23.05.1933
Neðri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

14. mál, veiting ríkisborgararéttar

Guðbrandur Ísberg:

Þar sem hv. frsm. er ekki við, þá vil ég hlaupa undir bagga og mæla með brtt. meiri hl. allshn. á þskj. 764. Er þar lagt til að veita ríkisborgararétt Birni Franzsyni, sem er fæddur í Noregi af íslenzkri móður, en norskum föður, og fluttist hingað fjögurra ára gamall. Hann hefir alizt hér upp og fengið menntun sína í íslenzkum skólum og talar íslenzku; hún er hans móðurmál. Þá er á sama þskj. farið fram á ríkisborgararétt handa öðrum manni, Hermannsen vélstjóra, sem er fæddur í Noregi, en fluttist hingað 1926 og hefir dvalið hér í 7 ár. Hann er giftur íslenzkri konu, og eiga þau börn saman.

Það hefir verið venja að amast ekki við því, að útlendingar, sem hér hafa verið í 5 ár og eiga íslenzkar konur, fái ríkisborgararétt. Þykir það hart, ef slíkur maður fellur frá, að konan sé þá ríkisborgari annars lands, þó að hún kunni e. t. v. ekki einu sinni mál þeirrar þjóðar. Þegar maður er búinn að vera hér svo lengi sem þessi, þá sé ég ekki ástæðu til að synja honum um ríkisborgararéttinn. Að því, er snertir aðrar till. n., þá eru þar teknir menn, sem dvalið hafa hér 5 ár eða lengur, en sleppt 2, sem skemur hafa dvalið, en voru þó teknir með í till. allshn. Ed.