23.05.1933
Efri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

66. mál, lögreglumenn

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég gæti í sjálfu sér látið mér það í léttu rúmi liggja, þótt úr frv. verði fellt það ákvæði 3. gr. um stj. lögreglunnar, sem nú stendur þar, fyrst hæstv. dómsmrh. hefir lýst því yfir, að þetta ákvæði sé til í l. og haldi áfram að vera til. Ég hefði þó haldið, að hentugra væri að taka þetta ákvæði upp í þessa löggjöf, svo það væri alveg ótvírætt. Ég hygg nú, að þetta álit hæstv. ráðh. byggist á einhverskonar lögskýringum, því hann vísaði ekki á neinn lagastaf þessu til sönnmar, sem hefði þó verið betra, ef unnt hefði verið og ef þetta ákvæði á að falla burt úr frv. Annars hafa nú umr. snúizt mest um 5. brtt. mína, sem er um að gera það að borgaralegri skyldu að starfa í varalögreglu. Og mér þykja þær ástæður, sem fram hafa verið bornar gegn því, ákaflega veigalitlar. Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að þetta nálgaðist herskyldu. En það er engin röksemd, enda er það ekki meiningin, og hefir hvorki verið orðað af mér né öðrum, að fjölga á sama veg og gert er, þegar kvaddir eru til allir þeir vopnfærir menn í þeim löndum, sem hafa almenna herskyldu. Þetta er aðeins, eins og hæstv. dómsmrh. tók réttilega fram, almenn borgaraskylda, hliðstætt ýmsu öðru, sem nú er í l.

Ekki er heldur sú mótbára, sem hv. 2. þm. Árn. bar fram, mikils virði. Hann taldi l. um skyldu manna almennt til að aðstoða lögreglustjórnina lítils virði og færði söguleg rök fyrir því, að svo væri. En hér gegnir öðru máli. Ég rengi þó ekki frásögn hv. þm. Það er líka svo hér í Rvík, að þótt tugir manna standi á götu og lögreglan æski aðstoðar þeirra, þá eru menn þó tregir til að veita hana. Þetta stafar af því, að hugsunarháttur manna er sá, að sinna sínum eigin störfum, en skipta sér ekki af öðru. En með þessu er ekki meiningin sú, að kalla menn til þessa starfa, hvar sem þeir eru staddir, heldur að fá nokkra, hæfilega marga menn, til þess að taka þetta að sér sem einn hluta af sínu fasta starfi, sem nauðsyn þjóðfélagsins heimtar, að framkvæmt sé. Þetta var gert í fyrra, er vandræði steðjuðu að og þá með sjálfboðaliðum. Ef líkja ætti þessu við herskyldu, sem er að vísu fjarri réttu lagi, þá má geta þess, að í sumum löndum hefir ekki viðgengizt herskylda, heldur hafa menn verið ráðnir á mála. Hefir jafnan þótt betra, að þessi þörf væri upp tekin sem borgaraleg skylda þegnanna, heldur en að ráða málalið fyrir fé. Málaliðið var mjög óvinsælt hér um Norðurálfu, meðan sá háttur var á hafður. Og lýðræðishreyfingar, sem ruddu sér til rúms, voru þess valdandi, að sá háttur var niður lagður, en almenn landvarnarskylda upp tekin í staðinn. Frá þessu sjónarmiði er því ekki hægt að hafa á móti þessu. Að vísu stendur þetta fjarri okkur, en þolir þó vel samanburð, ef það er tekið á þann hátt og saman er borin hermennska vegna þegnskyldu og hermannamálalið.

Hæstv. dómsmrh. bætti einni ástæðu við þær, sem ég nefndi, sem er í sjálfu sér þýðingarmikil, og hún er sú, að með því að gera þetta starf að borgaralegri skyldu, má framkvæma það á kostnaðarminni hátt. Ef þetta er samþ., þá er hægt að ákveða laun fyrir að taka þetta að sér. En annars verður að fara samningaleiðina og hlýtur hún að verða miklu dýrari, ef þeim mönnum, sem við er samið, verður bolað frá allri vinnu. Ríkissjóður hefir nú fengið að súpa seyðið af þessu, það sem af er, vegna skipunar þessara mála. Og svo mun verða áfram, ef ekki er fundin leið til að ráða bót á þessum sérstöku vandkvæðum. Með því að fara þessa leið mun það takast. Og e. t. v. er um fleiri færar leiðir að ræða, en upp á þeim hefir enn ekki verið stungið.

Það er tilætlun mín, að með þessu móti megi fá nægan lögreglustyrk, sem ekki er bundinn við neinn sérstakan flokk eða stétt. Ef ég væri mjög flokkshundinn í hugsun, ætti það ekki að vera neitt óþægileg tilhugsun fyrir mig, að varalögreglan yrði nær einhliða skipuð sjálfstæðismönnum, en við því mætti búast, ef hinu sama fram heldur og nú hefir gert um hríð. En ég tel, að hér sé um svo þýðingarmikið mál þjóðfélagsins að ræða, að ég vil ekki líta á það frá því sjónarmiði. Það verður áreiðanlega haganlegast og farsælast, að enginn flokksbragur sé yfir varalögreglunni, hvorki hér né annarsstaðar. Þetta vona ég að takist, ef brtt. mín verður samþ., enda hefir engin önnur uppástunga komið fram til að tryggja þetta.

Ég vil taka það fram, að ég óska eftir, svo engu öðru verði blandað inn í þetta atriði, að brtt. mín verði borin upp í tveimur liðum, þannig að síðasta málsgr., sem er um það, hver bera skuli kostnaðinn, komi til atkv. sér. Tvær fyrri málsgr. eiga saman. Vil ég mælast til, að hæstv. forseti beri brtt. þannig upp.