18.05.1933
Efri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

29. mál, iðju og iðnað

Jón Baldvinsson:

Ég tók svo eftir, að hv. frsm. hefði látið svo um mælt, að það væri eftir tilmælum iðnaðarmanna, að þessar breyt. eru gerðar á iðnlöggjöfinni. Ég vænti, að það megi skilja svo, sem samkomulag sé milli meistara og sveina um þessi atriði. (JakM: Ég skil það svo a. m. k.). Ég sé ekki, að það spilli nokkuð fyrir, þó að 14. gr. verndi rétt þeirra, sem á annað borð eru í sveinafélagið komnir, því að þau félög samanstanda af þeim mönnum, sem útlærðir eru í iðninni, og þeir gæta þess auðvitað, að enginn fái upptöku án þess að hann uppfylli þau skilyrði, sem þar eru sett um kunnáttu í iðngreininni. Sú raun hefir líka orðið á, að því er margar iðngreinar snertir, að erfitt hefir verið að fá sveinsbréf, og því ekki nema sanngjarnt, að það sé látið nægja, að maðurinn hefir verið álitinn hæfur til að fá upptöku í sitt stéttarfélag. Þetta hefir nú raunar eitthvað breytzt með lögum frá 1927 um iðju og iðnað. Ég get ekki séð, að 1. brtt. sé til nokkurra bóta; ég held ekki, að það sé mjög mikilsvert atriði, hvort haft er 1928 eða 1930, hvort markið er fært fram um 2 ár eða ekki. Yfirleitt er ekkert í þessum brtt., sem að gagni kemur svo nokkru nemi, nema helzt 3. liðurinn. En það er þó sá galli þar á, að allt of skammt er farið; ekki neinar reglur settar í lögin um kosningu eða skipun iðnráðs, heldur er það lagt á vald hæstv. ráðh. og hann á að gefa út um það reglugerð. Reyndar hafa áður verið kosin iðnráð eftir reglum, sem hlutaðeigendur settu sjálfir, og án þess að sérstök lagafyrirmæli væri um það að finna. En þess vegna þótti mér alveg sjálfsagt, að nú væri beinagrindin byggð upp í lögunum, og hæstv. ráðh. fyllti svo í eyðurnar með reglugerð.