26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

66. mál, lögreglumenn

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. lauk ræðu sinni á því að segja, að nú væru kosningar framundan. Hann hefði bæði getað byrjað og endað ræðu sína á þessu, að nú væru kosningar framundan, því að það var það, sem litaði alla ræðu hans. Það var umhugsunin um kosningar og þau áhrif, sem hann taldi flokkslega heppilegt að hafa á menn fyrir kosningar. Þetta skal ég fyrir mitt leyti forðast í minni ræðu, enda minntist hv. 2. þm. Reykv. harla lítið á frv., sem fyrir liggur, ekki nema eina grein og flutti þar ekki nein knýjandi rök.

Hv. þm. byrjaði á því að fullyrða, að þetta frv., sem hér hefir verið borið fram og hefir nú verið samþ. af 12 Ed.mönnum, sé „agitation“ á móti verkalýðshreyfingunni. Þetta segir hann þvert ofan í það, að í 4. gr. frv. stendur: „að lögregluna megi ekki nota til þess að hafa önnur afskipti af eðlilegum vinnudeilum en að halda þar eins og annarsstaðar uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum“. Það veit allur landslýður, að þetta frv. á ekkert skylt við verkalýðshreyfinguna. Það að halda því fram, að þetta frv. sé vegna verkalýðshreyfingarinnar, það er samskonar ósvífni og að segja, að verkalýðshreyfingin sé óaldarhreyfing, en það held ég, að hv. þm. komi ekki í hug frekar en þeim, sem að frv. standa.

Það er rétt, að frv. um aukna löggæzlu er með talsvert öðru formi en það var flutt áður á þingi 1925 af Jóni heit. Magnússyni. Þá stóðu á móti því margir framsóknarmenn, sem vonuðust til þess, að ekki þyrfti til þess að koma að auka stórum löggæzluna í landinu, en síðan hafa orðið miklar breyt. Það hafa orðið atburðir, sem bæði hæstv. dómsmrh. og hv. 2. þm. Reykv. hafa rifjað upp, atburðir, sem ekki eru sambærilegir við neitt það, sem skeð hafði fyrir 1925. Og það eru slíkir atburðir og ofbeldisverk, sem eru þess valdandi að þetta frv. er nú samþ. af miklum meiri hl. Ed. og hefir óskorað, eða lítt skorað fylgi þessarar hv. d.

Hv. 2. þm. Reykv. er í ritnefnd Alþýðublaðsins, og ef hann vildi leita að orsökum þess, að þetta frv. er nú fram komið, þá gæti hann séð gerða grein fyrir því sumu í Alþýðublaðinu síðustu dagana. Ég skal t. d. nefna það, sem Alþýðublaðið segir fyrir nokkru um kommúnista og nazista í öðru landi, og dregur út af því þá ályktun, að kommúnistarnir íslenzku fari að hætti heimskra manna:

„Þeir hafa ekkert lært og engu gleymt. Þrátt fyrir það, þó sundrunarstarfsemi þýzkra kommúnista meðal alþýðu þar í landi og samfylking þeirra með nazistunum leiddi til hinna eindæma atburða, sem öllum eru í fersku minni, þá feta samt kommúnistarnir íslenzku dyggilega í fótspor hinna ógæfusömu skoðanabræðra sinna í Þýzkalandi“.

Þetta les ég í Alþýðublaðinu. Svo les ég einnig í Alþýðublaðinu frá 8. maí, að þar stendur um flokka, sem ég veit ekki, hvort á að kalla stjórnmálaflokka eða annað, að „báðir þessir flokkar hafa með framferði sínu undanfarið, verið að kalla á ríkislögreglu“. Þetta stendur í Alþýðublaðinu 8. maí. Vitanlega er það ein höfuðskýringin á kröfu manna um aukna lögreglu í þessu landi, að það hefir hér eins og víða annarsstaðar komið upp sá tónn, að skynsamleg athugun og atkvgr. eigi ekki að ráða úrslitum þjóðmála, heldur ofbeldi. Þetta er önnur höfuðástæðan, en hin höfuðástæðan eru þau tilfelli, að menn kannske af ópólitískum ástæðum hafa beitt ofbeldi, eins og skeð hefir í Vestmannaeyjum nú síðustu dagana. Þetta ofbeldi undanfarið á skylt hvað við annað, hvort sem það er talið pólitísks eðlis eða ópólitísks eðlis. Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er fram komið og að það hefir óskorað fylgi. Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að formaður Alþýðuflokksins telur sér skylt að taka þátt í afgreiðslu málsins í Ed. með því að hafa þar áhrif á úrslit þess. Þetta eru ástæðurnar til þess, að nú upp á síðkastið hafa ræður margra Alþýðuflokksmanna ekki verið gegn slíkum ráðstöfunum sem þessum. Menn vita sem er, að þetta á ekkert skylt við verkalýðssamtökin og á engan hátt sett þeim til höfuðs. Verkalýðssamtökin eru réttmæt og sjálfsögð, og hafa unnið mikið gagn og munu gera það framvegis. En þau hafa ekki sett sér það markmið að sækja sinn rétt með hnefunum.

Það eru breyttir tímar og atburðir, sem skeð hafa, sem valda því, að lögreglan er tekin með öðrum hætti en 1925.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að hinn 9. nóv. hefði átt að lækka kaup verkamanna í atvinnubótavinnunni og að þessi kauplækkun hefði átt að vera fyrirrennari almennrar kauplækkunar. Ég get út af fyrir sig tekið undir það, að þessi kauplækkun í atvinnubótavinnunni 9. nóv. var mjög óheppileg og óhyggileg; því að það hafði áður átt sér stað kauplækkun, þó að það væri í nokkurri annari mynd heldur en lækkun tímakaups. Sú kauplækkun var gerð hér í atvinnubótavinnunni, að menn unnu ekki fullan tíma, og það var nægileg kauplækkun. En á því get ég vakið athygli, að í þeim nágrannalöndum, sem jafnaðarmenn ráða, og þar sem ég þekki til, þar er höfð önnurhvor aðferðin, að lækka tímakaup og hafa fullan vinnutíma, eða hin aðferðin, sem hér er höfð, að hafa styttri vinnutíma en sama kaup. Undir það get ég tekið með hverjum sem er, að þó að réttmætt sé að hafa aðrahvora aðferðina, þá er ótækt að hafa báðar. Þó að þar hafi yfirsézt meiri hl. bæjarstj., þá gefur það engan rétt til þess, að hnefinn eigi strax að koma í staðinn fyrir uppréttar hendur, sem ráða úrslitum mála, og það mun hv 2. þm. Reykv. aldrei geta sýnt fram á.

Ég skal ekki rekja nánar atburðina, sem gerðust 9. nóv. Ég hygg, að þeir hafi verið ýmsum öðrum að kenna en hv. 2. þm. Reykv. og hans flokksbræðrum, svo að hann þurfi ekki að taka upp hanzkann í öllum greinum. Ég hygg, að einhverjir aðrir en hann og hans flokksmenn hafi komið á fundarstaðinn í þeim tilgangi að valda óeirðum.

Hv. þm. sagði, að salurinn hefði verið ruddur að tilefnislausu og lögreglan hefði ráðizt á fólkið og það hefði ekki gert annað heldur en að sýna sjálfsvörn. Það mætti lesa ýmislegt úr úrskriftum úr dómabókinni, sem sýnir, að lögreglan hófst ekki handa fyrr en búið var að koma af stað óeirðunum. Ég skal ekki lesa margt, en hér stendur m. a.: „M. Júl. Magnús, sem var síðastur þessara bæjarfulltrúa út, var veitt athygli og gerði hann tvær tilraunir til að komast burt, en varð í bæði skiptin að hörfa inn í norðurportið aftur. Var þá veitzt að honum og lögregluþjónum þeim, sem voru honum til varnar. Urðu nokkrar sviptingar kringum hann og rifin föt eins lögregluþjónsins og jafnframt tóku menn til að rífa niður grindverk það, sem var við húsið að norðanverðu, til þess að rýmri væri aðgangur að húsinu þar og jafnframt greiðara til árásar“. ... Ennfremur: „Þegar áheyrendur inni í fundarhúsinu urðu þess varir, að bæjarfulltrúarnir voru komnir út, varð mikil ókyrrð í salnum og heyrðust raddir um að sækja þá aftur, og þustu þá nokkrir menn út. Einnig var það kunnugt, að einn bæjarfulltrúanna, M. Júl. Magnús, væri niðri í kjallara hússins og stukku þá nokkrir menn upp á leiksviðið og ætluðu að sækja hann ...“ o. s. frv. Ennfremur segir frá lögregluþjónum: „Tókst þeim að ryðja lóðina báðumegin við húsið án verulegrar mótspyrnu, en þeim var ógnað með grjótkasti og meiddust nokkrir við það .... “ „Lögreglustjórinn mun hafa skorað á mannfjöldann að víkja burt, en því var ekki sinnt, heldur þvert á móti munu menn hafa búizt til árásar . . . “ „... en mannfjöldinn réðst jafnskjótt að þeim með bareflum ...“ o. s. frv.

Það var ýmislegt á undan gengið, og það veit allur landslýður, og hv. 2. þm. Reykv. líka, að það var ekki eingöngu friðsamlegt fólk, sem þarna varð fyrir yfirgangi æstra og óstýrilátra lögregluþjóna, og það eru ekki eingöngu ófriðsamlegir framsóknarmenn á þingi og kauplækkunarelskandi sjálfstæðismenn, sem eru þess valdandi, að þetta frv. hefir nú svo mikið fylgi á þingi. Það er öllum landslýð kunnugt, að það þýðir ekki að berja í brestina um þá hluti.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði stuttlega frá afskiptum mínum af kröfugöngunni, sem var nokkru fyrir 9. nóv. Hann sagði, að þegar fulltrúar kröfugöngumanna hefðu komið til mín í stjórnarráðið, þá hefði ég svarað því, að ríkisstj. kæmi ekkert við þeirra málefni, við skiptum okkur ekkert af þeim. Við mundum ekki skipta okkur af kröfum þeirra, sem liðu sult og seyru. Ég minnist þess nú, að í mestu æsingunum 9. nóv. var sagt mjög hlutdrægt frá mínu samtali við þessa háttvirtu nefnd, en þær komu bara ekki fyrr en æsingarnar voru komnar af stað. Í þessu sambandi er mér skylt að skýra frá því, að mitt viðtal við þessa háttvirtu nefnd var á þá leið, að ég sagði, að stj. hefði enga heimild til að byrja á atvinnubótum neinstaðar. Frumkvæðið og óskin ætti að koma frá meiri hl. í bæjar- og sveitarfélögum. Svo minnist ég þess skýrt, að ég sagði auk þessa, að að svo miklu leyti sem væri að ræða um ráðstafanir gegn því, að menn liðu sult og seyru, þá skyldi stj. eiga hlut að því með bæjarstjórnum að taka upp ráðstafanir til matgjafa eða annara slíkra nauðsynlegra hluta. Það væri eitt af því, sem við mundum ekki hugsa um hvort heimild væri fyrir, ef um það væri að ræða. Undir þetta tilboð var lítið tekið, og það hefir ekki síðar verið komið á okkar fund til þess að fá okkur til þess að efna þetta loforð. Að vísu hefir stj. styrkt að mun matgjafir hér í bænum, en það hefir verið fyrir tilmæli annara manna. Nú vil ég láta hv. þm. vita það, að hver sú stj., sem fer með völd á næsta vetri verður að gefa sömu svör, eins og ég gaf þarna, af því að á þessu þingi hefir engin heimild verið gefin ríkisstj. til þess að eiga frumkvæði að atvinnubótum. Ríkisstj. verður eftir þeim heimildum, sem nú eru gefnar, að bíða eftir ósk meiri hl. bæjar- og sveitarfélaga. Ríkisstj. mun einu gilda, hver sá meiri hl. er, hvort það er íhaldsmeirihl., jafnaðarmanna meiri hl. eða kommúnista meiri hl. Hún mun tala við hvern þann meiri hl. í þessu efni, sem sjálfur hefir f. h. bæjarins rétt til þess að veita fé bæjarins, þann hluta, sem á móti á að koma. Á það vil ég líka benda í þessu sambandi, að frá jafnaðarmönnum á þingi hefir engin till. komið nú í þessa 3 mánuði, sem þingið er búið að standa, hvorki í Ed.Nd., í sambandi við fjárl., að þessu skuli vera öðruvísi háttað. Enginn jafnaðarmannanna hér á þingi hefir reynt að smeygja því inn í fjárl., að ríkisstj. eigi að gera allt annað en með tilliti til þess, sem bæjarfélögin vilja gera. Það getur verið, að einhverjum þeirra detti í hug að taka það upp við eina umr. fjárl. í Nd. vegna þess sem ég hefi nú sagt, en sú hugmynd er ekki frá þeim komin.

Ég veit það vel, að hv. 2. þm. Reykv. var einn þeirra manna, sem ofbauð ólætin 9. nóv. Hann var einn þeirra manna, sem vildi forða vandræðum. En það var ekki fyrr en seint um daginn, að hann kom til mín, og þá gat ég því miður ekki sagt við hann annað en það, að til þess að gefa loforð fyrir fjárveitingu þyrfti ég að tala við meiri hl. bæjarstjórnar. Síðar um daginn talaði ég við mann úr Sjálfstæðisflokknum, og mér var kunnugt um hug jafnaðarmanna og framsóknarmanna, og þegar þarna bættist við einn maður, sem vafalaust hafði fleiri á bak við sig, þá gat ég talað öruggur við meiri hl., hvað ríkisstj. vildi leggja fram á móti bæjarstj., og þá var betri hugur í hv. 2. þm. Reykv. til að leysa stór vandræði heldur en nú, þegar hann notar allt, sem hægt er til þess að æsa lýðinn upp fyrir kosningar. Hér er ekki verið að ræða um atvinnubætur, þetta eru kosningabætur, sem hv. 2. þm. Reykv. er að stofna til.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að Ólafur Thors, sem nokkru eftir þetta varð ráðh., hefði sett það skilyrði, að við settum á stofn öfluga ríkislögreglu. Ég var nú forsætisráðherra þá, og ég minnist þess ekki, að Ólafur Thors hafi sett þetta að neinu skilyrði. Þetta var talinn sjálfsagður hlutur á þessum dögum, að lögreglan væri aukin svo, að öryggi bæjarins væri borgið. Þegar lögreglustjórinn komst með liði sínu út úr Goodtemplarahúsinu, þá var þegar til hans náð af ríkisstj. og honum sagt að auka svo lið sitt, að hann gæti ráðið friði og öryggi fyrir borgarana.

Lögreglustjórinn hafði hreyft því áður, í sumar sem leið, og óskað þess, að bæjarlögreglan væri aukin stórlega með varaliði. Hann fullyrti, að það væri ekki öruggt að halda uppi reglu í bænum, nema slíkt varalið, sem væri skipað a. m. k. 100 mönnum, kæmi til.

Ég verð að taka á mig þá sök gagnvart ýmsum borgurum þessa bæjar, að hafa átt þátt í því, að þetta var ekki gert þá. Þá var svo mikið eftir í mér af því trausti á því, að hér væri hægt að bjarga málefnum þegnanna án þess að til handalögmáls kæmi. Ég vildi láta það dragast lengur, þangað til það kæmi í ljós, að slíkra ráðstafana þyrfti með. Ég iðrast þess ekki að neinu leyti, enda verður ekki um það deilt, hverjir átti upptökin að því, að það mátti til með að stofna varalögreglu. Það voru þeir menn, sem óeirðum valda, það voru ekki neinir sérstakir stjórnmálaflokkar, það var heldur ekki meiri hl. bæjarstj. Rvíkur, heldur voru það þeir ofstopamenn, sem tala í þeim tilgangi einum að koma af stað óeirðum og sífellt láta í ljós það hugarfar, sem leiðir til allsherjarniðurrifs og spillingar. Þó að fyrrv. dómsmrh. Ólafur Thors hefði fyrstur komið þessu í framkvæmd og skipulagt það, þá var það ekki nema eitt af þeim mörgu verkefnum, sem hann hafði til meðferðar og átti að leysa. Það var óhjákvæmilegt út af óeirðum þeim, sem gerðust 9. nóv. í haust, að halda áfram lögregluliðshaldi. En tilætlunin var samt sem áður alltaf sú, að leysa upp varalögregluna eins fljótt og unnt var. En þá var verkbanni skellt á þá, sem í lögregluliðinu voru. Við það hlutu skyldur stjórnarinnar við þá menn vitanlega að aukast stórum og vegna verksbannsins hafa þær ráðstafanir verið gerðar, sem raun er á. Ég get skilið þetta verkbann að vissu leyti. Það mun hafa átt að þýða nokkurskonar pólitíska viðleitni til þess að koma í veg fyrir, að menn gengju úr Alþýðuflokknum yfir til kommúnista. En þessi pólitíska viðleitni þessara tveggja flokka hefir raunar gengið lengra en bæði forsprökkum og flokksmönnum Alþ.flokksins hefir þótt ljúft. En nú geta líka komið upp aðrar hreyfingar, sem ætla mætti, að hefðu einhvern skyldleika til að bera við erlendar ofbeldisráðstafanir eftir því, sem Alþýðublaðið skrifar. En þó að nú kæmi til nýrra kosninga, þá vonast ég til þess, að þetta gamla mál verði ekki rifjað upp aftur. Nú eru allir sammála um það, að efla beri löggæzluna, og í þessu frv. er ákveðið, að lögreglan skuli ekki hafa afskipti af kaupdeilum eða samtökum alþýðumanna. Nú er tími fyrir þá, sem unna lýðræðinu, að taka höndum saman til þess að það megi haldast. Til samanburðar vil ég minna á stjórnarskrárfrv. það, sem nú liggur fyrir þinginu og á að tryggja lýðræðið. Þessi mál eru bæði sprottin af sömu rót og mjög skyld hvort öðru. Það ætti hv. 2. þm. Reykv. að geta skilizt. Frv., eins og það nú liggur fyrir, er að formi til nokkuð breytt frá stjfrv., en að efni til er það lítið sem ekkert breytt; margt það, sem ekki er í frv. tekið skýrt fram, er ætlazt til að verði ákveðið með reglugerð. Alþýðuflokkurinn hefir notað orðamuninn sem planka til þess að vera vinsamlegur frv., enda hefir hann ekki ástæðu til annars. Alþýðan er friðsöm, það eru ekki verkamennirnir, sem vilja hafa óeirðir. Ég vona, að afgreiðsla þessa máls eigi stóran þátt í því að tryggja frið og öryggi innan þjóðfélagsins. Víðtækar ráðstafanir hafa og verið gerðar til þess að ráða bót á hermdarverkum kreppunnar og aukið vonirnar um batnandi atvinnulíf með þjóðinni. Margt hefir verið gert til þess að létta undir með bændum og skapa meiri atvinnumöguleika í framtíðinni. Nú er einnig að skapast réttur til handa fleiri mönnum, en það er atkvæðisréttur. Sá réttur er gagnstæður þeim rétti, sem byggist á ofbeldi og yfirgangi. Það er öllum auðséð, hve miklu affarasælla það er, að geta haft áhrif á vandamál lands síns og úrlausnir þeirra með því að greiða sitt atkvæði, heldur en að reyna að hafa sitt fram með hótunum um ofbeldi og hryðjuverk. Öll þjóðfélög, sem byggja tilveru sína á lýðræði, vilja verja sig. Þess vegna hafa bæði Danmörk og Svíþjóð aukið stórum lögreglulið sitt. Og Rússland þolir heldur ekki neinar uppvöðslur gegn því skipulagi, sem þar ríkir. Það er víst ekki leiðum að líkjast! Ég kæri mig ekki um að beina þeirri spurningu til hv. 2. þm. Reykv., hvað hann hefði aðhafzt, ef hann hefði verið í stjórn þann 3. nóv. síðastl. Ég býst við, að hann eigi bágt með að svara þeirri spurningu hreinskilnislega, eftir ræðuna, sem hann hefir haldið hér í kvöld. En hinsvegar var það öllum ljóst, að ríkisvaldinu var skylt að halda uppi reglu, bæði þennan dag og yfirleitt. Ég hefi áður sagt, að mér þætti líklegt, að þetta þing mundi eiga mikinn og góðan þátt í því að leysa úr þessum málum, og gera sitt til að draga úr hættunni, sem annars er á óeirðum. Og það er því líklegt, að þegar til kemur þurfi stj. síður að nota þessa heimild en ella, og það er einróma ósk allra, að til þeirra ráða þurfi sem minnst að taka. Hér á landi er ekki mikil byltingahætta, þó að mjög sé um það talað. Það er aðeins hætta á óeirðum og annarskonar uppivöðslu, en ekki á byltingu. Þó að hv. 2. þm. Reykv. segi, að kreppunnar gæti eigi sízt á Íslandi, þá mun vera sú raunin á, að hún kemur einna léttast niður hér, og áhrifa hennar verður ekki eins mjög vart hér og víða í öðrum löndum. Enda er hér nokkurskonar trygging við slíku, þar sem svo skammt er á milli manna, og menn samhentir í starfi og svo vel kunnugir innbyrðis, að þeir, sem úrlausnum stórmála ráða, gera hvað þeir geta til þess að skirra við stórvandræðum. Það varð ég ljóslega var við þann 9. nóv. af viðtali bæði við hv. 2. þm. Reykv. og aðra. Hitt er annað mál, að við kosningar verður oft hörð orrahríð og auðvelt að koma bæði sér og öðrum í æsingaham.