20.05.1933
Neðri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. Ísaf. vildi gera það að höfuðatriði hjá mér, að læknar missi ekki tekjur við breytinguna. Ég tók það fram, að þetta væri ekkert aðalatriði fyrir mér, þótt mér fyndist það skipta töluverðu máli. Það kemur fram hér sem víðar, að hv. þm. Ísaf. lætur sér ekkert sérlega annt um fjárhagslegan hag stéttarbræðra sinna (sbr. nýju gjaldskrána). Ég hefi, þótt leikmaður sé, talsvert mikla reynslu í því að taka á móti skipum. Sú reynsla bendir í þá átt, að ákvæði frv. dragi úr örygginu, og því vil ég ekki láta skemma þau nauðsynlegu fyrirmæli um læknisskoðun, sem eru í núgildandi lögum. Till. mín féll með eins atkvæðis mun við 2. umr., og það sýnir, að deildin stendur nálægt þessari skoðun. Vera má, að eftir nýju gjaldskránni verði læknisskoðun skipunum ódýrari en áður. Nú minnir mig, að læknirinn í Vestmannaeyjum fái 12 kr. fyrir að fara um borð í skip, og það lýsir lítilli þekkingu á staðháttum í Vestmannaeyjum að telja þetta of mikið gjald, þegar lítið er á það vos og þær hættur, sem slíkum ferðalögum fylgir.

Hv. þm. spurði, hvernig skipstjórar ættu að vita, að sitt fyrirkomulagið væri notað á hverjum stað. Ef þetta er í lögum og skipstjórarnir þekkja þau, virðist málið liggja ljóst fyrir. Skipstjóra ætti ekki að vera vorkunn að þekkja þessi ákvæði.

Hv. þm. sagði ennfremur, að það kæmi fyrir, að héraðslæknirinn í Rvík væri ekki heima. En þó slíkt komi fyrir, veit ég ekki betur en að hann fái jafnan mann til að „vikarera“ fyrir sig, svo að þetta er hreint enginn stuðningur fyrir hv. þm. Ísaf.

Hv. þm. segir, að Vestmannaeyjalæknirinn fari um borð eftir sem áður og missi því lítið af tekjum. En ef frv. verður að lögum, fer hann ekki um borð, nema hann sé sóttur. Þar er því mikill munur á.

Það er ljóst, hvað á milli ber. Hv. þm. Ísaf. telur eftirlit tollvarða og lögregluþjóna öruggt og vill ekki, að aðrar reglur gildi um Hafnarfjörð og Rvík en aðrar hafnir. Ég tel lækniseftirlitið öruggara og vil a. m. k. undanskilja þessa tvo staði. Sóttgæzlan er greidd af skipunum sjálfum, svo að hér er ekki um sparnað á ríkisfé að ræða.