 km. Og hefir Ed. bætt við sumar þessar tölur allverulega. Ef nú er lítið á þær sýslur, sem útundan hafa orðið, þá sézt, hve hörmulegt misréttið er. Í Rangárvallasýslu er aukningin 2,5 km., Norður-Ísafjarðarsýslu ekki neitt, Vestur-Húnavatnssýslu ekkert, Suður-Þingeyjarsýslu 22 km. Ég get ekki séð, að um nokkra hlutdrægni sé að ræða af n. hálfu, þótt hún leggi til að jafna þetta lítið eitt. Hér er beint gengið út frá skýrslum, sem fyrir lágu. Ég bendi á það líka, að í Skaftafellssýslu er engin aukning. En þar er svo fyrir komið frá náttúrunnar hendi, að sú eina lína þjóðvegar, sem þar er, liggur eftir hverjum hreppi þverum, að undanteknum 2 í V.-Skaftafellsýslu. Ég vænti þess, að hv. þdm. sjái það ljóslega af tölum þeim, er skýrslurnar sýna, að n. er alls ekki að draga sinn hlut, enda liggur í augum uppi, að nauðsynlegt er að viðhafa gætni og varfærni, ef málið á að ná afgreiðslu. Hæstv. ráðh. talaði um að fella niður brtt. (Atvmrh.: Ekki allar, bara 3). Já, það get ég ekki láð hæstv. ráðh., þótt hann óski þess, að frv. gangi í gegn eins og frá því var gengið af honum sjálfum, en vegamálastjóri hefir þegar viðurkennt, að nokkrir af þessum vegum eigi fullan rétt á að vera teknir upp í frv. Og það er alls ekki óeðlilegt, að hv. þm. þekki fullt svo vel þörf sinna héraða til vegabóta sem hæstv. stjórn og geti frekar bent á það, sem bæta þarf í þeim efnum. En það mun alveg rétt, að aukning verður allmikil á frv., og er fyllsta þörf á því, að gerðar verði rannsóknir til þess, að betra samræmi náist ef taka ætti til greina einhverjar af till. hv. þm. En ég býst við, að þar sem liðið er á þingið, þá verði nokkur tvísýna um afgreiðslu málsins, ef annað á að taka en till. samgmn., og þar eð þær hafa mest til síns máls, þá er sjálfsagt, að þær gangi fyrir. En það er náttúrlega ekki úr vegi, að hitt verði tekið upp síðar, og þessir vegir verði teknir í þjóðvegatölu á næstu árum. Ég vil því f. h. n. ráða hv. deild til að samþ. frv. með viðaukum nefndarinnar, ef það er á annað borð ætlun hv. þm. að fá afgreiðslu á málinu að þessu sinni.