31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

12. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er náttúrlega rétt, sem hv. samþm. minn sagði, að það var lítill tími til þess að athuga málið, en eg er n. því þakklátari fyrir að hún vill afgreiða það, því mér er áhugamál, að það nái fram að ganga, því það er leiðinlegt að vera að hnitmiða þetta niður á hverju ári. Ég viðurkenni fúslega, að það geti vel verið, að þessu sé ekki rétt skipt. Og mér er það ljóst, að þó frv. verði samþ., þá muni ekki allir verða ánægðir um þessa hluti. Ég skal geta þess, að einn af hlutaðeigandi embættismönnum hefir látið í ljós við mig hina megnustu óánægju út af þessu, en það verður alltaf um úthlutun eins og þessa, og ég er viss um, að það er betra að hafa 5 ára frið en að taka málið upp á hverju einasta ári.