07.03.1933
Efri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ástæðan til, að þetta frv. er fram komið nú, eru þeir atburðir, sem urðu hér í bænum 9. nóv. síðastl. Ég skal ekki fara neitt út í að lýsa þeim, þeir eru mönnum í svo fersku minni.

Ég vil minna á það, að þótt ekki hafi verið hingað til eiginleg ríkislögregla í venjulegum skilningi, þá er því þó þannig varið, að ríkið kostar sína lögreglu. Það er alkunna, að ríkið greiðir lögreglustjórum og tollgæzlumönnum laun, sem eru náttúrlega ekkert annað en sérstakir lögreglumenn á vissu sviði. En bæjarfógetar, sýslumenn og hreppstjórar eru beinlínis embættismenn ríkisins. En þessi nauðsyn, að setja upp sérstaka lögreglu kemur fram á hverjum þeim stað — eftir því sem ég veit bezt — um heim allan, þar sem margt fólk er búsett á sama stað. Ég þekki ekki eitt einasta land í heiminum, sem hafi komizt hjá þessari ráðstöfun. Það verður að ganga út frá því sem gefnu, að það sé bein skylda ríkisvaldsins að halda uppi þeirri skipun, sem ríkið hefir sjálft sett sér, ella er það tilgangslaust og þýðingarlaust að setja lög og reglur. Ég veit ekki til, að yfirleitt hafi í nokkru ríki verið haft á móti því, að til sé ríkislögregla til að halda uppi lögum og rétti. Hér á landi hefir því verið haldið talsvert fram, að þessa lögreglu ætti að nota í vinnudeilum. Hefir stj. því þótt rétt að taka það beinlínis fram í þessu frv., að það sé ekki meiningin að nota þessa lögreglu til að kúga vinnuveitendur eða vinnuseljendur þegar kaupdeilur standa yfir. En auðvitað er það skylda lögreglu á hverjum tíma sem er, að halda uppi reglu og friði í landinu, hvort sem vinnudeilur eru eða ekki. Ég skal viðurkenna, að það getur komið fyrir það takmarkaspursmál, sem yrði dálítið erfitt úr að greiða. En slík spursmál verða að mínu viti vart erfiðari en á mörgum öðrum sviðum, sem 1. eru sett um.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengra mál um þetta að svo komnu, en óska þess, að frv. verði vísað til hv. fjhn. að þessari umr. lokinni. Það hefir verið síður að láta fjhn. fara með mál viðvíkjandi opinberum störfum eða nýjum sýslunum, og þess vegna finnst mér þetta mál eigi þar bezt heima.