04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það, sem ég sagði áðan um þessa víðtæku heilbrigðislöggjöf, var ekki beinlínis viðkomandi þessu frv., og auk þess ekkert stórvægilegt, en ég verð að segja, að þótt löggjöfin aldrei sé nema 30 ára, þá er það engin sönnun fyrir því, að henni þurfi að breyta. Það yrði kostnaðarsamt, ef einhverjar misfellur koma fram, að taka þá alla þessa bálka upp og breyta í þeim smáatriðum. Það hefir verið reynt að komast af með þær breyt., sem nauðsynlegar eru. Það eru dálítil óþægindi af því, en aðeins eitt af þeim mörgu óþægindum, sem menn taka á sig. Annars gat ég um þetta í sambandi við þetta frv. vegna þess, að það hefir gert mig dálítið hræddan við, hve lítils virði er meðferð þingsins á svona málum, sem ganga meira og minna í gegnum þingið eftir till. fagmanna. Ráðh. sagði, að hann færi eftir sínum ráðunautum, en ég verð að álíta, að ráðh. eigi að beita sinni dómgreind um það, sem fagmennirnir segja. En mér virðist, að í þessu efni hafi það, er hv. þm. Ísaf. sagði, ekkert raskað minni skoðun á því atriði, að hér er um afturför að ræða. Það er ómögulegt að sannfæra nokkurn mann um það, að læknar séu allra manna minnst dómbærir um sjúkdóma og meiri trygging sé í því að láta tollverðina athuga, hvort sjúkdómar séu, heldur en jafnvel hinn andvaralausasta lækni. En ætli tollverðir verði þá ekki eins andvaralausir og læknar á því að fara oft út í skip? Hv. þm. sagði, að ég hefði ekki minnzt á annað en að allt læknaeftirlit með skipum ætti að hverfa úr sögunni. Mér er vel kunnugt, að ef sóttgæzlumaðurinn verður var við, að eitthvað sé á seyði, þá á hann að sækja lækni, og með því er lækniseftirlit komið. En fyrst úrskurðurinn er hjá tollverði um það, hvort skip skuli látið laust eða ekki, þá er ekkert lækniseftirlit með þeim skipum, sem sleppt er lausum. Það, sem ég hefi á móti því að láta ólæknisfróða menn skoða skipin, er, að annaðhvort verður eftirlitið of mikið eða of lítið. Það er hér um bil ómögulegt, að slíkir menn hitti á það, hvenær læknir á að koma. Ef tollverðirnir eru andvaralausir , þá verður eftirlitið of lítið, ef skipstjórinn á annað borð hefir ekki eftirlit. En í afarmörgum tilfellum, sennilega miklu oftar, er eftirlitið of mikið og verður til trafala. Hv. þm. Ísaf. taldi upp fjölda tilfella, sem gætu komið fyrir, að einhver lasleiki væri í skipinu og væri þá ekki annað en sækja lækni. En ef læknirinn væri við hendina, því gæti hann sjálfsagt komið í veg fyrir að tefja skipið. Eftir þessu verður sóttgæzlumaðurinn, ef hann grunar eitthvað, að tefja skipið með því að ná í lækni og baka enn meiri kostnað með því. Það er þessvegna svo fjarri, að ég telji þetta verða til þess að létta trafala af skipunum, að það er líklegt til að baka þeim trafala í mörgum tilfellum. Hv. þm. vitnaði auðvitað í það, hvernig þetta væri haft annarsstaðar. Ég heyri það nú, að á Norðurlöndum sé eftirlitinu hagað eins og hér er gert ráð fyrir. Hv. þm. gat sjálfur um það, að við hefðum að nokkru leyti sérstöðu í þessu efni og að okkur væri minni hætta búin en öðrum. Hann tók þar reyndar dæmi, sem ekki sannfærði mig, sem sé, að skipin væru búin að síast í svo mörgum höfnum áður en þau kæmu hingað. En geta þau nú ekki alveg eins tekið sjúkdóma í þessum höfnum? Okkar öryggi stafar að mínu áliti af því, hve langt er síðan skip þau, er hingað koma, fóru úr erlendum höfnum. Og þetta öryggi gefur okkur möguleika til að hindra ýmislegt það, sem aðrar þjóðir reyna alls ekki að hindra. Það gefur okkur tækifæri til að hindra, að þeir sjúkdómar berist hingað, sem koma fram skömmu eftir smitun, enda er kunnugt, að við getum haldið frá okkur ýmsum sjúkdómum, sem eru að verða landlægir annarsstaðar. Þetta finnst mér réttlæta það, að við höfum önnur og strangari ákvæði um okkar eftirlit og getum með því náð þeim árangri, sem aðrar þjóðir geta ekki reynt að ná. Það er erfitt fyrir mig að ræða þetta mál við hv. þm. Ísaf., sem er fagmaður, en ég algerður leikmaður og verð bara að beita hér mínu venjulega borgaralega viti, en það hefir stundum reynzt vera betra en fagmanna vitið í einstökum tilfellum. En það er einmitt í þessum tilfellum, þegar um er að ræða varnir gegn næmum sjúkdómum, að leikmannavitið fer réttari leiðir en fagþekkingin. Þetta hefir komið fyrir hér á landi.

Í spönsku veikinni 1918 vildi almenningur, að allt væri gert, sem kostur væri á, til varnar því, að veikin bærist hingað til lands. En heilbrigðisyfirvöldin sögðu, að þetta væri ekkert nema venjuleg innflúensa og töldu þýðingarlaust að gera nokkuð til varnar, enda var það ekki gert, svo sem kunnugt er. En það kostaði líka fjöldamörg mannslíf og mikið fé. Þá hefði það verið heillavænlegra, að vilji fólksins hefði fengið að ráða yfir fagviti læknanna, því að þá hefði verið hægt að sporna við þeim ósköpum, sem yfir þjóðina dundu.

Ég er ekki viss um, að ég hafi heyrt rétt það, sem hv. þm. Ísaf. sagði. Hann var eitthvað að tala um þann trafala, sem af því leiddi, að fyrst yrði læknirinn að fara einn út í skipið, og aðrir ekki fyrr en hann væri aftur kominn í land. En á það ekki að vera eins samkv. þessu frv.? Ég get ekki betur séð en að þessi eftirlitsmaður eigi fyrst að fara einn um borð í skipin. Ég á erfitt með að skilja, að það fylgi sá kyngikraftur þessum ólæknisfróða eftirlitsmanni, að aðrir menn geti ekki smitazt, ef þeir fara með honum um borð og ef veikindi kunna að vera í skipinu. Nei, hann verður náttúrlega fyrst að fara einn með tollmanninum.

Ég er ekki kunnugur umsögnum læknastéttarinnar að því er snertir þetta frv. — Það stendur ekkert um það í grg. frv. — og ég trúi því, sem hv. þm. Ísaf. segir sem landlæknir, að læknarnir séu þessu fylgjandi og að þeir muni beygja sig undir það. En ég get ekki trúað því, að læknar telji sig ófæra til að gegna þessu starfi, og ég sannfærðist ekki um, að þetta frv. batni neitt við það, þó að læknar séu því fylgjandi.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að einu læknarnir, sem væru á móti þessu frv., væru þeir, sem misstu tekjur við það, að þetta frv. yrði að lögum. En það þarf ekki að vera vegna tekjumissisins, heldur getur það stafað af því, að þeir eru kunnugri þessum efnum en aðrir. Hv. þm. minntist á héraðslækninn á Akureyri, Steingrím Matthíasson, og taldi, að hann mundi verða af miklum tekjum við það, ef þetta frv. yrði gert að lögum, og þó væri hann því hlynntur. Það kann að vera svo. En ég skil ekkert í því, að það komi svo mörg skip til Akureyrar beint frá útlöndum, þó þau kunni að vera nokkur. Annars finnst mér, að ummæli Stgr. Matt., eftir því sem hv. þm. Ísaf. hefir flutt þau, séu ekki verulega ákveðin. Hann segir að vísu, að þetta læknaeftirlit sé kák. En það er rétt að drepa á fleira. Hvað á að segja um eftirlit læknanna með skólunum? Er það ekki líka kák? En ég álít það nú samt mikils virði, þó að læknirinn geri ekki annað en líta yfir nemendahópinn í bekknum, og slái því svo föstu, að þeir séu heilsuhraustir, ef honum finnst, að þeir séu með hraustleikablæ. Ég gæti því alls ekki léð því atkv. mitt að afnema lækniseftirlitið í skólunum og setja einhverja óvalda tollmenn þangað, til þess að dæma um heilsufar nemenda.

Eftir því sem landlæknir flutti álit Stgr. Matt. á þessu máli, þá mun hann telja lækniseftirlitið lítils virði með skipunum eins og það er nú framkvæmt. En þá tel ég, að rökrétt afleiðing af þeirri umsögn sé sú, að það eigi að bæta eftirlitið, en ekki hið gagnstæða. Annars held ég, að hv. þm. Ísaf. taki nokkuð misjafnt tillit til vitnisburða Stgr. Matt. Og vænti ég, að hann taki hann ekki sem óskeikulan ritningarstað í bannmálinu!

Hv. þm. sagði, að það væri beinlínis óþarfi fyrir lækna að fara um borð í sum skip, t. d. í selfangara, sem kæmu hingað beina leið norðan úr íshafi. En það gæti nú bara komið fyrir, að eitthvert millilandaskip þættist vera selfangari og að slíkt skip hefði innanborðs bæði ólöglegt áfengi og sjúka menn. Nei, það er sjálfsagt, að læknir fari um borð í öll skip, hvort sem það kunna að vera selfangarar eða önnur skip. Læknirinn verður að skoða skipshöfnina, taka skýrslu af skipstjóranum, láta skipið áreiða lítilsháttar gjald fyrir skoðunina, og þá er það frjálst ferða sinna.

Þegar þetta fyrirhugaða nýja eftirlit er komið í framkvæmd, þá er ég viss um, að útkoman verður í mörgum tilfellum sú, að fyrst kemur hinn ólærði eftirlitsmaður fram í skipið og tefur fyrir því góða stund, og ef nokkur grunur er um lasleika í skipinu, þá verður aftur að sækja lækni í land. Það sjá allir, að þetta hlýtur að valda skipinu miklu meiri trafala. Hv. þm. Ísaf. sagði, að læknum yrði náttúrlega ekki bannað að fara um borð í skipin til eftirlits. Mikið var. Venjulega munu þau vænta læknis í þeim erindum, og þetta fyrirkomulag kostar þau lengri bið í flestum tilfellum.

Ég er sammála hv. þm. Ísaf. og hæstv. dómsmrh. um það, að það sé ekkert aðalatriði í þessu máli, þó að einhverjir læknar kunni að tapa tekjum við þessa breyt. á eftirlitinu, og að það muni ekki koma tilfinnanlega niður á öðrum en héraðslækninum í Reykjavík, enda verði að greiða honum bætur fyrir það. En þegar lög eru sett til verndar almenningsheill í landinu, þá held ég því fram, að það geti ekki horft til almenningsheilla, ef eftirlitið verður ótryggara og verra samkv. þessu frv. en það áður var. Það er um þessar forsendur, sem ég er ósammála hv. þm. Ísaf. og hæstv. ráðh. Eins og lögin eru nú, þá er lækni skylt að fara um borð í hvert skip, sem frá útlöndum kemur, til eftirlits; þá væri jafnframt, auk hinnar almennu skoðunar, hægt að láta hann rannsaka aukreitis ýmsa kynsjúkdóma og gera blóðrannsóknir. Ég efast ekki um, að það yrði allerfitt, en þó eru líkur til, að með því mætti útiloka áberandi tilfelli, a. m. k. mætti fækka þeim smitberum, sem fara í land úr skipum og sýkja út frá sér. Vitanlega yrði ekki hægt að útiloka slíka smitun, en það ætti að mega draga mikið úr henni, og það byggist einmitt á því, að læknir fari um borð í skipin til eftirlits. Okkur hv. þm. Ísaf. greinir á um það, sem hann segir í grg. frv.: að höfuðatriðið í þessu efni sé það, að skipstjórinn finni til þeirrar ábyrgðar, sem á honum hvílir. Ég treysti meira á lækniseftirlitið og árvekni heilbrigðisstj. í landinu en ábyrgðartilfinningu ýmsra erlendra skipstjóra, sem koma máske einu sinni eða tvisvar hingað til lands á skipi sínu og vilja hraða ferðum sínum, án þess að hugsa sérstaklega um heilsufar fólks hér á landi. Það er þetta, sem skiptir mestu máli og okkur greinir á um.