05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í miklar umr. um þetta mál. Það er ekki svo mikið, sem skilur, og hv. frsm. hafa skýrt, hvað það er.

En vegna ummæla í nál. hv. meiri hl. vil ég benda á, að það er ekki nein ný saga, að löggæzlumenn séu hafðir hér á landi af hálfu ríkisins. Hvað eru sýslumenn og bæjarfógetar annað en löggæzlumenn ríkisins? Og hvað eru hreppstjórnir annað en einmitt ríkislögregla eða löggæzlumenn ríkisins. Það eru þannig á 3. hundrað manns í landinu nú þegar, sem eru hrein og bein ríkislögregla. Það, sem hér er farið fram á, er ekki annað en það, að bæta þar við 10 starfsmönnum, og svo aðstoðarmönnum eftir því sem óhjákvæmilegt reynist á hverjum tíma. Ég bendi á þetta af því að það lítur út fyrir af nál. hv. meiri hl., að það sé eitthvað alveg nýtt, ef það eigi að vera ríkislögregla hér á landi.

Einnig er í þessu nál. talað um, að frv. um ríkislögreglu hafi komið hér fram áður. Er þar víst átt við frv. frá 1925. En þar var ekki um ríkislögreglu að ræða, heldur varalögreglu. Ég sé ekki annað en hv. meiri hl. hafi blátt áfram villzt á þessum tveimur orðum.

Í upphafi nál. segir hv. meiri hl., að eitthvað verði að gera til þess að efla lögregluna í landinu. En það verði að gerast með gætni og skynsemi. Af framhaldinu lítur svo út, að hv. meiri hl. telji enga skynsemi í því að hafa ríkislögreglu. En svo koma till. hans á eftir, og þar er gert ráð fyrir að koma upp ríkislögreglu. Það á að vísu að nefna hana „löggæzlumenn ríkisins“, en það er gersamlega það sama. Það er aðeins orðabreyt. frá því, sem er í frv.

Það er svo, að allar þjóðir, sem ég þekki, hafa ríkislögreglu. Og svo ætti það að vera eitthvað óskynsamlegt að hafa ríkislögreglu hér líka, og það þó hún í raun og veru hafi verið hér í fjölda mörg ár, jafnvel svo öldum skiptir. Slíkum fjarstæðum og hártogunum vildi ég ekki láta ómótmælt.

Þá finnst mér það vera óvingjarnleg ummæli í garð stj. að vera að tala um, að hún geti haft setulið eins og henni sýnist samkv. frv. Það er mjög óviðeigandi af hv. meiri hl. að geta þess til, að ríkisstj. ætli að koma upp setuliði sér til gamans. (JónasJ: Eða sér til gagns). Ég trúi nú engum öðrum en hv. fyrrv. dómsmrh. til þess, að hafa setulið sem dómsmrh. sjálfum sér til gagns. (JBald: Það gæti nú e. t. v. orðið bráðum. Er það ekki?) Það þykir mér ákaflega ótrúlegt.

Ég endurtek það, að öllum ummælum hv. meiri hl. um setulið vil ég vísa á bug sem algerlega ósæmilegum aðdróttunum. Ég get ekki séð, hvað meiri ástæða er til að tortryggja lögreglu, sem haldið er uppi af ríkinu, heldur en lögreglu, sem haldið er uppi af bæjunum. Auðvitað eru í báðum tilfellum sömu ástæður fyrir hendi. Bæjarstjórnir skiptast nú orðið í pólitíska meiri hl. og minni hl. Innan þeirra er komin á sama flokkaskiptingin og í þinginu. Ég vil undirstrika það, sem fram kom í ræðu hv. frsm. minni hl., að auðvitað verður það að vera ríkið, sem ákveður, hvað gera á því sjálfu til verndar, en ekki einstök bæjarfélög.

Ég skal svo láta staðar numið með „krítík“ mína á nál. hv. meiri hl., því eins og fram hefir komið í umr. er það eiginlega mjög lítið, sem menn greinir á í þessu máli. Það er eins og hv. meiri hl. hafi aðeins verið að reyna að finna upp eitthvað nýtt, annað orðalag um sömu hugsun, heldur en ekki neitt, til þess að fallast ekki á frv. óbreytt. Þegar svo er, væri undarlegt, ef ekki væri hægt að ná samkomulagi um málið. Það er ýmislegt í till. n., sem ég tel, að betur mætti fara á annan hátt. En ég vildi sjá, hverju fram yndi við þessa umr. og hegða mér eftir því við 3. umr. Kem ég þá sennilega með brtt., sem ekki ætti að þurfa að verða mikill ágreiningur um, ef það er á annað borð meining hv. meiri hl., sem fram kemur í brtt. hans. Samkv. þeim á að skapa svipaða lögreglu og stjfrv. gerir ráð fyrir, og eins sterka eins og ég hafði hugsað mér eftir því. Allar getgátur hv. 2. landsk. þar um eru auðvitað út í bláinn. Ég þarf ekki að svara þeim, því hann veit bezt sjálfur, hvað miklar fjarstæður þær eru.

En ég vildi biðja hv. frsm. meiri hl. að gefa mér örfáar skýringar á þeim brtt., sem hér liggja fyrir. Í 1. brtt. stendur, að ríkisstj. sé heimilt að fyrirskipa bæjum, þar sem eru 1000 íbúar eða fleiri, að hafa allt að tveimur starfandi lögregluþjónum á hverja 1000 íbúa. Er meiningin, að þarna sé aðeins átt við kaupstaði, eða á þetta að gilda um kauptún líka, ef þau hafa yfir þúsund íbúa? Á að fara einungis eftir mannfjöldanum í þessu efni, eða hinu, hvort um er að ræða kaupstað eða kauptún?

Í 2. brtt. stendur, að 1/6 af lögreglunni í Rvík skuli vera sérstök deild og starfa sem lögregla ríkisins. Mér finnst, að þessi deild svifi nokkuð í lausu lofti. Hver á að hafa yfirráð yfir henni? Um það finn ég engin skýr ákvæði í till. Ég sé, að þessari d. eru ætluð einhver sérstök verkefni, sem í sjálfu sér er ekkert að athuga við. En það vantar ákvæði um, hver á að stjórna henni. Því í 3. brtt. er talað um, að lögreglustjóri geti heimtað aðstoð þessa lögregluliðs, hvenær sem hann telur þörf á. Mér finnst, að ef ríkisstj. á að hafa eitthvað yfir þessari lögregludeild að segja, þá geti þetta komið ósamræmi í stj. hennar. En ef hún á að vera einungis undir stjórn viðkomandi lögreglustjóra, þá sé ég ekki, hvers vegna á að vera að hafa hana sem sérstaka deild.

Annars eru þessar brtt. yfirleitt þannig, að það er eins og hv. meiri hl. hafi bara verið að reyna að hafa ekki sömu orðin, sem notuð eru í frv., þó sama hugsun liggi á bak við, og um sömu hugtök sé að ræða.

Í 6. brtt. stendur: „Löggæzlumenn, hvort sem eru í föstu starfi eða kvaddir lögreglunni til aðstoðar, eru sýslunarmenn ríkisins“. Ég geng út frá, að hér sé átt við þann einn sjötta af lögreglunni Annarsstaðar yrði þessi einn sjötti víðast aðeins brot úr manni, og úr því getur varla orðið sérstök deild. En með þessu er þá sennilega ákveðið, að allir þeir menn, sem kvaddir eru til aðstoðar lögreglunni, skuli vera sýslunarmenn ríkisins, ásamt þessum einum sjötta af föstu lögreglunni. Þannig skil ég þetta, en vænti, að hv. frsm. segi, hvað fyrir hv. meiri hl. hefir vakað.

Ég þarf svo ekki í bili að segja meira við hv. frsm. meiri hl. Ég vil aðeins endurtaka það, að mér virðist skoðanamunurinn ekki meiri en svo, að vel sé hægt að ná samkomulagi um málið. Ég skal geta þess, að ég tel til bóta, að heimild laganna nái til alls landsins. Í byrjun hafði ég hugsað mér að láta hana ná til kaupstaðanna, en get vel fallizt á að láta hana ná til landsins alls. Það er of þröngt að takmarka ákvæði 1. við Rvík eina, enda er nú komin fram beiðni frá Akureyri um að láta lögin ná til sín.

Hv. 2. landsk. sagði, að það hefði þegar farið mikið fé í ríkislögregluna. Já, hún hefir náttúrlega kostað talsvert. Hann sagði, að mikið hefði mátt gera fyrir það fé, en lítið sæist eftir lögregluna. Ég býst við, að það sjáist ekki vanalega mikill beinn árangur af starfi lögreglumanna. En það er gaman að minna hv. þm. á það, af því að hann er að fjargviðrast út af kostnaðinum við ríkislögregluna hér, að ekki er nema hálfur mán. síðan sá flokksbróðir hans, sem nú er forsrh. í Danm., fór fram á við þingið og fékk samþ. á einni nóttu, að bæta 100 manns við ríkislögregluna þar. Og vegna hvers þótti liggja svo mikið á þessari aukningu? Aðeins af því, að borið hafði á lítilsháttar óeirðum á landamærum Danmerkur og Þýzkalands. Þó var fyrir öflug bæjarlögregla, og auk þess fjölmenn ríkislögregla. (JBald: Hvað mannmörg?) Í henni eru mörg hundruð manna, ég veit ekki nákvæmlega hvað hún er fjölmenn. Í þriðja lagi er í Danmörku stór her, sem hægt er að grípa til, ef á liggur. Þegar þessi ráðh. var að ráðgera að leggja niður herinn, áskildi hann, að hafðir væru 7 til 8 þús. menn til þess að halda uppi reglu í landinu.

Af þessu geta menn séð, að það er ekki einsdæmi, þó farið sé fram á að auka ríkislögreglu. Það er annað hér, sem er einsdæmi, og það er, að til skuli vera menn, sem hafa á móti jafnsjálfsögðum hlut og því, sem farið er fram á í þessu frv. 4 móti 100 manna aukningu ríkislögreglunnar í Danmörku mælti enginn nema þeir tveir kommúnistar, sem sæti eiga í þinginu.

Það er hlægilegt að heyra hv. 2. landsk. tala um, að ríkislögreglan, sem stofnuð var eftir 9. nóv. í vetur, sé faðir kommúnismans hér. Eins og allir vita, er kommúnisminn nokkurra ára gamall hér á landi, og er því augljóst, hvílík fjarstæða það er, sem hv. þm. lætur sér sæma að halda hér fram. Álíka fjarstæða er það, þegar hv. þm. heldur fram, að á bak við þetta frv. liggi eitthvert einræðisbrölt. Það er einungis sjálfsögð skylda, sem allir, er með stjórn fara, verða að inna af hendi, að halda uppi lögum og reglu. Því það er talin fyrsta skylda hvers einasta þjóðfélags að verja sjálft sig.