22.02.1933
Efri deild: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

29. mál, iðju og iðnað

Jón Baldvinsson:

Hæstv. ráðh. sagði, að þetta frv. væri flutt eftir beiðni iðnaðarmanna hér í bænum. Ég vildi gjarnan vita nánar, hvað hann á við með þessu, hvort það er félag iðnaðarmanna, sem stendur á bak við þessar óskir, eða hvort það eru einhverjir einstakir iðnaðarmenn, sem hafa beðið stj. að flytja þetta frv.

Að öðru leyti vil ég beina því til hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að sú breyt., sem ætlazt er til, að gerð verði á l. frá 1927, er, að út úr þeim verði tekið það ákvæði, sem fyrir tilstilli þessarar hv. þd. var þá komið inn í lögin.

Í 1. gr. frv. leggur stj. til, að breytt verði því ákvæði Í 4. gr. iðjulaganna, að það skuli vera á valdi sveinafélags að ákveða, hverjir skuli teljast iðnaðarmenn hinna ýmsu iðngreina og fá iðnbréf í þeim. Sveinapróf eiga að skera úr um þetta samkv. frv. Ég er ekki viss um, að þessi breyt. fari í réttari átt. Ég hygg, að úrskurðarvaldið í þessum efnum sé betur komið hjá iðnfélögunum heldur en að láta sveinsbréf skera úr í öllum tilfellum. Sveinafélögin mundu telja sér skylt að annast um hagsmuni iðnaðarmanna og gæta þess, að ekki fengju aðrir iðnbréf en þeir, sem væru vel færir í sinni grein, því að félögin hafa hag af því að sporna við offjölgun í einstökum iðngreinum.