31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

66. mál, lögreglumenn

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Seyðf. sagði alveg réttilega, að það yrði að gera meiri kröfur um skapstillingu og gætni lögregluþj. heldur en annara manna, vegna þess að þeir gegna svo mikilsverðum trúnaðarstörfum fyrir þjóðfélagið. En það er líka vitanlegt, að þeir hafa miklu betri aðstöðu til þess að temja skapsmuni sína en aðrir, þar sem þeir eru skyldir til þess að eyða löngum tíma til æfinga og þjálfunar til undirbúnings þessum störfum, áður en þeir taka við þeim. Og frá því sjónarmiði einu er ekki um aðra færari menn að ræða til þess að halda uppi reglu í þjóðfélaginu.

Ég nefndi einstök dæmi um uppþot og óeirðir hér í bænum vorið 1931 og einnig það, sem fór fram hér í gær, þegar ókvæðisorðum var hreytt til mín á götunni. Ég nefndi þessi dæmi til þess að sýna fram á, að lögregluliðinu væri ekki fremur beitt nú, þó að óeirðir ættu sér stað, heldur en 1931, þrátt fyrir það, að nú er þó til varalögregla. Mér er ekki annað kunnugt en að lögregluþjónarnir hafi sýnt býsna mikla skapstillingu, enda þarf þess með við atburði eins og þá, sem urðu 9. nóv. En eftir að búið var að berja niður marga af lögregluþjónunum, skal ég ekki sakast um, þótt einhverjum rynni í skap. Lögregluþjónn á aldrei að hefna sín, enda hefir það ekki komið fyrir hér. Lögregluþjónar hér eru myndarmenn og skapstillingarmenn.

Hv. þm. sagði, að úti á götu, þar sem engir lögregluþjónar voru, hafi engar barsmíðar orðið, en þær hafi aftur orðið á pöllunum, þar sem voru lögregluþjónar. Ástæðan er sú, að á pöllunum er ekki hægt að þola sama framferði og á götunni. Lögreglan á að vernda fundarfrið, eins hjá Alþingi og kommúnistum. Kommúnistar hafa kvartað um það, að þeirra fundarfriður væri skertur, og er það, þegar svo stendur á, skylda ríkisvaldsins að vernda þeirra fundarfrið eins og annara.

Hv. þm. spyr, hvað gera eigi við þessa lögreglu. Er því fljótsvarað. Hún á að reyna að hindra meiðingar, eins og þær, sem urðu 9. nóv., hindra það, að menn séu teknir út úr fangelsum, fluttir milli staða o. s. frv. Ég veit, að hv. þm. Seyðf. og margir félagar hans hafa aldrei eggjað til ofbeldisverka. En þeir hafa líka svo oft þurft að standa á móti ýmsum röddum um ofbeldi, að þeir skilja betur nauðsyn þessa máls en þeir vilja láta á bera hér í þingsalnum. Vona ég þó, að þeir skilji þetta svo vel, að þeir séu ekki að reyna að bregða fæti fyrir þessa sjálfsvörn þjóðfélagsins, sem í þessu frv. felst. Ég veit, að það er vandi að beita rétt lögregluvaldi. En það er eflaust sami vandi að beita 60 manna lögreglu, eins og þó að varaliðsmenn væru þar í viðbót. Vona ég, að við Íslendingar munum reynast vaxnir þessum vanda.