04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Allshn. vill mæla með því, að þetta frv. verði samþ. með nokkrum smábreytingum. Að vísu hafa tveir hv. nm., hv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm., skrifað undir nál. með fyrirvara, en sá fyrirvari hygg ég, að snerti ekki þær brtt., sem liggja fyrir frá n., heldur um viss atriði í frv. sjálfu. Ég mun því ekki gera fyrirvara þeirra að neinu umtalsefni í þeim fáu orðum, sem ég segi hér f. h. n.

N. lítur svo á, að það sé nauðsynlegt og sjálfsagt að samræma löggjöf í þessu efni. Löggjöfin er gömul, frá 1902, með ýmsum breyt. og viðaukum, sem síðar hafa verið gerðar. L. eru ekki miðuð við þær kröfur, sem nú eru gerðar, og aðstaða öll önnur nú en þá, þá var hér enginn sími, engir möguleikar um loftferðir, samgöngur við útlönd strjálar við það, sem nú er, og fleira mætti telja. Þetta eru allt hlutir, sem verður að taka til yfirvegunar og hefir áhrif á löggjöf, sem sett verður um þetta efni.

N. hefir einnig haft til athugunar brtt. frá hv. þm. Ísaf. á þskj. 61, og fallizt á þær með lítilsháttar breyt. Fyrsta brtt. n. á við fyrstu brtt. hv. þm. Ísaf. og er aðeins orðabreyt. Það þykir betur fara að segja, að þegar héraðslæknir hefir rannsakað skip, úrskurði hann, að heilbrigðisvottorð megi gefa, en skipi ekki fyrir um það, eins og í brtt. stendur, því að vald læknis nær ekki lengra en að úrskurða, að óhætt sé að gefa heilbrigðisvottorð.

2. brtt. er að leggja til, að niðurlag 1. brtt. á þskj. 61 verði fellt niður, þar sem svo er ákveðið, að ef skipstjóri vill heldur leggja frá landi, en ekki bíða þar til úrskurðað hefir verið um heilbrigðisástand, þá sé honum ekki meinað að fara. Þetta ákvæði er algerlega óþarft, því að vitanlega þarf ekki að taka það fram í lögum, að skipstjóra sé slíkt heimilt; slíkt geta engin lagaákvæði hvorki veitt eða bannað.

Þá leggur n. til, að 17. gr. frv. sé felld niður. Þar er svo ákveðið, að ef skipstjóri lýsir yfir, að hann sé eingöngu kominn til að afla sér kola og vista eða annara nauðsynja, þá geti hann heimtað skipið undanþegið læknisrannsókn, ef hann gengst undir það eftirlit, sem sóttvarnarnefnd telur þörf á að setja til tryggingar því, að erlend sótt berist ekki á land úr skipinu. N. áleit enga þörf þessarar undanþágu, einkum með tilliti til þess, að hér í þessu frv. er ekki að ræða um eins margar sóttir, sem ströng- um sóttvörnum er beitt gegn, eins og gert er samkv. hinni gömlu löggjöf. Þar til má nefna bæði mislinga og skarlatssótt.

4. brtt. er í raun og veru ekki annað en afleiðing af niðurfellingu 17. gr., því að b-liður í 25. gr. er í sambandi við 17. gr., og það er sá liður, sem 4. brtt. fer fram á, að felldur sé niður.

Fleiri brtt. hefir n. ekki gert og fellst á frv. að öðru leyti óbreytt.