17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

14. mál, veiting ríkisborgararéttar

Sveinbjörn Högnason:

Ég tók það fram áðan, að hæfilegur dvalartími væri sá, sem útlendingar þurfa til að læra málið. Og til þess væri ekki ætlandi minna en 8 ár, sem lágmark þó. — Hvað þeim vottorðum viðvíkur, sem heimtuð eru og gefin eru af ýmsum mönnum, þá vita víst allir, hve ábyggileg þau eru. Ég hygg, að allir hv. þdm. kannist við það, hversu góða íslenzku ýmsir þeir tala og rita, sem fengið hafa þó slík vottorð og vegna þeirra íslenzkan ríkisborgararétt. Flestir þessara manna munu að vísu skilja málið að einhverju leyti, en fæstir tala það eða skrifa svo nokkurt lag sé á. Það er því nauðsyn að skerpa eftirlitið, fyrst og fremst með innflutningi erlendra manna og þá einnig um, að þeir fullnægi þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Á þessu hefir áreiðanlega orðið misbrestur hingað til.

Hvað því viðvíkur, sem hv. frsm. sagði, að þessir menn allir hefðu dvalið hér meira en 5 ár, þá mun það vera svo, að 4 af þessum 13 mönnum hafa dvalið hér lengur en 6 ár. En hinir allir eru innfluttir á árunum 1927—1929, að því er ég bezt veit. Það er nauðsynlegt að skerpa eftirlitið með innflutningi útlendinga, og eins að lengja skilyrðin um dvalartíma, því það er ekki á nokkurn hátt rétt og alveg ástæðulaust að veita útlendingum íslenzk borgararéttindi í hópatali.