26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. þm. Reykv. talaði lítið um sjálft málið, heldur hélt hann kosningaræðu.

Hann reyndi að sýna fram á, að málið væri fram komið til þess að kúga verkalýðinn. Þetta er dæmalaus óskammfeilni, þar sem það stendur í stjfrv., að ekki ætti að nota þessa lögreglu í vinnudeilum. Veit ég, að flestir hlustendur úti um land skilja, að hv. þm. fer hér með ósatt mál. Henni er einungis beint gegn þeim, sem fara ólöglega að. Ef hv. þm. heldur því fram, að lögreglunni eigi að beita gegn verkalýðsfélögunum, vænir hann þau um ólöglegt athæfi. Hann er sjálfur bráður og fremur stundum lögleysur, en ég veit, að það sama á ekki við um verkalýðsfélögin. Í vetur gengu margir menn úr Alþýðuflokknum í varalögregluna, enda þótt það kostaði þá það, að þeir voru reknir úr flokknum. Þeir eru þó kyrrir og vel ánægðir með sitt hlutskipti. Þeir vita, að þeir eru að vinna fyrir heill lands síns, en ekki á móti stétt sinni.

Hv. þm. fjölyrti um aðdragandann að 9. nóv. og fór þar með mikil ósannindi. Sagði hann, að meiri hl. bæjarstj. hefði ætlað að færa niður kaupið, og því hefði verið rétt að ráðast á lögregluna og herja hana niður. Ég skal ekkert um það segja, hvort rétt hafi verið að lækka kaupið. En það er rangt hjá hv. þm., að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið á bak við þessa kauplækkun. Þó að ég sé í miðstj. hans, hefi ég aldrei heyrt getið um það. Þó að það hafi e. t. v. ekki verið rétt að setja niður kaupið, þá var það rangt að berja niður lögregluna. Get ég ekki talið það rétt að — handleggsbrjóta lögregluþjón, herðablaðsbrjóta annan og nefbrjóta hinn þriðja af þessum sökum. Þó að hv. 2. þm. Reykv. greiði atkv. í einhverju máli öðruvísi en ég vil, þá hefi ég engan rétt til að slá hann eða meiða fyrir.

Lýsing hans á bæjarstjórnar fundinum er svo lituð, að menn munu ekki kannast við það, sem hann var að skýra frá. Flestir úti um land þekkja málið af frásögn blaðanna. Hana geta menn svo borið saman við lýsingu hv. þm.

Það var almannarómur hér, að lögregluþjónarnir hafi leyst sitt starf vel af hendi, þó að þeir gætu ekki reist rönd við svo miklum fjölda sem á móti þeim var.

Ég mun ekki svara ummælum hv. þm. um Ólaf Thors. Hann mun vera maður til þess sjálfur. Ég mun heldur ekki dvelja við hrópyrði hans til mín. Þingræður eiga, að allra dómi, að fara kurteislega fram, en ekki að vera tóm brigzlyrði, eins og ræða hans. En það er gott, að hv. þm. hefir sýnt það núna í útvarpinu, hvernig orðbragð hann notar, til þess að æsa upp það fólk, sem á hann hlustar.

Hv. þm. sagði, að varalögreglan hefði kostað mikið fé, og því hefði stj. stolið. (HV: Hvar var heimildin?). Allir hljóta að viðurkenna, að það er fyrsta skylda hverrar stj. að sjá um, að l. landsins séu haldin, og það er hlægilegt að heyra það, að það sé þjófnaður á fé ríkissjóðs að taka fé til þess að verja því í þessu skyni. (HV: Hvaðan er heimildin fyrir þessu?) Það er alveg rétt, að það er ekki bein fjárlagaheimild fyrir þessu. En hver vissi um bardagann 9. nóv., þegar fjárl. voru sett? Og ég er alveg óhræddur um þá atkvgr. á þinginu, þegar að því kemur að samþ. þessa fjárveitingu, ég er alveg viss um, að engir nema jafnaðarmenn munu greiða atkv. á móti henni. Það er náttúrlega satt, að hún hefir kostað nokkuð mikið, þessi lögregla. En af hverju hefir hún kostað svona mikið? Það er einmitt jafnaðarmönnum að kenna, af því að þeir hafa ofsótt þá menn, sem í lögreglunni eru, á þann hátt, að þeir hafa meinað þeim með ofbeldi að taka þátt í vinnu, sem þeim hefir boðizt. Af þessum orsökum hefir ríkið orðið að greiða þeim miklu meira. Þetta sjá allir, að það væri að hengja bakara fyrir smið, ef það ætti að neita að samþ. fjárveitingu, sem ríkisstj. hafði orðið að inna af hendi fyrir það, að jafnaðarmannaforingjarnir höfðu ekki viljað hlýða lögum landsins.

Mér þóttu það harla ómakleg ummæli hjá hv. þm., þegar hann sagði, að margir af varalögreglumönnunum væru glæpamenn. Þessu neita ég algerlega. Ég vil halda því fram, að í þessu liði séu yfirleitt ágætir menn, sem hafa gert það fyrir lítið kaup og af einlægum vilja að halda uppi lögum og reglu í landinu, og þeir eigi sannarlega annað skilið af hv. 2. þm. Reykv. en að hann noti nú tækifærið til þess að atyrða þá og svívirða út um allt land. Hann mun ekki vaxa af slíku atferli.

Ég vil nú nota þetta tækifæri til þess að þakka þessum mönnum fyrir það, að þeir voru svo víðsýnir að hjálpa til að halda uppi lögum og rétti og margir fóru úr sínum félagsskap, sættu þar ofbeldi og gátu ekki haldizt þar við, og þar var hv. 2. þm. Reykv. fremstur í flokki að sýna þeim óbilgirni.

Hv. 2. þm. Reykv. atyrti mig mikið fyrir það, að hann hefði ekki fengið að vita kostnaðinn af lögreglunni. Þetta er ósatt. En það var annað, sem hann vildi fá að vita um, og það var um nöfn á þessum mönnum, til þess að geta betur náð í þá til þess að ofsækja þá. En það var það, sem ég neitaði honum um. Það er það, sem hann flytur þáltill. um. En hann hefði fengið að vita um kostnaðinn á hvaða tíma sem var og hann hefði óskað þess. — Við skulum ekki ræða um þessa þáltill. til muna fyrr en hún kemur til meðferðar, en ég skal lofa hv. þm. því, að ég skal gefa honum fullar upplýsingar þá, svo framarlega sem hann vill lofa því, að láta þessa menn vera í friði. Hann hefir enga heimild til þess að ofsækja þá menn, sem af stjórnarinnar hálfu eru settir til þess að gæta laga og réttar í landinu. Það var ekki mikið, sem hv. þm. talaði um frv. í heild, en hann nefndi eina grein þess, 7. gr., og lýsti henni þannig, að hún væri svo mikil fjarstæða, að hún næði ekki nokkurri átt. Þar væru menn herskyldaðir um aldur og æfi, að því er mér skildist. Nú get ég sagt hv. þm. það, að það er ekki nokkur hætta á, að menn verði teknir nokkru sinni í lögregluna nauðugir. Það væri svo heimskulegt að ætla að fara að taka mann nauðugan til þessa, því að þá ynni hann ekkert gagn. En þetta er sett til þess að þeir menn, sem í lögregluna fara, geti sagt, að það sé borgaraleg skylda og að það sé óheimilt að ofsækja þá fyrir það. Það er þess vegna engin önnur meining með þessu heldur en sú, að fyrirbyggja, að hv. 2. þm. Reykv. geti farið að við framtíðarinnar lögreglu, eins og hann hefir gert við þá lögreglu, sem var sett 9. nóv. í haust. Og það er algerlega ólöglegt af honum, þegar hann eggjar menn til varnar gegn lögreglunni. Það mundi í engu landi haldast uppi, og hv. þm. verður að vita það, að honum getur ekki haldizt það uppi frekar en öðrum. Það er gaman að sjá það, að í öllum löndum þar sem jafnaðarmenn eru við völd, er lögregla. Ekki dettur þeim í hug að vera lögreglulausir. Þeir halda í flestum löndum stóra heri, upp á hundruð þús. manna, og fjölda lögreglumanna, og það er ekki lengra síðan en 10 til 12 dagar, að forsrh. Danmerkur, sem er jafnaðarmaður, heimtaði frv. gegnum allar umr. á þingi á einni nóttu, um að bæta við 100 mönnum í ríkislögregluna í Danmörku, eingöngu út af því, að hann var hræddur um, að það kynni að bóla á óeirðum á landamærum Danmerkur og Þýzkalands. En svo kemur hv. 2. þm. Reykv., sem þykist vera flokksbróðir þessa manns, og telur það eitthvert voða ódæði, þó að hér sé í fyrsta sinn sett upp lögregla ríkisins, það er að segja lögregluþjónar, sem einungis að nokkru leyti eru launaðir af ríkinu.

Ég skal ekkert um það ræða, hvort ég muni nota þessa lögreglu til þess að kúga verkalýðinn, ég býst ekki við, að ég hafi svo lengi með það mál að gera, en það get ég sagt hv. 2. þm. Reykv., að mér dettur aldrei í hug að gera slíkt. Hann veit, að hann er að fara með ósannindi, þegar hann er að bera mig þeim sökum, en hann vildi nota þetta til þess að dreifa því út um land; og hann hefði áreiðanlega ekki kært sig um að segja það, ef ekki hefði verið útvarpað umr.

Ég er þá búinn að svara því, sem ég þarf, en ég mun svara hv. 2. þm. Reykv. aftur þegar hann kemur upp næst.