07.03.1933
Efri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég þykist ekki vera eins hættulegur og Stauning, því að 10 manna lögregla hér á landi er þó alltaf hlutfallslega minni „her“ en 7000 manna lögregla í Danmörku, auk allrar bæjarlögreglu.

Um tölu varalögreglunnar nú er það að segja, að ég ætla að nú séu um 100 manna í liðinu. Margir þessara manna eru alþýðumenn og ýmsir þeirra úr verkalýðsfél. (JBald: Nei!). Þeir hafa þá verið reknir þaðan síðan þeir fóru í lögregluna, en þeir voru í þeim og álitu ekki varalögregluna hættulegri en svo fyrir samtök sín, að þeir gátu vel verið þekktir fyrir að ganga í hana.

Ég mun ekki fara út í tilvitnanir hv. 2. landsk. úr ræðum manna um ríkislögregluna 1925. Ég minnist ekki, að ég hafi tekið til máls um það efni þá, og þeir hv. þm., sem hv. 2. landsk. vitnaði i, geta svarað fyrir sig. Hinsvegar vil ég geta þess, að þetta mál er byggt á allt öðrum grundvelli en frv. þá, svo að þeir, sem voru á móti því, ættu að geta fylgt þessu máli, þó að ég segi ekkert um fylgi þeirra hv. þm. við frv. þetta.