31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

66. mál, lögreglumenn

Frsm. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Ég ætla að gera þá alveg óvenjulegu játningu að lýsa því yfir, að ég ætla að snúast til fylgis við þá till., er ég mælti á móti áðan. Ég hefi við nánari athugun komizt að raun um það, að brtt. um, að þeir tollþjónar, sem nú starfa, geti verið undanþegnir lögreglumannsskyldu, ef þeir óska, er sanngjörn. Ég get því ekki annað en fallizt á hana. En hinu geng ég út frá, að í þessar stöður verði framvegis valdir menn, er vilja vinna þetta verk.

Hv. þm. Reykv. vildi enn halda því fram, að stj. hefði brostið heimild til þeirra ráðstafana, er hún gerði í haust, um stofnun varalögreglu. Fyrir nú utan 71. gr. stjórnarskrárinnar, sem ég hafði í huga, en um má kannske deila, þá er það vitanlega ótvíræð skylda ríkisstj. á hverjum tíma sem er að gera allt, sem gera þarf, til þess að lögum og friði verði haldið uppi í landinu. Aðra heimild en þá þarf stj. vitanlega ekki.

Hv. þm. hefir margspurt um það, hver kvatt hafi hingað lögregluna. Það er nú ekki eins og um neina glæpamenn sé að ræða, þó lögregla sé hér. Og það er undarlegur ótti við lögregluna, sem virðist hafa gripið hv. þm. En til þess nú að hann sé ekki lengur að spyrja um þetta, þá vil ég upplýsa það, að það var hæstv. forseti Sþ., sem óskaði þess, að lögreglan væri viðstödd hér, einkum meðan umr. færu fram um þetta mál.

Það er undarlegt og ómaklegt, hvernig hv. þm. hefir kastað steini að þessum mönnum, lögreglumönnunum. Ég skal nú ekki neitt fara að verja lögreglustjórann hér. En mér dettur þó í hug, að hann sé ágjarn á líkan hátt og sagt er, að Friðrik Vilhjálmur, faðir Friðriks mikla Prússakonungs væri. Hann var svo ágjarn á stóra menn, að hann gat ekki séð þá, án þess að ná þeim í þjónustu sína. En hann launaði þeim líka vel. Lögreglumennirnir hér eru líka stórir og myndarlegir. Þeir gera sína skyldu og vinna þó fyrir lágum launum. Má því ekki minna vera en að löggjafarnir verji þá gegn ómaklegum árásum af hálfu þm.