31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

29. mál, iðju og iðnað

Frsm. (Magnús Jónsson):

Það hafa á undanförnum árum komið fram óskir frá iðnaðarmönnum, bæði iðnfélögum og iðnráðinu, um nokkrar smávægilegar breyt. á 1. um iðju og iðnað frá 1927. Hefir verið borið fram frv. þess efnis á undanförnum þingum, en þó ekki náð afgreiðslu. Í það frv., sem hér liggur fyrir og gengið hefir gegnum hv. Ed., eru tekin upp þrjú atriði úr óskum iðnaðarmanna, sem öll ganga yfirleitt út á að tryggja betur en áður hefir verið gert, að það séu raunverulega fagmenn, sem fá að starfa sem iðnaðarmenn í hverri grein.

Fyrsta atriðið er um það, að í l. stendur, að ekki þurfi annað en hafa félagsréttindi í sveinafélagi til þess að eiga rétt á að fá iðnbréf, en hér er farið fram á, að menn þurfi til þess að hafa verið í sveinafélagi nokkurn tíma. Er það til þess, að menn geti ekki hlaupið inn í félögin á augnablikinu til þess að fá iðnréttindi.

Annað atriðið er viðvíkjandi ákvæði l., að þar, sem skortur er á mönnum í einhverri iðngrein, má lögreglustjóri löggilda menn til að stunda hana, þó þeir uppfylli ekki venjuleg skilyrði; og mega þeir þá stunda þá iðn hvar sem er. Þetta hefir iðnaðarmönnum þótt hart, að menn geti fengið iðnréttindi þar, sem skortur er á iðnaðarmönnum í einhverri grein, og komið svo þaðan þangað, sem strangari kröfur eru gerðar, með iðnbréf upp á vasann og farið að keppa við þá, sem fyrir eru. Því er hér farið fram á, að sá, sem fær undanþágu til þess að reka iðn án þess að uppfylla venjuleg skilyrði, fái iðnbréf, sem aðeins gilda innan þess lögsagnarumdæmis, þar sem þau eru gefin út.

Þriðja atriðið er um það, að skipa skuli iðnráð í kaupstöðum landsins til þess að hafa eftirlit með því, að iðnaðarlöggjöfinni sé fylgt, og yfirleitt hafa með höndum áhugamál iðnaðarmanna hvert á sínum stað. Sýnist útlátalítið að gera þetta.

Iðnn. þessarar d. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Ed.