04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. leggur nokkuð mikið upp úr þeim trafala, sem nú sé að þessu eftirliti, þó að hann áliti það vera humbug. En þetta hlýtur að vera misskilningur hjá honum. Það er ekki trafali að þessu móts við þann trafala, sem á að verða eftir frv., því að það er ekki læknir, heldur annar maður, sem á að fara um borð í skipin. Ég vil aðeins taka dæmið, sem þeir voru að tala um, hv. þm. Vestm. og hann (VJ). Í Vestmannaeyjum fer bátur um borð í skip. Eftirlitsmaðurinn, sem nú er læknir, fer upp í skipið, og það má enginn koma upp í skipið fyrr en hann er kominn þaðan og hefir lokið sínu eftirliti. Þegar hann kemur aftur þaðan og allt er öruggt, þá er orðinn greiður aðgangur að skipinu. Við skulum hugsa okkur, að þetta sé ólæknislærður en samvizkusamur maður, sem fer upp í skipið og verði var við einhvern mann lasinn. Af því að hann er ekki læknir, þorir hann ekkert að úrskurða um þennan mann. Báturinn fer aftur til þess að ná í lækni, í staðinn fyrir að læknir hefði getað skoðað manninn og sagt strax: það er allt öruggt. Ég er sannfærður um, að í mörgum tilfellum verði meiri trafali að þessu fyrirkomulagi, af því að ólæknislærður maður og samvizkusamur vill ekki úrskurða fyrir sitt leyti, að skipið sé öruggt.

Ég skil ekki það, sem hv. þm. Ísaf. var að tala um, að læknar verði á þessu svo andvaralausir. Hvað er þá að segja um andvaraleysi skipstjóranna, sem alltaf eru sísiglandi og allaf eru að gefa þessar skýrslur? Þegar litið er á það, að læknir fer hundrað sinnum um borð í skip og í 99 tilfellum finnst ekkert að, þá er þetta eins og vátrygging. Menn borga vátryggingu af hundrað húsum og innbúum alla sína æfi. Þetta er ekkert humbug, þó að aldrei brenni. Þeir borga þetta sem tryggingu, ef það skyldi koma fyrir. Þegar einhver hætta er á ferðinni, þá trúi ég betur læknislærðum manni en ólærðum. Það er sá munur, að hann er í 10 af þessum 100 tilfellum búinn að tefja skipið vegna þessarar skoðunar, og það er ennþá meira humbug. Ef verið væri að losa land og þjóð við einhverja ógurlega plágu, kostnað eða þesskonar, þá væri öðru máli að gegna; en um það er ekki að ræða. Hér hefir aldrei heyrzt ein einasta rödd um það, að þetta eftirlit væri nokkur plága í þjóðfélaginu. — Hv. þm. Ísaf. sagði, að skipstjórarnir væru ekki andvaralausir; það væri sín reynsla. Ég býst við, að skipstjórarnir mundu seinast af öllu auglýsa sitt andvaraleysi fyrir lækninum meðan hann er um borð. Ég hygg, að þeir reyni að þykjast vera ákaflega öruggir einmitt rétt á meðan læknirinn er að tala við þá. Nei, hér er ekki um annað að ræða en einskonar sparnaðarfrv. Það er laukrétt, sem hv. þm. Vestm. sagði, að hér væri verið að lækka eftirlitið niður í eitthvert lágmark. Þetta er dálítið ódýrara fyrir skipin, og það má kría ofurlitla peninga af þeim í þennan sjóð, fyrir það að hafa eftirlitið lakara. Mér finnst þetta vera niðurstaðan af okkar umr. hér.