30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

66. mál, lögreglumenn

Frsm. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. virðist ekki lengur vilja leggja ábyrgðina á lögreglustjóra af því athæfi, sem hann gerði að aðfinnsluefni, þegar fundarsalurinn var ruddur eftir bæjarstjórnarfundinn 9. nóv. En þegar hann áfelldi þennan samherja sinn, gat hann ekki gert það án þess að slettur féllu á aðra, og vildi ásaka mig fyrir, að ég beri ábyrgð á því, að málið var höfðað. Ég ber ábyrgð á því. Það var mín skylda að gera það í því embætti, sem ég þá sat i. (HV: Hvernig var það með Bolungavík?). Og hitt vil ég segja, að það var ekki á mínu færi sem ólögfróðs manns að mynda mér skoðun um dóm, og ég reyndi ekki að hafa nokkur áhrif á hann. Þetta veit hv. þm., að er satt, og veit, að ég er á engan hátt ámælisverður, þótt ég mælti svo fyrir, að mál skyldi höfðað gegn þessum mönnum.

Þá gerði hv. þm. að aðalefni í þessu sambandi þá kauplækkun, sem meiri hl. bæjarstj. hafði ákveðið að láta fara fram. En eins og ég sagði í útvarpsumr. í vetur, þá er það sitt hvað, að hafa samúð með því, að þeir, sem lægst eru launaðir, fái enn lægri laun, eða hvort menn krefjast þess að fá fundi frestað í bæjarstj. Rvíkur — fundi, þar sem löglega kosnir bæjarfulltrúar mega taka löglega ákvörðun. Þetta er sitt hvað. Og hv. þm. veit líka, að meiri hl. bæjarstj. ber fram þau rök fyrir kauplækkun sinni, að hún hafi álitið, að verkamennirnir myndu heldur sætta sig við það að fá lægra kaup, en visst, heldur en það þryti e. t. v. allt í einu. Og það er vitleysa hjá hv. þm., þegar hann heldur því fram, að ríkisstj. hafi sett lögregluna á fót í lagaleysi. Ríkisstj. hefir fulla heimild til að gera allt, sem hún telur nauðsyn til á hverjum tíma til þess að sjá borgið öryggi ríkisins. Því að eins og leit hér út að kvöldi hins 9. nóv., þegar lögreglan var barin og óvíg ger, þá hefði það verið óröggsöm stj., sem setið hefði auðum höndum og ekkert hafzt að. Það var skylda hennar að gera ráðstafanir. (HV: Og hvar er lagaheimildin?). Í stjórnarskrá ríkisins. — Ég var að skopast að þessum ótta hjá hv. þm., að varalögreglan yrði vopn í höndum eigingjarnra og valdasjúkra manna, og færði í því sambandi fram þær fullyrðingar, að verkalýðurinn hefði í hyggju og hefði þegar komið í framkvæmd að hafa lið í sínum hóp til að halda uppi friði, ef á þá er ráðist. Nú vill hv. þm. samt slá því föstu, að varalögreglan sé gagnslaus, ef hún gæti ekki haldið niðri slíku liði; en það er hlutverk lögreglunnar að halda uppi lögum og rétti, og ég verð að ganga út frá því, að það lið, sem alþýðusamtökin hafa innan sinna samtaka, sé ekki til þess ætlað að brjóta lögin og því óþarfi að ganga út frá því, að varalög reglan myndi lenda í skærum við það lið, því að hún er til að halda uppi friði, lögum og rétti í landinu. Hitt er annað mál, að ef einhver ætlar að misnota varalögregluna í þjónustu einræðis og ætlar að brjóta þannig stjórnskipunarlög landsins, þá getur vel verið, að hv. 2. þm. Reykv. og ég tökum höndum saman eins og eftir þingrofið fræga. Það er náttúrlega hinn mesti misskilningur, ef það er ekki annað verra, þegar hv. þm. gefur það í skyn, að það sé verið að efla lögregluna til þess að berja duglega á hundruðum manna, svo að þeir liggi óvígir á vígvellinum. Okkar hugsun er sú, að efla lögregluna svo, að menn viti, að það þýðir ekki að rísa upp á móti henni, en ekki að hún verði sterk til þess að berja á einum eða öðrum, hvort heldur það eru samherjar eða andstæðingar. Um hitt atriðið, hvort þessi lögregla verði notuð til þess að hafa afskipti af kaupdeilum eða til þess að draga taum atvinnurekendanna í landinu gagnvart verkalýðnum, verður reynslan að skera úr, en ég skal lýsa því yfir sem formaður stærsta atvinnurekendafélags landsins, að ég mun aldrei óska eftir slíkri notkun lögreglunnar, og ég skal lýsa því yfir sem þm., að verði lögreglunni þannig misheitt, skal ég greiða atkv. með því, að hún verði afnumin. (Kallað af áheyrendabekkjum: Og þú svíkur það!). Ég vil aðeins enda þessi orð mín með sérstakri hliðsjón af því, að hér er nokkuð óvenjulegur áheyrendalýður á svölunum, að ég fyrir mitt leyti eins og aðrir borgarar hefi oft dáðzt að lögreglu Rvíkur fyrir hennar frammistöðu, þegar villtur óargalýður hefir ráðizt að henni og barið hana. Ég finn sérstakt tilefni til þess að segja þetta með hliðsjón af þeim áheyrendum, sem hér eru. (Ókyrrð á áheyrendapöllunum. — HV: Hefir forseti beðið að ryðja svalirnar? — Forseti (JörB): Ég hefi enga skipun gefið um það. — Kyrrð kemst á aftur). Ég þarf þá ekki að gera fleiri aths. í tilefni af ræðu hv. 2. þm. Reykv.; en að því er snertir till. hv. þm. Ísaf. get ég tekið undir ummæli hæstv. dómsmrh. og sé ég ekki ástæðu til að hún verði samþ.