23.05.1933
Efri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

12. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta

Frsm. (Pétur Magnússon):

Launal. frá 1919 mæla svo fyrir, að skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta skuli ákveða fyrirfram til 5 ára í senn. Þessu ákvæði hefir þó aldrei verið fullnægt, sem stafar af því, að engin stj. hefir séð sér fært að ákveða þennan embættiskostnað fyrir svo langan tíma fyrirfram. Í reyndinni hefir það orðið svo, að þetta skrifstofufé hefir verið ákveðið frá ári til árs, og hefir þá væntanlega verið farið eftir því, hvað raunverulega er greitt í þennan kostnað, en þó mun hafa verið svo, að þessir embættismenn hafi ekki fengið embættiskostnað sinn að fullu greiddan. Stj. hefir sem sagt ekki séð sér fært að ákveða skrifstofuféð fyrir þann tíma, sem l. mæla fyrir um, en því má segja, að það sé vafasöm leið að lögbjóða þessar greiðslur í eitt skipti fyrir öll, svo að ekki verði frá vikið. N. var þetta ljóst og var því talsvert hikandi við það að vera með frv. þessu, sem hér liggur fyrir. Að vísu er ýms bót að slíkum 1., stj. er losuð við þann vanda, að þurfa að ákveða þessar greiðslur árlega upp á eigin spýtur. Því hætt er við, að slíkt verði alltaf af handahófi og að þeir embættismenn beri mest úr býtum, sem duglegastir eru til þess að skara eld að sinni köku, og að það ráði meira en sú raunverulega upphæð, sem skrifstofukostnaðurinn hefir numið. L. sem þessi ættu að verða hvöt fyrir embættismenn til þess að halda skrifstofukostnaðinum niðri, þar sem þá er vitað fyrirfram, að engin leið er að fá hærri upphæð sem framlag hins opinbera en nefnt er í l., og gæti það leitt til nokkurs sparnaðar fyrir ríkissjóð. Að þessu athuguðu taldi n. rétt að leggja til, að Alþ. yrði við tilmælum stj. um að setja l. um þetta efni, og mælir því með því, að frv. verði samþ., eins og sjá má af nál. hennar á þskj. 737. Samkv. frv. er skrifstofufé hvers embættismanns ákveðið í 1. gr., og er þar farið sem næst því, er greitt hefir verið til þessara embætta á undanförnum árum. Á yfirliti yfir þennan kostnað, sem fylgir í grg. frv., sést, að þessi kostnaður hefir aukizt stöðugt undanfarin ár. Þetta er eðlilegt, þegar tekið er tillit til þess, að störf við flest eða öll þessi embætti fara vaxandi með ári hverju.

N. er það ljóst, að allmargir af þessum embættismönnum verja meiru fé til skrifstofukostnaðar en gert er ráð fyrir í þessu frv., að þeir fái greitt. Þó hefir n. ekki séð sér fært að leggja til almenna hækkun á þessum gjaldaliðum. En hún ber fram brtt. við 3 af liðunum og leggur til, að einum sé bætt við. N. hefir borizt erindi frá mörgum sýslumönnum og bæjarfógetum. Flest eru þau kvartanir um það, að skrifstofuféð hrökkvi ekki fyrir embættiskostnaðinum. En það er svo gert ráð fyrir í frv., að hlutfallinu milli embættanna sé haldið nokkurnveginn óbreyttu frá því, sem áður var. En það eru sérstaklega tveir bæjarfógetar, sem leitt hafa sterk rök að því, að skrifstofufé það, er þeir hafa fengið, sé ekki nægilegt. Bæjarfógetinn á Akureyri hefir sent n. sundurliðaða skýrslu um embættiskostnað sinn. Hann hefir síðustu árin numið 14500 kr., en þessi embættismaður hefir ekki fengið greiddar nema 11000 kr. upp í þetta. Þó að við þetta embætti séu talsverðar aukatekjur, telur n. enga sanngirni í öðru en að hækka skrifstofuféð í þessu tilfelli. Leggur n. til, að skrifstofuféð sé hækkað upp í 12000 kr.; það nægir að vísu ekki fyrir kostnaðinum, en af samanburði við önnur embætti sá n. sér ekki fært að leggja til meiri hækkun.

Þá er það sýslumaðurinn í Þingeyjarsýslum. Þessi maður hefir tvö sýslufélög og þar að auki eitt stórt kauptún undir sinni umsjá. N. taldi sanngjarnt, að skrifstofufé þessa embættismanns verði hækkað um 300 kr.

Bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum hefir sent n. langt erindi, þar sem hann færir sterk rök fyrir því, að skrifstofukostnaður hans fari langt fram úr þeirri upphæð, sem hann hefir fengið í þessu skyni. Hann telur skrifstofukostnað sinn vera 16500 kr. á ári, en til þessa embættis eru ekki veittar nema 9300 kr. Þetta er svo mikill munur, að ekki er hugsanlegt að embættismaðurinn geti borgað hann af tekjum sínum, sem ekki eru sérlega miklar. N. leggur til nokkra hækkun á þessum lið, eða 900 kr. á ári. Lengra treysti n. sér ekki að fara, vegna samanburðar við aðra embættismenn. T. d. hefir sýslumaðurinn á Ísafirði tvær sýslur og einn kaupstað að sjá um, og hann hefir aðeins 13000 kr. í skrifstofukostnað.

N. hefir einnig borizt erindi frá hinu nýja lögreglustjóra á Akranesi, þar sem rök eru færð að því, að ríkið verði að verja nokkru fé til skrifstofukostnaðar við það embætti. Þar er farið fram á litla upphæð og gert ráð fyrir, að kauptúnið leggi fram svipaða upphæð á móti. N. leggur til, að í þessu skyni verði veittar 500 kr. úr ríkissjóði. Ég vil svo f. h. n. mæla með því, að frv. verði samþ. með brtt. okkar.