26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

66. mál, lögreglumenn

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er gamall draugur. Það er sannarlega lærdómsrík forsaga þessa máls, vegna þess að af henni er hægt að sjá að mörgu leyti þá framþróun, sem hefir orðið í atvinnulífi þjóðarinnar, pólitík og stéttabaráttu.

Frá þeim tíma fyrst, sem Jón heit. Magnússon bar fram frv. sitt um ríkislögreglu 1925 og þangað til nú, hefir mikil breyt. orðið. Og í raun og veru er þetta sama málið, sem nú er verið að reyna að fá samþ., þá réð Íhaldsfl. mestu, og þá var frv., sem Jón Magnússon bar fram, á þá leið, að í raun og veru átti að lögleiða herskyldu í landinu. Það var hægt að kveðja hvern sem var í þessa ríkislögreglu. Tilefnið var ekki það, að sérstakar óeirðir hefðu verið eða eignum manna, sem Íhaldsfl. er svo annt um, væri hætta búin, eða lífi og limum, heldur hitt, að tvö verklýðsfélög höfðu átt í hörðum kaupdeilum við atvinnurekendur og unnið sigra. Í báðum tilfellunum var reynt af hálfu yfirvaldanna eftir beiðni stórútgerðarmanna að nota lögregluna til þess að verja verkfallsbrjóta. En það mistókst vegna þess, hve menn stóðu vel saman, bæði þeir, sem félagsbundnir voru, og einnig þeir, sem ekki voru félagsbundnir. Svo það er auðséð, að í fyrsta sinn, sem stofna átti ríkislögreglu, þá var það bókstaflega gert móti verkföllum. Þá snerust framsóknarmenn á móti málinu, og yfirleitt er hægt að segja, að alþýða manna hafi verið mjög á móti því, enda var það þá svo illræmt, að íhaldsfl. þorði ekki að halda því til streitu. Tryggvi Þórhallsson, Jónas Jónsson og Ásgeir Ásgeirsson, sem þá voru helztir í Framsóknarfl. og eru það enn, risu allir á móti lögreglufrv.

En síðan þetta skeði og það frv. var til moldar borið, hafa miklar breyt. orðið. Alþýðusamtökin hafa eflzt mjög mikið. Þá voru ekki í alþýðusamtökunum nema 3 þús. manns, en nú eru þar 10 þús. manns. Þá voru verklýðsfélögin tiltölulega fá, en nú eru þau í flestum kaupstöðum. Þá var sambandið milli félaganna veikt, en nú er það orðið sterkt, og sigrar, sem þau hafa unnið, eru nú orðnir margir. Hins vegar hefir stéttabaráttan skerpzt frá því, sem þá var. Og sú kreppa, sem nú er yfir heiminum, og ekki sízt Íslandi, hefir gert sitt til þess að skerpa hana og til þess að auka vilja íhaldsins í landinu, þeirra stétta, sem ráða yfir stóriðjunum, til þess að nota ofbeldi til þess að koma sínum málum fram, þegar það er ekki hægt á annan hátt. Má þar minnast á dæmi eins og í Bolungavík og Keflavík og víðar, sem hæstv. dómsmrh. minntist á undir rós áðan, en sem hann gat ekki um, að hann sem ráðh. hefði ekki gert neitt til að fá þau mál fram.

Á þessum tíma síðan Jón Magnússon bar fram frv. sitt, hafa líka möguleikar íhaldsins vaxið á tvennan hátt til þess að geta komið málum sínum fram móti alþýðusamtökunum. Annað var klofning verklýðssamtakanna, sem kommúnistar gerðu. En hitt atriðið var sambræðsla stj., sem varð í fyrravor, þar sem Sjálfstæðisfl., sem er hinn pólitíski flokkur stóratvinnurekendanna, gekk í samband við Framsóknarfl. sem hægri armur hans, og þeir mynduðu eina sameiginlega ríkisstj. Við þetta varð vegurinn opinn til þess að skapa liðsafla fyrir stóratvinnurekendur, sem þá hafði lengi langað til að hægt væri að beita gegn alþýðusamtökunum, og eins og ég mun benda á, þá hefir sá vegur verið troðinn af ríkisstj.

Sumarið 1931 var mikið atvinnuleysi hér í bænum, það mesta, sem menn vita dæmi til. Alþýðuheimilin liðu sult og seyru. 7. júlí síðastl. var haldinn bæjarstjórnarfundur, og í sambandi við hann varð lítilsháttar uppþot, sem ekki gætti mikið, þar sem lögreglan hafði í fullu tré. En á þeim fundi var ákveðið að taka upp atvinnubótavinnu með 230 manns, og sú vinna byrjaði þegar. Síðan var lofað að bæta 200 manns við í okt., enda var vitanlegt, að á 2. þús. manns voru atvinnulausir í Rvík, og það eina ráð, sem var í raun og veru hugsanlegt til þess að láta fólkinu líða nokkurnveginn, var að halda uppi atvinnubótavinnu. En þetta loforð var svikið. Þegar fram í okt. kom og ekki var sjáanlegt, að bæjarstj. ætlaði neitt að gera, komu áskoranir frá alþýðufélögunum um þetta. Það komu fram till. frá kommúnistum um að hefja verkfall, en það var fellt, vegna þess að meiri hl. verklýðsfélaganna leit svo á, að það væri ekki rétta leiðin til þess að geta fjölgað í vinnunni. En í stað þess voru bornar fram sterkar kröfur um það, að bæjarstj. stæði við það, sem hún hefði lofað. Fyrstu dagana í nóv. voru haldnir bæjarstjórnarfundir, og þá var það, sem íhaldsmeirihlutinn bar fram till., ekki um það að auka vinnuna eða láta fleiri atvinnulausa menn komast að, heldur um að lækka kaupið um 1/3. Þessi till. var samþ., en það fékkst enginn sjálfstæðismaður til þess að mæla með henni. Alþýðuflokksmenn töluðu á móti till., en hún var þegjandi samþ. af flokksstjórn Sjálfstæðisfl.

Þá var verkakaup atvinnubótamanna 54 kr. á viku, og fengu ekki aðrir menn vinnu en þeir, sem höfðu ómaga. Einhleypir menn fengju ekki vinnu, barnlausir menn ekki heldur og yfirleitt ekki þeir, sem áttu eitt barn. Flestir af þeim, sem vinnu höfðu, voru því menn með 3—6 börn eða fleiri, en þeir höfðu ekki vinnu samfleytt, heldur aðeins 1—2 vikur á mán. Og svo vildi íhaldsmeiri hl. lækka kaup þessara manna niður í 36 kr. á viku. Með öðrum orðum, það átti að setja kaup þessara manna svo lágt, að varla var hægt að búast við, að þeir gætu framfleytt lífinu. Sjálfstæðisfl. gaf það út, að bæjarsjóður mundi vera tómur, enda hefir hann ekki verið mjög ríflegur, þegar til hans hefir verið leitað. Íhaldið, sem áður hafði notað svipur við verkalýðinn, ásetti sér nú að nota gaddasvipur og það beinlínis eftir ákvörðun stórútgerðarmanna í Rvík. Tilgangurinn var ekki almenn mannvonzka, að láta verkalýðnum líða illa, heldur að afla fjár þeim, sem stóðu að þessum atvinnuvegum. Þarna var því ráðizt á garðinn, þar sem hann var lægstur, að byrja einmitt á þeim, sem fátækastir voru. Um sama leyti bárust verklýðsfélögunum í Rvík boð frá atvinnurekendum um það, að semja um lækkun kaupgjaldsins. En þessu var hrundið. Það var vitað, að þessar kauplækkunartilraunir við atvinnubótamenn voru eingöngu gerðar til þess að koma á almennri kauplækkun og ráðast á garðinn, þar sem hann var lægstur og síðan ganga milli bols og höfuðs alþýðusamtökunum, sem haldið hafa uppi kaupgjaldinu í landinn. Við þetta er óhætt að segja, að alþýðan í Rvík hafi risið upp.

5. nóv. var haldin kröfuganga fyrir tilstilli fulltrúa verkalýðsins.

Þetta var stærsta kröfuganga, sem hér hefir verið haldin, 4—5 þús. manns tóku þátt í henni, og það er óhætt að segja, að bærinn hafi verið litaður af henni.

Þá var farið á fund forsrh. (ÁÁ) og farið fram á það, að hann kæmi af stað atvinnubótavinnu og hefði áhrif á bæjarstj. í þá átt, að hún legði fram meira fé til atvinnubóta heldur en hún hefði áður gert. Og þá sér maður, hvað orðið er náið samband milli hægri arms Framsóknarfl. og Sjálfstæðisfl., að forsrh. segir fyrst og fremst, að sér komi ekkert við, hvernig verkamenn í Rvík hafi það, það sé komið undir bæjarstj. Rvíkur, stj. skipti sér ekkert af því. Hann vildi einskis meta kröfur allra þessara manna, mörg þús. Reykvíkinga, sem liðu þá sult og seyru. Síðan var farið til Guðmundar Ásbjörnssonar, sem þá var settur borgarstjóri, og svaraði hann því, að flokksstjórn Sjálfst.fl. hefði ráðið þessu um lækkun kaupsins og hún ein gæti breytt því. Þá var haldinn Dagsbrúnarfundur og hann ákvað, að þar sem svo langt væri gengið og tilgangurinn svo auðséður, þá skyldi verða vinnustöðvun um leið og kauplækkunin ætti að fara fram. því réttara væri að hætta vinnu en að láta nota sig til þess að lækka kaupgjaldið. En aftur á móti var það fellt að gera verkfall til þess að fjölga í vinnunni.

Síðan var haldinn bæjarstjórnarfundur 9. nóv. til þess að ákveða, hvort ætti að koma til framkvæmda kauplækkun sú, sem ákveðin hafði verið. Þetta var fjölsóttur bæjarstjórnarfundur og utan um húsið voru mörg þús. manns. Ræður þær, sem íhaldsmennirnir Jakob Möller og Maggi Magnús héldu, voru sízt til þess að sefa þá reiði, sem var í hugum manna, þar sem þeir töluðu með fyrirlitningu um samtök verkamanna og hag þeirra. En nú bættist við, að Erlingur Pálsson, sem var fulltrúi lögreglustjóra og hafði á hendi dyravörzlu, neitaði mönnum eftir matarhléið að komast inn, nema takmörkuðum fjölda, í stað þess að lögreglustjóri hafði lofað óhindraðri aðgöngu. Og þegar kvartað var um, að menn fengju ekki að komast inn, lætur Erlingur lögregluþjónana berja á mannfjöldanum með kylfum. Það varð nokkurt uppþot og fjöldi verkamanna var alblóðugur á höfði og klæðum. Þetta var auðsjáanlega gert af hreinum og beinum klaufaskap af lögreglufulltrúa, ef honum hefir þá ekki verið af einhverjum beinlínis sagt að gera þetta. Við þetta urðu það miklar æsingar í salnum, að fundarstjóri treysti sér ekki til að halda fundi áfram. En það kom síðar í ljós, að þeir höfðu þá séð á mannfjöldanum fyrir utan, að réttast væri að láta undan í þessu máli, þannig að nægilegur fjöldi gekk inn á að taka aftur till., ef hægt væri að setja fund af nýju. En þá vildu kommúnistar ekki játa setja fund aftur, eða a. m. k. ekki lofa bæjarfulltrúum griðum, ef fundur yrði settur. Þegar ekki varð af fundi fóru bæjarfulltrúarnir út bakdyramegin án þess að nokkur þeirra meiddist.

Þá var í raun og veru þetta mál búið, þar sem sjáanlegt var, að alþýðufélögin höfðu fengið kröfum sínum fullnægt á þann hátt, að meiri hl. hvarf frá lækkun kaupsins, þó að ekki væri hægt að halda fund, sem nauðsynlegur var til að gera þá ákvörðun. En þá skeði það undraverða, að lögreglustjóri kallar upp: „áfram, berjið“, og fram réðust 8 lögregluþjónar, sem faldir höfðu verið fyrir aftan leiksviðið, með kylfur, stóla og bekki og börðu á mannfjöldanum, sem ekkert hafði gert. Á fáum mín tókst að ryðja salinn á hinn fautalegasta hátt, og bardaginn hélt áfram þegar út var komið. Við að sjá þessar aðfarir var það, sem og rétti nokkrum verkamönnum stóla til þess að geta varið sig, ef ráðizt væri á þá. En þetta var ekki nóg. Þá skipar lögreglustjóri lögregluþjónunum á mannþyrpinguna, og þeir berja frá sér með stólum og bareflum og láta eins og hinir verstu siðleysingjar. Afleiðingin gat ekki orðið önnur en sú, að tekið var á móti þeim af þeim mönnum, sem saklausir voru. Og lögreglan féll í valinn, ýmist óvíg eða afvopnuð. Að þetta var ekki skipulagt uppþot, heldur aðeins sjálfsvörn gegn lögreglunni, sést á því, að eftir að lögreglan var horfin var kyrrt í bænum.

Um kvöldið varð samkomulag um það, að kaupgjaldið skyldi haldast óbreytt. Var því fullur friður alstaðar og ekkert varð úr því allsherjarverkfalli, sem kommúnistar höfðu ætlað að hefja, því nú voru verkamenn ánægðir. Það er því augsýnilegt, að allur rétturinn hefir verið þeim megin, sem alþýðan var og alþýðusamtökin, en allur órétturinn einmitt af höndum Sjálfstæðisfl. og þeirra, sem eru nú að reyna að safna liði með lögum móti alþýðusamtökunum.

Þennan sama dag er dómsmrh. dæmdur fyrir svik í Behrensmálinu og verður að láta af ráðherradómi, og næstu daga er talað um það, að Ólafur Thors muni eiga að taka við sætinu, og er hann þá að semja við hæstv. fjmrh. og Framsóknarfl. og setur það sem skilyrði, eftir því sem hann sjálfur hefir skýrt mér frá, að sett verði upp öflug ríkislögregla. 14. nóv. er hann svo útnefndur af konungi og þá er hann búinn að fá fjmrh. inn á þessa hugmynd sína. Og það sýnir sig, hvernig þessi ríkislögregla er. Það er eins og vænta mátti af hundadagaráðh., að hann hagaði sínum lífverði eins og hundadagakonungurinn, sem tók alla tugthúsfanga og þvílíkt fólk. Eftir till. Ólafs Thors var Erlingur skipaður yfirmaður þessarar varalögreglu, sem stofnuð var.

Maður vissi, að ekki þyrfti mikið lið til þess að ráða við kommúnista, ef þeir gerðu uppþot, sem ekki varð, en þessum liðsafnaði átti að beina gegn alþýðusamtökunum. Síðan hefir verið hafin sókn af hendi stj., sem aðall. hefir verið í þrennu fólgin: Málshöfðanir á einstaka menn, varalögregla og fjandsamleg löggjöf. Málshöfðun gegn þessum 31 manni (af þeim voru 28 ekki sýknaðir) var gerð af algerðu handahófi. Hafði ekki sannazt á nokkurn af þeim, að þeir hefði meitt lögregluþjóna. Yfir 100 manns tóku þátt í bardaganum í Templarasundi. — Þá er óþarfi að dæma fullorðna viti borna menn skilorðsbundið. Þeir munu ekki betra sig síðar, a. m. k. mun ég ekki gera það. En ef nokkurt réttlæti væri við haft, þá ætti að dæma flokksstj. Sjálfstæðisflokksins. Þá má geta þess, að dómarnir voru líka fyrirfram ákveðnir. Ólafur Thors sagði mér nokkrum dögum síðar, að ég yrði dæmdur skilorðsbundið í 60 daga fangelsi. Kom það líka alveg heim.

Þetta dómarastarf var svo óvinsælt, að það var nærri því ógerningur að fá dómara. Tókst það þó loksins með fögrum loforðum um fé og upphefð. En tilgangurinn með þessum dómum náðist ekki. Slíkt hefir ekki áhrif á þessa menn, sem dæmdir voru. Á alþýðusamtökin hefir það þau áhrif, að það vekur þau til umhugsunar um það, hverskonar ríkisstj. það er, sem þau eiga við. Þeir, sem stóðu að þessu, Magnús Guðmundsson og Ólafur Thors, lágu báðir undir kæru. Þeir láta niður falla málshöfðunina gegn Íslandsbankastjórunum, skipta sér ekkert af ofbeldinu, sem framið var í Keflavík, og þar fram eftir götunum.

Þá er annar þáttur málsins, stofnun varalögreglunnar, 180—200 manns, með Erling Pálsson að fyrirliða. Er nú búið að eyða í þetta 200 þús. kr. og verður um 400 þús. við lok þessa árs. Ólafur Thors vildi koma upp 600 manna liði og hafa helminginn í sundhöllinni, en hinn helminginn í gömlu símastöðinni. Átti að handtaka alla, sem grunaðir voru um það að hafa verið í þessum óeirðum. Hann mun þá ekki hafa verið með sjálfum sér. Hann lét varalögregluna vernda sig og forsrh. og hafði hvítliðana heima í stofunum hjá sér.

Þá er það sannað, að margir af mönnunum í þessu liði hafa verið dæmdir fyrir glæpi og afbrot, svo sem brugg og drykkjuskap á almannafæri. Þetta lið á svo að halda uppi réttvísinni í landinu. Alþýðusamtökin svöruðu þessu á þann hátt að reka þá af þessum mönnum, sem verið höfðu innan þeirra, og með því að ákveða, að meðlimirnir skyldu ekki vinna með þeim. Þetta hefir verið framkvæmt. Þá hefir verið reynt að beita þessum mönnum í 2 smávinnudeilum en í bæði skiptin var þó hætt við það. Þrátt fyrir varalögreglu þessa standa alþýðusamtökin óhögguð. Hafa þau nú sitt varnarlið og munu mæta varalögreglunni, ef fara á að nota hana í vinnudeilum.

Eftir að Ólafur Thors hafði afrekað þetta, lét hann af sínu hundadagaveldi. Kom þá Magnús Guðmundsson aftur. Hann hefir síðan haldið liðinu í aðgerðaleysi, fyrst við spilamennsku í gömlu símastöðinni, en síðan hafa þeir gengið lausir við fullt tímakaup. Hann hefir neitað mér um upplýsingar í málinu, og hefi ég orðið að koma með þáltill., til þess að knýja fram þessar upplýsingar. En síðan bætir hann gráu ofan á svart. Í staðinn fyrir að leggja niður þessa varalögreglu, kemur hann með frv. til 1. um ríkislögreglu. Eiga þar að vera 10 fastamenn, liðsforingjar, og síðan ótakmarkað málalið. Á öðrum stað í frv. er gert ráð fyrir ótakmarkaðri fjárveitingu, eftir því sem ráðh. þykir nauðsynlegt. Síðan segir, að ekki skuli nota ríkislögregluna í kaupdeilum, en þó er engan veginn svo um hnútana búið, að það sé tryggt. Þetta frv. var samþ. af forsrh. og atvmrh. og lagt fyrir þingið. Skömmu eftir var svo haldið flokksþing Framsóknar hér í bæ. Þótti þá sambúðin milli Frams.þm. og Íhaldsþm. fara að verða nokkuð náin, ef Framsóknarþingmenn færu nú að ganga inn á samskonar frv. og Jón Magnússon var með hérna um árið. Var þá ákveðið að breyta frv. í það horf, að 1/6 lögregluliðsins í Rvík skyldi vera starfsmenn ríkisins, en hitt teljast bæjarlögregla. Síðan er leyft að fjölga lögregluliðinu ótakmarkað, og skal þá ríkissjóður greiða allt að helmingi þess kostnaðar, er af því leiðir, þó ekki meira en ¼ af kostnaði við hið reglulega lögreglulið.

Að setja upp 60—90 manna bæjarlögreglu hér, nær ekki nokkurri átt. Hún kostar geysilegt fé og hefir auk þess ekkert að gera, nema ef nota á hana gegn verkalýðsstéttinni.

Í 7. gr. stendur: „Það er borgaraleg skylda hverjum verkfærum karlmanni að gegna kvaðningu í varalögreglu, nema hann geti fært ástæður, sem ráðh. tekur gildar“.

Eftir þessari gr. er beinlínis komið á herskyldu, ekki einungis um stuttan tíma, heldur getur stj. haldið mönnum í þessu hvað lengi sem hún vill fyrir það kaup, sem hún tiltekur. Ef á kosningum stendur, þá getur hún tekið frambjóðanda og sett hann í lögregluna. Hún getur tekið ritstjóra Alþýðublaðsins, prentarana og aðra Alþýðuflokksmenn. Eru því engin takmörk sett, hvað stj. getur gert í þessu efni. Sama er að segja um það ákvæði, að enginn megi tálma því, að maður gegni kvaðningu til lögreglustarfa. Ef verklýðsfélögin halda áfram þeirri aðferð, sem tíðkazt hefir í nágrannalöndunum, að meðlimum þeirra sé bannað að vinna með öðrum en félagsbundnum mönnum, þá er hægt að sekta þau. Ef verkamenn legðu niður vinnu, til þess að vinna ekki með ríkislögreglumönnum, væri hægt að segja, að þeir tálmuðu mönnum að vera í lögregluliðinu. Ég geri ráð fyrir því, að framsóknarmenn hér í d. sjái um það, að þessi gr. verði ekki samþ., því að meiri hl. hans greiddi atkv. á móti henni í Ed. Ef ætti að fara að gera menn að þrælum undir Magnúsi Guðmundssyni, þá væri nú skemmtilegt að lifa hér á Íslandi! Það mun sýna sig, að hér liggur á bak við hjá Sjálfstæðisflokknum og nokkrum hluta Framsóknar vilji til að brjóta á bak aftur alþýðusamtökin, og því verða verkamenn um allt land að vera tilbúnir til varnar.

Íhaldið hefir nú komið upp sérstöku liði, þjóðernishreyfingunni svokölluðu, sem hefir ekkert annað markmið en ofbeldið. Hefir t. d. komið kæra til lögreglunnar um það, að þessir menn hafi ráðizt á fólk fyrir það eitt, að þeim líkaði ekki, að það hafði aðrar skoðanir en þeir. Morgunblaðið hælir þessu. Þetta er líkt því sem var á sínum tíma í Þýzkalandi. Gæti komið að því, að þessi hreyfing tæki hér völd og færi með Framsóknarflokkinn eins og með Miðflokkinn þýzka. Þeir, sem tóku út bruggarann í Vestmannaeyjum, voru nákomnir þessum mönnum. Nú er búið að setja 5 ríkislögreglumenn í Vestmannaeyjum. Ég beini því til verkamanna að gæta vel að nú, er kosningar eru framundan, að kjósa ekki menn, er fylgja slíkum óskapnaði, sem hér hefir verið lýst.