03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

6. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Þegar þetta þing er að fjalla um fjárlög, þá er það að tala um útgjöld ársins 1934, en ekki um það, sem felst í núverandi fjárlögum. Það, sem gert var í fyrra viðvíkjandi heimild ríkisstj. til þess að leggja fram nokkurt fé í atvinnubótaskyni til að lána bæjar- og sveitarfélögum, þá var það ákvörðun, sem gerð var á Alþ. 1932 fyrir árið 1934. Og því miður eru líkur til, að þá heimild þurfi að nota algerlega í fyllsta mæli, og kannske meira til. Ástandið er þannig, að það eru líkur til þess, að á næsta ári þurfi einnig slíkra ráðstafana við.

Hæstv. ráðh. sagði, að við gætum ekki dæmt um nauðsyn á fjárframlagi til atvinnubóta fyrir næsta ár. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvers vegna honum, hans flokki og sjálfsagt mörgum öðrum finnst nú mikil nauðsyn bera til þess að samþ. frv. um að reyna að ráða bát á landbúnaðarkreppunni, frv., sem á að gilda um fjölda mörg ár fram í tímann. Sér hann betur fram í tímann fyrir bændurna en aðrar stéttir þjóðfélagsins?

Ef þörf er á því að leggja línuna svo langt fram í tímann fyrir bændastéttina, vegna mikilla örðugleika framundan, þá sé ég ekki annað en að þörf sé á því sama vegna verkalýðsstéttarinnar. Því að ef svo er, að bændastéttin standi höllum fæti og að rætist þær verstu spár um erfiðleika landbúnaðarins, þá leiðir það af því, að verkalýðurinn stendur mjög höllum fæti og svipað ástand verður hjá öllum þorra manna og hjá bændum.

Þess vegna álít ég, að Alþ. þurfi að gera slíkar ráðstafanir fram í tímann, og það einmitt í fjárl., sem samþ. verða 1933, en eru fyrir árið 1934, — að þar sé gert ráð fyrir fjárhæðum úr ríkissjóði til þess að mæta því ástandi, sem líkur eru til, að þá verði. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. stj. hafi á þingi 1932 nokkuð séð fyrir tekjum til þess að mæta framlögum þeim, sem samþ. voru á því þingi.

Hæstv. ráðh. sagði um stórmálin, sem fyrir liggja — en hann átti víst við kreppumálin —, að hann vonaðist eftir, að þingið tæki þau þeim tökum, sem ástandið heimtaði, og þá álít ég, að hann eigi á sama hátt að taka atvinnumál verkalýðsins þeim tökum, er ástandið heimtar, því að það er mjög dökkt þar um að litast. Framundan er lítil atvinna, jafnvel hér í Reykjavík á þeim tíma, sem annars er bezti atvinnutími ársins, vetrarvertíðin, að ekki eru nema örfáir dagar, sem allir þeir, er vinnu hafa þurft, hafa komizt að. Þeir eru flestir þeir dagar, sem hundruð manna hafa orðið frá að hverfa.

Ekkert er eins mikið böl — og það játa allir alþm — sem þjóðin hefir við að stríða, eins og atvinnuleysið. Það er ekki einungis fjárhagslegur skaði, heldur líka „móralskt“ tap fyrir þjóðina.

Hæstv. ráðh. gaf það í skyn, að stjórnarskrármálið væri komið í burðarliðinn, og það gengi dálítið erfiðlega fæðingin, eins og oft vildi verða. Ég held að ætti að reyna, hvort hnífurinn mundi ekki duga til þess að losa þetta afkvæmi frá hæstv. stjórn og þingi. Og það væri kannske einmitt það, sem dygði, að stinga hníf í þetta frv., sem hér liggur fyrir, að stjórnin mundi þá geta fætt þetta afkvæmi.