02.05.1933
Efri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2877 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

Afgreiðsla þingmála

Magnús Torfason:

Ég neita því algerlega, að þeir, sem sitja á þingbekkjum, eigi sérstaklega sök á því, að málin gangi nokkuð dræmt. Ég held, að öll þingdeildin með forseta eigi þá sök á því líka. Og ég vil láta það ná nokkuð lengra. Það er allt þingið, sem á sökina, stjórnarherrarnir líka. Ég skal ekki fara að rökræða það yfirleitt, en ég vil minna hæstv. forseta á, að í þingbyrjun komu fram hér tvö frv. ekki margfaldari en það, að ekki þótti ástæða til að setja þau í nefnd. Ætlazt var til, að þau gengju fram, enda voru þau ekki annað en framlenging á gömlum lögum, sem samþ. hafa verið ár eftir ár. Ég býst við því, að þegar hæstv. forseti leitar í barmi sínum, þá muni hann sjálfsagt hafa fullgildar ástæður ti1 þess að hafa ekki látið þetta mál koma enn á dagskrá, nú eftir 11 vikur. Ég efast ekki um, að hann hafi fullgildar ástæður, og þær fullgildu ástæður, sem hann hefir, munu gilda yfirleitt fyrir störf þingnefnda og þingmanna.