30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég skal fyrst segja nokkur orð út af brtt. þm. Ísaf., þar sem hann fer fram á að lækkuð verði tala lögreglumanna. Ég vil benda á, að eftir 1. gr. frv., sem hér liggur fyrir, þá er það hámarkið, sem hér er tiltekið, því að þar stendur „allt að“. Þar af leiðir, að það er ekki sagt, að lögreglan verði eins fjölmenn og þarna er gert ráð fyrir, og um það verður af hvaða stj. sem er leitað álits bæjarstj. áður en nokkur fyrirskipun er gefin. Annars geri ég ekki ráð fyrir því, að um aukningu verði að ræða, nema eitthvað sérstakt komi til, og það verður a. m. k. ekki gert fyrr en eftir að ráðgast hefir verið um það við hlutaðeigandi bæjarstj. En ég held, að sú tala, sem hv. þm. Ísaf. stingur hér upp á, að í bæjum með 1—12000 íbúa skuli vera 1 lögregluþjónn, sé allt of lág, eða að hann ætli þessum manni fulllangan vinnutíma. Hér í Rvík er skipt í vaktir milli lögregluþjónanna, og veit ég ekki betur en að þeir hafi átta tíma vakt hver, og einni dag í viku verða þeir að hafa frí eins og aðrir menn. Ég sé ekki, hvernig hv. þm. ætlast til, að þessi eini maður geti annað þessu öllu saman. Mér finnst hann ætli að leggja á hann óhæfilega mikið af störfum, eða ætlist til, að engin gæzla sé suma daga eða vissa tíma dagsins. Þess vegna er það fjarri, að ég geti samþ. þessa till. Hún myndi ofbjóða starfsþreki þess manns, sem hér ætti í hlut.

Þá var það hv. 2. þm. Reykv., sem talaði mikið hér um tíðindin 9. nóv. og vildi kenna lögregluþjónunum allt, sem gerðist þann dag. Ég er ekki í neinum vafa um, að hann er þar ósanngjarn við lögregluna. Eftir þann dag var lögreglan hér í Rvík mjög vinsæl og talin að hafa leyst verkefnin vel af hendi, sem fyrir hana voru lögð, og ég er viss um, að hann gerir henni rangt til. (Rödd af pöllunum: Hjá hverjum var hún vinsæl?. — Forseti: Hafið hljóð!). Þar sem hún var að inna af hendi sín störf (Rödd: Fyrir atvinnurekendur.), að halda uppi reglu í bænum, ekki frekar fyrir einn en annan. Það gildir jafnt fyrir okkur öll. Ég hygg, að það sé eins mikið öfugmæli og framast er unnt, þegar sagt er, að lögreglan hafi ráðizt á almenning til þess að berja hann niður. Liðinu var stjórnað af lögreglustjóra, og hélt ég, að jafnaðarmenn ættu ekki að ráðast á þennan mann hér — hann, sem jafnan fylgir þeim að öllum málum og er í raun og veru þeirra eigin maður í bæjarstjórninni. Ég segi, að þeir launi honum fylgið allilla, ef þeir ráðast á hann hér.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um, að það hefði verið mikill hávaði hér eftir þingrofið. En það var eftir að þingfundi var slitið, að sá hávaði varð og að því leyti sem háreysti varð hér í bænum, þá var það eftir að fundi var slitið, en ekki á þingfundi. Hv. þm. sagði ennfremur, að það væri ekki sér að kenna, hve lögreglan hefði orðið dýr. Ég sagði þar um, að auðvitað hefði ríkið orðið að greiða þessum mönnum meira vegna þess, að þeir voru útilokaðir frá allri vinnu, m. a. af hálfu hv. 2. þm. Reykv. Þetta er rétt, og hv. þm. getur ekki neitað því. (HV: Það þurfti ekki að hafa þá). Það er nokkuð, sem stj. verður að afgera á hverjum tíma sem er og hv. þm. getur afgert, þegar hann er kominn í stjórn. En hvað gera jafnaðarmenn, þar sem þeir eru í stj.? Ég held, að þeir hafi lögreglu og m. a. s. auka hana, þegar hin minnsta ástæða er til. Hvað heldur hv. þm., að sé mikil lögregla og her í Danmörku. (HV: 400 manna ríkislögregla, sem svarar til 12 hér). Svo er bæjarlögreglan, sem er mörg þúsund manns og svo her. Og þegar átti að fækka honum, þá fóru þeir ekki lengra niður en í 20 þús. Stauning vildi hafa 20 þús. manna her, og svo kemur þessi hv. þm. hér og heldur því fram, að það eigi að vera e. t. v. 2—4 lögregluþjónar í stórum bæjum. Svo hyggst hann vera flokksbróðir og skoðanabróðir þessa manns. Þetta getur ekki samrýmzt. Hv. þm. veit, að hér er ekki um annað að ræða en að halda uppi lögum og reglu og friði. — Hv. þm. sagði, að það hefðu verið 13 menn úr alþýðusamtökunum í lögregluliðinu. Ég held, að þeir hafi nú verið fleiri, en skal þó ekki um það þræta við hv. þm. En mér þykir þetta hreint ekki svo lítið, að 13 menn skuli hafa gengið ótilkvaddir í liðið, en svo rekur hv. þm. þá alla úr flokknum jafnskjótt og hann kemur því við. Þetta er nú frjálslyndið á þeim bænum. Hv. þm. sagði, að það væri ekki ofsókn, þótt neitað væri að vinna með þessum mönnum, sem væru í lögreglunni. Þetta tel ég hreina ofsókn. Því að hvers vegna mega þeir ekki vinna? (Rödd af pöllunum: Þeir svíkja sína stétt fyrir 2 kr. á klukkustund). Nei, jafnaðarmenn fá að sjá það, þegar þeim vex fiskur um hrygg, ef þeir eiga það fyrir höndum, sem ekki er ómögulegt. Þá munu þeir iðrast eftir sinni eigin afstöðu til þessa máls, því að þegar svo er komið, að menn bera ábyrgð, þá verða menn að hegða sér öðruvísi en jafnaðarmenn gera nú.