17.02.1933
Efri deild: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

6. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Það hefir að undanförnu staðið stríð um framlengingu verðtollsins. Á þingi 1931 var frv. haldið föstu í Ed. um nokkurt skeið, en síðan samþ., þegar samkomulag komst á milli Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl. um skipun mþn. í kjördæmaskipunarmálinu, en eins og kunnugt er, þá varð enginn sameiginlegur árangur af starfi þeirrar n. Á síðasta þingi beið þetta frv. um langt skeið óleyst í þessari d., og var það vegna stjórnarskrármálsins. Þegar það var svo loks samþ. af þessum tveimur samvinnuflokkum, Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl., þá sögðust sjálfstæðismenn gera það með því skilyrði, að stj. legði fram á næsta þingi till. um lausn á kjördæmaskipunarmálinu. Af því að það voru tveir flokkar þingsins, Alþfl. og Sjálfstfl., sem stóðu á móti framgangi þessa frv. bæði í fyrra og raunar líka á þingi 1931, þótt ástæðan til þeirrar mótspyrnu væri ekki sú sama hjá báðum flokkunum, þá vil ég nú spyrja, ekki stj., heldur formann Sjálfstfl., hvort von sé til, að stjórnarskrármálið verði leyst á þann hátt, sem krafizt var á síðasta þingi og sett var sem skilyrði fyrir framgangi verðtollsins. Ég spyr þessa nú af því, að þetta frv. kemur svo óvenjulega snemma, á fyrsta fundi, sem d. tekur mál til meðferðar. Það virðist því, að það eigi að hraða frv., en hinsvegar sést ekki enn bóla neitt á frv. um breyt. á kjördæmaskipuninni. Þess vegna vænti ég þess, að hv. 1. landsk. svari þessari fyrirspurn minni.