26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

66. mál, lögreglumenn

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það var ekki ætlun mín að kveðja mér hljóðs hér, en af því að hv. 2. þm. Reykv. var að sveigja að mér persónulega, tel ég rétt að leiðrétta nokkrar þær misfellur, sem voru í ræðu hans. Hann sagði, að þegar bæjarstj. vildi lækka kaupið þann 9. nóv., þá hafi það verið að undirlagi miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins og útgerðarmanna hér í bænum. Þetta eru tilhæfulaus ósannindi, og þar eð ég er nú bæði í miðstjórninni og togaraútgerðarmannafélaginu þá get ég lýst því yfir hér á Alþingi, að fyrir þessari staðhæfingu hv. þm. er ekki nokkur fótur. Hinsvegar er það, sem hér um ræðir, hvort rétt hafi verið að lækka kaupið eða ekki. Það leikur auðvitað vafi á um það, og ég get vel skilið, að verkamenn taki því ekki þegjandi. En hitt veit hv. þm. vel, að orsökin til þess var, að meiri hl. bæjarstj. hafði alls ekki peningaráð til þess að halda vinnunni áfram í sama horfinu nema stuttan tíma. Og bæjarstjórninni þótti betra að veifa röngu tré en öngu og ákvað að reyna að hafa vinnuna lengur, en þá var auðvitað ekki hægt að greiða verkamönnunum sama kaup, og þeir, sem ákváðu þetta, voru sá hluti bæjarstj., sem kosinn er af meiri hl. atkvæðisbærra manna hér í bæ, og virðist því eiga að búa við stuðning bæjarmanna. Það, sem er barizt um, er þá það, hvort eigi að ráða, fulltrúar meiri hl., eða kúgun, ofbeldi og meiðingar og fleira af því tæi, sem alls ekki er hægt að þola í lýðfrjálsu landi.

Þá var hv. 2. þm. Reykv. að hafa eftir mér, að ég hefði sagt honum löngu áður en dómur var fallinn í máli hans, að hann myndi fá 60 daga skilorðsbundinn dóm. Þessu neita ég algerlega. Ég sagði, að líklega fengi hann skilorðsbundinn dóm, en það hafði ég eftir lögfræðingum, sem um þetta höfðu talað við mig. Þessir löggáfuðu menn sáu það fyrir af sínu hyggjuviti, að dómurinn yrði skilorðsbundinn. En því neita ég algerlega að hafa nokkuð minnzt á, að það yrðu 60 dagar. Fyrst við erum farnir að rifja upp þetta samtal, þá vil ég geta þess, að þá skoraði ég einlæglega á hv. þm. sem mann með vaxandi vald innan síns flokks að fella niður þessa andstöðu við ríkjandi vald. En hann sagðist þá vera hræddur um, að þessi stofnun yrði notuð til þess að skakka leikinn í vinnu- og kaupdeilum. Þá bauð ég honum, að stj. gæfi honum yfirlýsingu um, að það yrði aldrei gert og ekki væri ætlazt til þess. T. d. ef togari lægi bundinn við hafnarbakkann og eigandinn ætlaði að fara að manna hann hinum svokölluðu verkfallsbrjótum, og ef af þessu hlytust óeirðir og barsmíði, þá væri ríkislögreglunni ekki ætlað að hafa nokkur afskipti af því. Ég fyrir mitt leyti segi ekki, að það sé ekki réttmætt, að hún skærist þar í leik, en ég held, að það mundi ekki góðri lukku stýra. En hinsvegar er það óneitanleg og óhjákvæmileg skylda ríkisvaldsins að vernda borgarana, ef hótað er að hafa í frammi spellverki gegn heilsu þeirra, lífi og eignum.

En hv. þm. vildi ekki festa trúnað á orð mín þá. En nú segi ég, og það finnst mér vera mikilvægt atriði: Hver mundi vera líklegur til þess að misbeita þessu valdi? Hugsum okkur, að einhver væri svo heimskur að ganga lengra í þessum efnum en góðu hófi gegnir. Er þá ekki líklegt, að ef síðan kæmi einhver til valda, sem væri mótfallinn þessu fyrirkomulagi, mundi hann ekki hika við að nota það sem átyllu til þess að leggja lögregluna niður? Það er sannfæring mín, að andstaða hv. þm. stafi af því, að sumpart er hann bundinn við gömul gífuryrði, sem flokkur hans hefir látið fjúka, og sumpart af því, að hann var æstari þann 9. nóv. en hann telur hollt. Það kann að vera, að hann hafi verið hræddur um, að hann væri í þann veginn að tapa lýðhylli, og hafi heldur kosið að láta hana standa á brotnum stólfótum en að láta hana falla. En nú er svo komið, að allir skoðanabræður hans í nágrannalöndunum, í hinum menntaða umheimi yfirleitt, líka þar, sem jafnaðarmenn fara með völd, hafa séð nauðsynina á því að tryggja ríkisvaldið með aukinni löggæzlu. Ég fullyrði það, að hv. þm. sé í andstöðu við þá skoðun, sem ríkir í hans eigin herbúðum.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði valið menn í lögregluna eftir mínu eigin höfði, og þá helzt bófa og óbótamenn. Nú vill svo einkennilega til, að margir af þessum mönnum voru í verkalýðsfélögum. Það eru því líka mennirnir úr Dagsbrún, sem hv. þm. kallar bófa, en úr Sjómannafélaginu óbótamennirnir. Ég þekki ekki þessa menn persónulega, en ég fól lög reglustjóranum í Rvík að hlutast til um það, að í liðið væri valið helzt úr öllum stjórnmálaflokkum, svo að hjá því yrði komizt, að lögreglan fengi á sig nokkurn pólitískan hlæ. Þetta sagði ég líka við formann lögreglunnar og á fundi með flokksstjórum liðsins.

Þá fór hv. þm. háðulegum orðum um, að hæstv. dómsmrh. og ég lægjum undir dómi, og að þessum mönnum hefði verið falið að hafa á hendi stjórn löggæzlunnar. Við erum nú báðir sýknaðir af þessum kærum, sem ofsóknaróður andstæðingur setti okkur til höfuðs síðustu dagana, sem hann var við völd, en það finnst mér ákaflega óviðfelldið, að hv. 2. þm. Reykv., sem sjálfur liggur nú undir dómi, og það réttlátum, skuli vera með þennan reiging og rembing gagnvart okkur fyrir þær sakir. Hv. þm. sagði, að ég hefði verið svo hræddur, og hæstv. forsrh. sömuleiðis, að við hefðum þurft 60 manna sveit til þess að gæta þess, að ekkert yrði gert okkur til meins. Þetta eru hvorttveggja vísvitandi ósannindi. Aldrei hefir verið haldinn vörður um mitt hús, og ekki veit ég til þess, að lögregla hafi passað, að hæstv. ráðh. hefði svefnfrið.

Þá sagði þm., að lögreglan ætti að taka alla þá, sem ofbeldi hefðu í frammi, og líka þá, sem tala á móti stjórninni. Hv. þm. hlýtur að hafa verið ákaflega hræddur. En þrátt fyrir það, þá er ég hissa á því, að honum skuli detta í hug, að það láti sig gera í lýðfrjálsu landi, að taka menn fasta fyrir það eitt að tala. En hann var auðvitað órólegur eftir aðfarir sínar 9. nóv., og það er gleðilegt að sjá, að hann er ekki alveg samvizkulaus.

Ég vil fúslega taka á mig heiðurinn og ábyrgðina af því að hafa stofnað lögregluna. Ég álít, að það sé skylda ríkisstj. að taka að sér að halda uppi reglu í landinu. Auðvitað er það, að erlendis er herlið kvatt til hjálpar, ef lögreglan reynist ekki nóg, og ef löggjafarnir hefðu 1918 haft hugmynd um að í vændum væru slíkar aðfarir, sem gerðust 9 nóv., þá mundu þeir án efa hafa gert þær ráðstafanir, samfara sambandslögunum, og ég efast ekki um, að þær hefðu mótþróalaust verið samþ. Skilningurinn á þessu máli hefir aukizt og ég þarf ekki að ræða frv. Jóns heit. Magnússonar. Það mætti þá mótstöðu frá mönnum, sem ég veit til, að hefir snúizt hugur við viðburðina þann 9. nóv. Og nú hefir málinu safnazt nóg fylgi til öruggs framgangs.

9. nóv. hefir opnað augu þjóðarinnar, nú á að gera út um það, hvort ríkið á að standa eða falla. Nú á að skera úr, hvort hver óaldarseggurinn á að fá að vaða uppi um annan þveran, án þess að ríkisvaldið hafi minnsta bolmagn til þess að standast þær árásir.

Ég er alveg ánægður með frv. eins og það liggur fyrir nú. Kjarni málsins er sá, að ef lögreglan er ekki aukin nú, þá getur hver sem vill eflt flokk og tekið sér vald með hnefarétti. Eftir frv. er nauðsynleg þensla lögreglunnar möguleg, eftir því sem þörfin heimtar. Og það er einmitt nauðsynlegt, til þess að þeir, sem vilja vaða uppi, viti það, að ríkisvaldið getur ávalt orðið sterkara. Það er ekki aðalatriðið, að ríkislögreglan berji á þeim vesalingum, er ráðast á ríkisvaldið, heldur að hún sé svo sterk, að enginn þori að gera það.

Ég endurtek, að ég tek með glöðu geði á mínar herðar mikinn þátt þeirrar ábyrgðar, sem fylgir því, að stofnuð var ríkislögregla. En jafnframt játa ég, að kommúnistar eru mínar beztu stoðir undir þeirri ábyrgð og aðrir slíkir óróaseggir þjóðfélagsins. Með atferlinu 9. nóv. og oftar hafa þeir sannfært bæði þjóðina og löggjafana um nauðsyn lögreglunnar. Þeir geta því ásakað sjálfa sig fyrir það, að verða til þess að sannfæra alla um, að nauðsynlegt sé að hafa sterka lögreglu, sem sé þess megnug að taka þá, þegar þeir vaða uppi.