04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Jóhann Jósefsson:

Ég hygg, að það stafi af einhverjum misskilningi, sem kom fram í ræðu hv. þm. Ísaf., viðvíkjandi framkomu héraðslæknisins í Vestmannaeyjum. Hann sagði, að það hefðu komið þaðan kvartanir um, að læknirinn færi jafnan einn út í skipin og farþegar fengju ekki að komast með, og gætu ekki farið fyrr en í annari ferð. Ég vildi leiðrétta þetta, af því að ég veit, að hann sem landlæknir segir ekki vísvitandi rangt frá þessu.

Læknirinn fer auðvitað í fyrsta bát um borð í skipin, og það er engum meinað að fara með honum í þeim bát. Venjulega er því þannig háttað, að læknirinn fer fyrst upp í skipin, en farþegarnir bíða í bátnum við skipshlið, á meðan hann er að fullvissa sig um, hvort nokkur sótthætta sé í skipinu.

Það er vitanlega alveg laukrétt, sem hv. 3. þm. Reykv. benti á, að hér verður að fara eins að, þó að tollgæzlumaður eða einhver annar hafi þetta eftirlit á hendi. Hann verður að fara fyrstur í skipin og getur ekki látið fólkið þyrpast um borð á undan sér. Í hvorutveggja tilfellinu verða farþegarnir að bíða á meðan eftirlitið fer fram.

Mér er ekki kunnugt um, að komið hafi fram neinar kvartanir út af því, hvernig héraðslæknirinn í Vestmannaeyjum beitir þessu eftirliti, og furðar því mjög á þessari umsögn hv. þm. Ísaf. Ég veit ekki betur en að héraðslæknirinn gegni starfi sínu trúlega og af samvizkusemi, einnig að því er snertir skipaeftirlitið. Ég þykist því mega fullyrða, að engar slíkar kvartanir hafi borizt frá þeim, sem skipta mest við hann í þessum efnum, en það eru afgreiðslumenn póstskipanna. En úr því að þetta hefir nú verið sagt opinberlega hér í þd., þá væri gott, að hv. þm. Ísaf. vildi upplýsa, hvaðan slíkar kvartanir hafa borizt til landlæknis. Hér er um valinkunnan sómamann að ræða, sem mér er annt um, að njóti sannmælis, og sem hv. þm. Ísaf. sennilega vill vissulega ekki, að neinn skuggi falli á. Þetta ætti því að upplýsast.

Ég hefi ekki haldið því fram, að það ætti að bæta læknum upp tekjumissinn af því, ef breytt verður um skipaeftirlitið, eða að þeir ættu nokkra kröfu til þess. En ég taldi sanngjarnt, að það væri gert, fyrst og fremst gagnvart héraðslækninum í Reykjavík og jafnvel 1—2 héraðslæknum úti á landi, sem verða fyrir mestum tekjumissi af því, að þetta eftirlit er af þeim tekið.

Ég er algerlega sammála hv. 3. þm. Reykv. um það, að breyting, sem gerð verður á skipaeftirlitinu með þessum lögum, getur ekki orðið réttlætt með því, að hún horfi til almenningsheilla, þegar hún er borin saman við ákvæði gildandi laga um þetta efni. Það verður tæplega hjá því komizt að álykta sem svo, að með ákvæðum frv. um eftirlit með næmum sjúkdómum er farið niður í lágmark þess, sem forsvaranlegt er til verndar almenningsheill í landinu. Og ég álít mjög vafasamt, að rétt sé að fara niður í það lágmark.