05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

66. mál, lögreglumenn

Jón Baldvinsson:

Ég minntist ekki áðan á till. hv. l. landsk., sem hefir komið með umbætur við frv. stj.

Hv. 1. landsk. var 1925 talsvert heitur fyrir því að koma á ríkislögreglu og honum gramdist að geta ekki komið henni á þá. Þó að stj. ætli nú að koma upp ótakmörkuðu liði samkv. 1. gr. og verja ótakmörkuðu fé til þess samkv. 5. gr., þá ætlar hv. 1. landsk. að bæta því við, að einnig verði komið upp sjóher. Hér verður þá bæði komið upp sjóher og landher, ef hans till. ná fram að ganga.

Skipshafnirnar á varðskipunum og tollverðirnir eiga að teljast til lögregluliðsins. Að vísu verður þetta takmörkuð tala, þó maður geti ekki sagt með vissu, hvað margir muni þá teljast í íslenzka sjóhernum. Varðskipin eru nú 3, en það er ekkert því til fyrirstöðu, að stj. kalli strandferðaskipin og vitaskipið Hermóð herskip, og bætist þá nokkur hundruð manna við í sjóherinn íslenzka. En af því að maður getur gengið út frá því, að hvorki Þór, Óðinn né Ægir verði send á móti drekum stórveldanna í stríð, því tæplega verða þau sigursæl í slíkum orustum, þá dettur manni í hug, að þessi skip geti orðið gagnleg í orustum innanlands við vopnlausa landsmenn. Og þess vegna er hv. 1. landsk. að bæta við frv. stj., þessum nokkrum hundruðum manna. Þá er þetta fullkomnað allt saman. Það kynni þá að vera eftir að koma upp stórskotaliði. En það felst í frv. stj. að mega kaupa öll þau tæki til þess að geta haldið uppi fullkomnum her í landinu.

Ég heyri það á hæstv. dómsmrh., að hann býst við að sitja áfram í dómsmrhsæti, því hann tók alveg fyrir það, að hv. 5. landsk. gæti orðið ráðh.

Þetta þýðir, að samningar hafa verið gerðir um það milli stjórnarflokkanna að halda þessari samsteypustjórn áfram og dóms.mrh. verði áfram við völd. (Dómsmrh.: Var ég að tala um það?) Það má draga það út úr orðum hæstv. ráðh., sem er sennilegast, að í þeim eigi að felast, og ég þykist ekki hafa dregið meira út úr þeim en ástæða var til. (Dómsmrh.: Ég sagði ekki orð um þetta). Hæstv. ráðh. tók fyrir það, að hv. 5. landsk. gæti orðið dómsmrh., og þá hlýtur hann að vita jafnlangt sínu nefi, eins og hann svo oft tekur til orða.

Ég hefi áður talað um hlutverk þessa hers, að það getur ekki annað verið en það sama og játað var á þingi 1925. Þá var verið að eltast við það allt þingið að spyrja stj., hvað ætti að gera við ríkislögreglu. Og síðasta svarið, sem hægt var að toga út úr stj. var, að hana ætti að nota í vinnudeilum. Í frv. stj. er talað um, að ríkislögregluna megi ekki nota í löglegum vinnudeilum. En það verður á valdi stj. að ákveða, hvenær vinnudeilur eru löglegar og hvenær hún álítur ástæðu til að halda uppi lögum og friði í landinu.

Hæstv. ráðh. gerði mikið að því að vitna í Danmörku. Hann hefir stundum gert það við þessar umr. Hann segir rétt frá þessu með forsrh. danska, sem er jafnaðarmaður, að hann beitti sér fyrir því að auka ríkislögregluna um 100 manns. En hugsum okkur, hvílík ódæmi það eru fyrir Danmörku að fá 100 manns, ef við berum það saman við okkar land! Þá ætti, í staðinn fyrir ótakmarkaða ríkislögreglu, 1. gr. frv. að hljóða þannig: Rvík skal hafa ríkislögreglu með 3 mönnum. Þá væri hæstv. ráðh. í samræmi við Stauning. (Dómsmrh.: Var ekkert fyrir í Danmörku?).

Hæstv. ráðh. hefir orðað 1. gr. frv. mjög lævíslega: Í Rvík skal vera ríkislögregla, og má skipa allt að 10 fasta starfsmenn í þeim tilgangi og aðstoðarmenn eftir því sem óhjákvæmilegt þykir. Þessir óhjákvæmilegu aðstoðarmenn geta orðið þúsund, og þá er komið fram úr því, sem danska ríkislögreglan var, bæði að tölu, að ég ekki tali um hlutföll. Þessir 100 menn svara til þess, að hæstv. ráðh. kæmi með frv. um það, að gera einhverja 3 menn að ríkislögreglu.

Hæstv. dómsmrh. spyr, hvað margir séu í ríkislögreglunni í Danmörku. Það eru fáein hundruð manna. (JónÞ: Og svo herinn.) Það er til her í Danmörku, en Stauning hefir lagt til að minnka hann (Dómsmrh.: Hvað vill hann hafa hann stóran?). Hann vildi alveg leggja herinn niður, en hann hefir ekki meiri hl. í báðum d. þingsins. Hann vildi færa herinn niður í 20 þús. manns úr 40 þús. Annars vilja sócíalistar afnema herinn alveg.

Og það er ólíku saman að jafna baráttu Staunings í Danmörku fyrir því að leggja herinn niður sem ríkislögreglu og baráttu stj. hér fyrir því að koma henni upp. Það er sá höfuðmunur á stefnu hæstv. dómsmrh. og þess ráðh. í Danmörku, sem hann vitnar svo oft í, að annar er að draga saman þennan ríkisher, sem íhaldsmenn í Danmörku hafa komið upp og vilja halda við, en hinn er að reyna að koma á fót ótakmörkuðum her. Svo það gefur fyllilega ástæðu til þess að væna hæstv. ráðh. og flokk hans um einræðisbrölt. Þeir treysta sér ekki til þess að ná meiri hl. valdi á þingræðislegum grundvelli, heldur ætla að tryggja sér her, sem getur styrkt þá til þess að taka völdin í landinu á sama hátt og flokksbræður þeirra gera víða annarsstaðar í álfunni, ef kjósendur vilja ekki afhenda þeim það vald. Það er fullkomin ástæða fyrir því, að hér sé um einræðisbrölt að ræða.