02.05.1933
Efri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2876 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

Afgreiðsla þingmála

Jón Jónsson:

Mér finnst þessar átölur í sjálfu sér koma úr hörðustu átt frá hv. 2. landsk., sem sjálfur hefir neitað að taka þátt í nefndastörfum nema í þessari einu n., sem hefir lítið starfað. Er ég ekki að segja, að sú neitun hans sé með öllu óréttmæt.

En ég vil geta þess — að dæmi hv. 2. þm. N.-M. —, að ég er formaður í tveimur nefndum í þinginu, og hjá þeim liggur lítið af málum. Hjá fjvn. liggja fjárlögin. En eins og menn vita, þá er stutt síðan þau komu til þessarar hv. deildar, og býst ég ekki við, að hneyksli þyki, þótt þau séu ekki komin til 2. umr. Hjá menntmn. liggur ekkert mál nema það, sem kom fyrir 2—3 dögum.

En ég vil nota tækifærið til að minna á eitt mál, sem ég flutti snemma á þessu þingi, sem ekki er enn komið frá nefnd, frv. um æðsta dóm. Vil ég skjóta því til hv. form. allshn., sem bar sig svo hraustlega og kvaðst hafa afgr. allt nema það, sem á ekki að ganga fram, að ég lít svo á, að það sé deildin og þingið, sem eigi að úrskurða, hvort mál gangi fram, en ekki einstakar nefndir. (JBald: Alveg rétt! Út með málin frá allshn.!). Þess vegna vil ég mælast til, að allshn. afgr. þetta mál. Annars vil ég skora á hæstv. forseta að taka þetta mál á dagskrá innan hæfilegs tíma, og úrskurði svo deildirnar, en ekki einstakir menn í nefndum, um forlög þess.