05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

66. mál, lögreglumenn

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Það virðist ekki vera neinn ágreiningur á milli nefndarhlutanna um nauðsyn þess að auka löggæzluvaldið í landinu. Það er ekki heldur neinn ágreiningur um það fyrirkomulagsatriði, að hið fasta lögreglulið þurfi að hafa hæfilega stærð, máske nokkru meiri en tíðkazt hefir hingað til. En að baki þess verður að vera til varalið, sem unnt sé að kveðja til þess að gefa lögregluliðinu aukinn styrk, þegar ástæður krefja. Hvortveggja þessi höfuðatriði felast jafnt í frv. stj., sem ég tel rétt að leggja til grundvallar við meðferð málsins, og líka í till. meiri hl. n., sem þó fer fram á, að frv. verði umsteypt allverulega. Það, sem eiginlega skilur, ef till. er krufin til mergjar, er sá ágreiningur, sem er á milli nefndarhlutanna um það, hver eigi að bera ábyrgð á því á hverjum stað og hverjum tíma, að haldið sé uppi lögum og friði í landinu. Eftir stjfrv. og eftir till. mínum, þá er frumkvæðið að þessu í höndum ríkisstj. Og mér sýnist, að í raun og veru geti það ekki verið annara manna hlutverk í landinu að hafa frumkvæði og forgöngu að nauðsynlegum ráðstöfunum til að halda uppi friði hvar sem er. En með till. sínum vill hv. meiri hl. n. leggja ákvörðunarvaldið um þetta í hendur bæjarstjórnum í kaupstöðum. Meiri hl. n. gerir nú uppástungu um það, að ríkisstj. skuli að vísu hafa vald til þess að setja kaupstöðunum reglur um það, hve fjölmennt fastaliðið skuli vera. Náttúrlega er þetta út af fyrir sig ekkert athugavert. En þegar til þess kemur, að hið fasta lið ekki nægir til þess að halda uppi lögum og friði í landinu, þá skiljast leiðir, því að þá leggur meiri hl. n. til, að það skuli vera svo, að þegar sérstaklega stendur á, að bæjarstjórn telur það nauðsynlegt fyrir öryggi í bænum, að lögregluliðið sé aukið fram úr þessu fasta, þá geti bæjarfélagið bætt við lögregluliðið, og þá er ríkisstj. aðeins heimilt að greiða helming kostnaðar, sem af því leiðir. Þetta þýðir þá það, að það er lagt á vald meiri hl. bæjarstjórnar í hverjum kaupstað að ákveða, hvort þar eigi að halda áfram að reyna að halda uppi lögum og friði, eða hvort eigi að hætta að reyna það, þegar hið fasta lögreglulið reynist ófullnægjandi.

Ég tel, að þetta sé röng hugsun, en að það eigi að vera ríkisstj. að ráða því, að gerðar séu á hverjum stað og hverjum tíma þær ráðstafanir, sem þarf til þess að halda uppi lögum og friði. Og þó að ég vilji láta kjósendur, meiri hl. bæjarbúa og meiri hl. bæjarstjórna ráða í hverju máli, sem þessum aðilum ber samkv. skipulagi þjóðfélagsins að taka ákvörðun um, þá finnst mér alveg út fyrir það svið komið, sem eðlilegt er í þessu efni, ef bæjarstj. getur gengið til atkv. um það, þegar fyrir liggur spurningin um það, hvort eigi að halda áfram að halda uppi lögum og friði í umdæminu, eða t. d. að sætta sig við, að einhverjir, sem eru sterkari en fasta lögreglan, ráði hvað þar sé framið og hvað þar sé látið viðgangast, og hvort í þessu efni sé farið eftir landslögum eða ekki.

Ef þessi leið verður farin, þá finnst mér í raun og veru verið að stofna til þess, að þetta ríki verði sjálfu sér mjög sundurþykkt. Við vitum, að það stendur svo á, að það getur vel orðið sá uppi, að meiri hl. bæjarstj. í einhverjum kaupstað vilji láta halda uppi lögum á því svæði, sem meiri hl. bæjarstj. í öðrum kaupstað ekki kærir sig um. Þetta getur þýtt það, að minni hl. borgaranna verði í einhverjum kaupstað réttlaus, einnig gagnvart því, að haldið verði uppi lögum og friði.

Mér sýnist till. hv. meiri hl. n. minna ákaflega mikið á forna tíma, þegar landinu var skipt í goðorð, sem voru að miklu leyti sjálfstæð ríki innan sinna endimarka, og gátu innan þeirra talsvert ráðið því, hvað þar var gert og framið. En ég álít þetta algerlega í ósamræmi við réttarmeðvitund nútímans, sem krefst þess fortakslaust, að það sé stj. sjálf, sem eigi að taka ákvörðun um það, hvað gera þarf til þess að halda uppi lögum og friði hvar sem er á landinu. Það er aðallega af þessari ástæðu, sem ég ekki get orðið hv. meiri hl. n. samferða í afgreiðslu þessa máls. Ég legg svo mikla áherzlu á þetta höfuðatriði, skyldu ríkisstj. til þess að sjá um, að lögum og friði sé haldið uppi, að ég get ekki fallizt á þá uppástungu að leggja ákvörðunarvaldið í því efni í hendur neinnar annarar samkomu, hvort þetta verkefni skuli vera rækt á einhverjum stað eða vanrækt og gefið upp.

Á frv. stj. tel ég þann höfuðgalla, að það gerir ekki ráð fyrir því, að ríkislögregla sé til annarsstaðar en í Rvík. Það má að vísu segja, að það leiði af sjálfu sér, enda þótt það sé ekki tekið fram í frv., að ríkið geti beitt sínu lögregluliði hvar sem er á landinu. En frv. gerir ekki fyrir nauðsynlegum ákvæðum í því skyni. Í till. mínum á þskj. 524 fer ég fram á, að úr þessu verði bætt þannig, að ákveðið verði, að ríkislögregla skuli vera í Rvík og á þeim stöðum öðrum á landinu, sem ríkisstj. þykir nauðsynlegt. Og þetta verður auðvitað ekki skilið á annan hátt en þann, að það er á valdi ríkisstj., eins og á að vera, að ákveða, hvar nauðsyn er á ríkislögreglu. Það má náttúrlega búast við, að utan Rvíkur verði þetta fyrst og fremst í kaupstöðum.

En það gæti líka auðveldlega borið svo að, að þörf þætti á að beita ríkislögreglu á einhverjum stöðum utan kaupstaðanna, og því hefi ég líka með orðalagi á brtt. minni viljað gera þetta mögulegt. Það má hugsa sér, að slíkt geti komið fyrir í fjölmennum verzlunarstöðum eins og í kaupstöðunum. Því að nú er það orðið svo, að lögreglusamþykkt má setja einnig utan kaupstaðanna, og því er a. m. k. eðlilegt að gera ráð fyrir því, að lögreglu verði beitt á öllum þeim svæðum, sem lögreglusamþykktir eru gerðar fyrir.

Ég hefi nú í sjálfu sér enga ástæðu til að fara mikið út í ummæli meiri hl. n. í nál. En mér finnst það þó dálítið kynlegt, eð meiri hl. n. skuli telja það fyrsta ágalla stjfrv., að í því er sagt, að stofna skuli ríkislögreglu. Ég verð að segja, að mér þykir þetta dálítið undarlegt, af því að ég þarf ekki að lesa lengra aftur en í 2. brtt. meiri hl. n., og þá er hann kominn inn á alveg það sama. Þar leggur hann til, að „1/6 hluti af lögregluliðinu í Rvík skuli vera sérstök deild og starfa sem löggæzlumenn ríkisins á venjulegum tímum“. Ég sé ekki eðlismun á því, að setja lög um að stofna slíka deild, sem skipuð sé löggæzlumönnum ríkisins og að kveða á um að stofna ríkislögreglu. Ég geri ráð fyrir, að mannfjöldinn sé sá sami eftir uppástungu meiri hl. n. eins og eftir frv. stj. Það er sem sé heimilt eftir uppástungum meiri hl. n., að hér í Rvík séu 60 löggæzlumenn og 1/6 þar af, þ. e. 10 menn, eiga að vera löggæzlumenn ríkisins. En það er nákvæmlega sú sama tala, sem gert er ráð fyrir í stjfrv. Ég held, að það sé frekar gert til þess að sýnast, heldur en af því að nokkurt efni sé til, að menn eru að reyna að komast hjá því að nefna ríkislögreglu í lögum, sem sjálf gera uppástungu um nákvæmlega það sama. Ég er ekki feiminn við að nefna ríkislögreglu, sé enga ástæðu til þess. Hún er til í öllum þeim löndum, sem hafa skipulagða þjóðfélagsstjórn. Og hún hefir reynzt nauðsynleg í þeim öllum. Við þurfum þess vegna ekkert að kveinka okkur undan því, þótt svo verði einnig að vera hér.

Það er náttúrlega ekki rétt heldur, sem borið er mál á í áliti meiri hl. n., að það þyki eitthvað athugavert, og að það sé nauðsynlegt að sýna sérstaka varfærni þegar auka á lögregluliðið. Hv. meiri hl. n. andmælir þessu nú bezt sjálfur með till. sínum, þar sem hann leggur nú til, að ríkisstj. verði beinlínis fengið vald í hendur til þess alltaf að auka lögregluliðið eftir því sem mannfjöldi vex á hverjum stað. Það hefir aldrei í neinu þjóðfélagi þótt neitt athugavert annað við að auka lögreglu heldur en kostnaðurinn. Það er auðvitað mál, að á þessu sviði sem öðrum verður hvert þjóðfélag að líta á það að reyna að reisa sér ekki burðarás um öxl, og muna eftir því, að þarfirnar eru margar, þó að sú þyki oft nauðsynlegust, sem höfð er fyrir augum í það sinn.

Nú fer meiri hl. n. fram á það, að í þessu frv. verði ákveðið að leggja nokkru meira af kostnaðinum á bæjar- og sveitarfélög heldur en segja má, að sé fastákveðið í stjfrv. Því að stjfrv. byggir frekar á því, að það sé samningsmál á milli ríkisstj. og bæjarfélaga, hversu kostnaður af lögregluliði á venjulegum tímum skiptist á milli þessara tveggja aðilja. En ef þetta er haft skipulagt í heild, eins og stjfrv. leggur til, og eins og það yrði eftir till. meiri hl. n., þá held ég, að það sé ómögulegt að færa nein rök fyrir því, að uppástunga meiri hl. n. verði neitt ódýrari en uppástunga stjfrv.

Nú vil ég láta það uppi sem mína skoðun, að það er frekar óeðlilegt að velta miklum hluta af löggæzlukostnaðinum yfir sveitar- eða bæjarfélögin, vegna þess að það er eftir eðli sínu ekki sveitarfélagsmálefni að halda uppi lögum og friði, heldur er það ríkismálefni, fyrsta flokks. Þess vegna tel ég, að uppástunga meiri hl. n. í þessu efni sé svona heldur óeðlilegri heldur en uppástunga stjfrv.

Hér kemur líka annað til greina og það er það, að eins og skatta- og sveitarstjórnarlöggjöf er háttað í landinu, þá er það ákaflega takmarkaður tekjugrundvöllur, sem sveitarfélög hafa á að byggja, mjög lítið annað en beinir skattar, sem eru algerlega hliðstæðir tekju- og eignarskattinum. Það væri kannske fært að auka byrðar sveitarfélaganna eitthvað, ef þau fengju þá að hafa þessa skattstofna svona nokkurn veginn út af fyrir sig. En því fer nú mjög fjarri, að sá andi sé uppi, því að það liggur hér frv. fyrir þinginu, þar sem stj. leggur til, að því er bezt verður vitað, að gengið verði miklu lengra hér á landi í því að draga þessa tekjustofna inn undir ríkissjóðinn heldur en dæmi eru til hjá nágrannaþjóðum vorum. Mér sýnist nú ekki fara vel á því, að hvorttveggja sé borið fram samhliða, till. um að taka að mjög miklum mun þennan tekjustofn frá bæjar- og sveitarfélögum, og jafnframt farið fram á, að þau taki á sig verulegasta hlutann af byrði annars eins alríkismáls eins og löggæzlan í landinu vitanlega er.

Ég þarf svo ekki frekar um þetta að ræða að sinni. Báðir hlutar n. eru sammála um það, að setja þurfi upp sterka lögreglu, ég vil segja nægilega sterka lögreglu, þegar svo ber undir.

En ég legg höfuðáherzluna á það, að ríkisstj. á að hafa ákvörðunarvald um það, á hverjum stað og hverjum tíma, hvað nauðsynlegt sé að gera til verndar lögum og friði í landinu.