31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er alveg satt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að hann átti tal um þetta við mig í gærkvöldi, að láta rannsaka hvernig á þessum óeirðum hefði staðið.

Ég vil nú minna hv. þm. á það, að ég var hér á fundi þangað til kl. 11 í gærkvöldi og þurfti að sinna mínum störfum í stjórnarráðinu fram að hádegi í morgun. En ég mun útvega mér upplýsingar um þetta. Mér fannst satt að segja, að hv. þm. tala eins og hann væri að reyna að æsa fólkið. Mér dettur ekki í hug að trúa því, að 7 eða 8 lögregluþjónar hafi ráðizt á einn mann og slegið hann eða misþyrmt honum. Mér hefir verið sagt svo frá, að kommúnistar hafi samþ. það á sunnudaginn var að berja á þm. og reka þá út. Og þar sem lögreglan hefir sjálfsagt fengið að vita þetta, þá var það skylda hennar að mæta hér og koma í veg fyrir óeirðir, hér sem annarsstaðar. Ég get sagt, að ég hefi aldrei orðið var við annað en að lögreglumennirnir hér kæmu prúðmannlega fram hvar sem er, en það skal ég játa, að ég hefi aldrei verið viðstaddur þar sem skærur eða bardagar hafa orðið. Annars mun ég láta fram fara athugun og rannsókn á því, sem fram fór á pöllunum hér í gær.