18.05.1933
Efri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

29. mál, iðju og iðnað

Frsm. (Jakob Möller):

Breyt. þær, sem þetta frv. fer fram á, að verði gerðar á núgildandi lögum, eru næsta sjálfsagðar, enda varð enginn ágreiningur um það í meðferð n. Það verður að líta svo á, að það hafi verið fyrir vangá, að ákv. 14. gr. eru orðuð svo sem þar er raun á. Þar segir, að iðnaðarmenn geti fengið iðnbréf, ef þeir aðeins hafi félagaréttindi í sveinafélagi, en ekki er nauðsynlegt fyrir þá að hafa sveinspróf. Líklega hefir meiningin verið, að þetta gilti um þá, sem svona stóð á fyrir áður en þessi tvenn lög gengu í gildi, þ. e. a. s. sem ekki höfðu tekið próf, en nutu þó fullra réttinda; og þetta ákvæði hefir verið sett til þess, að þeir þyrftu ekki að ganga undir próf þá til þess að halda þeim réttindum. Iðnn. hefir nú lagt til, að í stað 1. janúar 1928 komi 1. janúar 1930, og er það vegna þess, að nokkur ágreiningur hefir orðið um þetta atriði. Nokkrir iðnaðarmenn njóta nú — fullra réttinda, en það mundi ekki annars vera. Um þessa breyt. eru allir aðilar sammála, bæði iðnaðarnefnd og iðnráð, sem stuðlað hefir að samningu frv., og eins fulltrúar þeirra manna, sem ekki myndu þurfa að taka próf. Ég geri ráð fyrir, að ekki þurfi að vera ágreiningur um þetta atriði. Brtt. við 2. gr. er aðeins í raun og veru orðalagsbreyt., því að svo lítur út, sem þessu undanþáguákvæði hafi verið skeytt aftan við gr. af vangá, því að gr. sjálf hefir inni að halda allt, sem um þetta þarf að segja.

Breyt. við 3. gr. er flutt, eins og í grg. frv. segir, að ósk iðnaðarmanna, og fer fram á, að sett verði á stofn iðnráð, sem gæta hagsmuna iðnaðarmanna í hvívetna. N. telur það ekki nema sjálfsagða ráðstöfun og hefir ekkert við það að athuga.

Að endingu vil ég, þar eð liðið er mjög á þingtímann og málið á eftir að fara í gegnum hv. Nd., skjóta því til forseta, að hann hraði afgreiðslu málsins, og vonast eftir, að hann láti veita afbrigði frá þingsköpum til þess að flýta fyrir.