17.02.1933
Neðri deild: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

17. mál, varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Gildandi lög um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma eru frá 1907 og því 25 ára gömul. Aldur laga er tiltölulega sjaldan meiri, og venjulega miklu styttri. Á 25 árum breytist margt, ný sannindi koma í ljós og rás viðburða gerir það nauðsynlegt, sem áður var ónauðsynlegt, eða það ónauðsynlegt, sem áður var nauðsynlegt. Um þessi lög frá 1907 er það að segja, að landlæknir hefir talið, að nauðsynlegt væri að yngja þau upp og breyta þeim að sumu leyti, vegna breyttra kringumstæðna, og hefir hann því samið þetta frv., sem hér er til meðferðar. Í aths. þess er gerð grein fyrir meginbreytingunum, og mun ég ekki rekja þær allar hér.

Í frv. þetta er tekið upp það nýmæli, að einstök byggðarlög megi af sjálfsdáðum reyna að verjast sjúkdómum, sem ekki eru fyrirskipaðar varnir gegn almennt. Um þetta eru engin ákvæði í lögum nú, en þó hefir þetta tíðkazt nokkuð og sumstaðar gefizt vel. Þetta virðist rétt að lögheimila, en þó því aðeins, að þeir, sem sóttvarnirnar vilja hafa, verða sjálfir að greiða kostnaðinn.

Þá eru og í frv. miklu ýtarlegri ákvæði en í gildandi lögum um hina svonefndu smitbera næmra sjúkdóma, þ. e. fólk, sem smitar frá sér án þess að vera sjálft veikt svo að á beri. Slíkt fólk er að sjálfsögðu geysihættulegt, eða getur verið það. Landlæknir telur, að kunnugt sé um eða sterkur grunur á 20 slíkum smitberum í landinu. Þetta fólk verður ríkið að annast að meira eða minna leyti, og hefir þegar verið farið inn á þá braut eftir heimild í lögum nr. 14 31. maí 1927.

Ég bið það athugað, að í 18. gr. frv. er prentvilla. Þar stendur: „lög nr. 24 31. maí 1927“ en á að vera: lög nr. 14 31. maí 1927. Þetta vona ég, að hv. allshn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, leiðrétti.

Ég legg svo til, að þessu máli verði vísað til þeirrar nefndar.