31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

66. mál, lögreglumenn

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að ég hefði átt þátt í þeim atburðum, sem urðu hér í gær. Skil ég það ekki, því að hávaðinn varð einmitt mestur, þegar hv. þm. G.-K. talaði. En sá hávaði var þó ekki svo mikill, að ekki væri hægt að ljúka málinu þess vegna, enda bað forseti ekki um neinar ráðstafanir gagnvart þessu. En ræða hv. þm. G.-K. var vel til þess fallin að vekja hávaða. Var hún skammir um kommúnista og ógnanir til þeirra, en hinsvegar eggjun til lögreglunnar. Var það eðlileg afleiðing, að lögreglan réðist inn.

Hv. 4. þm. Reykv. finnst óhæfilegt, að ég skuli tala í þessu máli. Veit ég satt að segja ekki, hver ætti heldur að tala í umboði verkamanna en formaður stærsta verkalýðsfélagsins á landinu, þar sem allir meðlimir eru á móti þessu frv. Þó að hæstv. ráðh. segði, að flestir verkalýðsfélagar væru málinu fylgjandi, þá er það ósatt mál. Eins eru það vísvitandi ósannindi hjá hv. 4. þm. Reykv., að ég hafi snúizt í þessu máli. Þetta er sama málið og fram var borið á þingi 1925 og sem ég skrifaði þá og talaði á móti. Hitt mætti segja, að sumir aðrir hefðu snúizt, eins og t. d. hæstv. forsrh., sem talaði þá ákveðið á móti því, og eins forseti Sþ.

Hv. þm. G.-K. virtist kannast við það, að stjórnarskráin heimilaði ekki að kalla þessa varalögreglu saman. Þó vísaði hann í stjórnarskrána, þar sem talað er um lið til varnar landinu. En hann gat ekki vísað í önnur l. en stjórnarskrána og svo sína persónulegu skoðun. En ég ætla að leyfa mér að benda honum á, að stjórnarskráin leyfir aðeins að setja herskyldu með sérstökum 1., og þó skal þetta vera sérstaklega takmarkað um fjölda og kostnað. Ef nauðsynlegt er að setja takmarkanir um her, því nauðsynlegra er það þá að setja slíkum ráðstöfunum takmarkanir. Hefði stj. viljað láta gera þetta með einhverju lagaformi, þá hefði hún átt að gefa út bráðabirgðal., en það gerði hún ekki. En þegar menn eins og hv. þm. G.-K. eru í stj., þá hugsa þeir sem svo: Við höfum ríkisvaldið í okkar höndum og þurfum ekki að fara að 1. Er þetta hættulegt fyrir allt lýðræði, eins og allir hljóta að sjá. En það er auðvitað æskilegt frá sjónarmiði þeirra, sem vilja koma hér á þjóðræðishreyfingu eða nazisma.

Þá gat hæstv. forsrh. þess, að forseti Sþ. hefði óskað eftir því, að lögregla og varalögregla verndaði þingið í vetur. Þó kom það ekki greinilega fram, hvort hann hefði óskað eftir því í þessu tilfelli, þegar húsið var fullt af lögreglulýð. Væri það undarlegt, ef forseti Sþ. hefði gert þetta án þess að ráðfæra sig við hina forsetana og þingið. Er það sjaldan, sem forseti Sþ. heldur fundi, og á hann auðvitað ekki að sjá um slíkt á öðrum tímum. En að lögreglan sjálf taki sér vald til að segja, hvenær óspektir séu og hvenær eigi að reka menn út, án þess að forsetar deildanna fari fram á það, nær engri átt. Hve langt verður þangað til lögreglunni finnst einhver þm. vera orðinn of ósvífinn, rýkur til og rekur hann út, án óskar forseta?

Þá hélt hæstv. forsrh. því fram, að slíkur lögregluliðsstyrkur væri hafður í þingum erlendis. Hefi ég ekki orðið var við það. T. d. er það ekki í parlamentinu enska, sem ég hefi sjálfsagt oftar komið inn í en hann. Þar eru 1 eða 2 lögreglumenn dyraverðir við hvern sal, sem ganga verður í gegnum, áður en komið er inn í sjálfa þingsalina. Þegar svo farið er inn á áheyrendasviðið, þá eru þar ekki lögregluþjónar, heldur venjulega búnir starfsmenn þingsins. Er það því fjarstæða að jafna því við þetta þing, þar sem því nær helmingur áheyrenda eru lögregluþjónar. Held ég, að slíkt tíðkist ekki nema þar, sem harðstjórar ráða, sem eru hræddir um, að þeim verði varpað burtu með byltingu. En þó að stj. sé engan veginn góð hér á landi, held ég samt, að hún þurfi ekki að óttast það í bili. Sá eini órói eða óspektir, sem hér er hægt að tala um, komu til af því, að lögreglan stofnaði að fyrra bragði til illinda.

Þá nefndi hæstv. forsrh. það sem ástæðu fyrir varalögreglunni, að það þyrfti að hindra, að menn yrðu fluttir með ofbeldi milli staða. Á þá að hafa varalögreglu á öllum stöðum landsins til þess að hindra þetta, eða á að taka þá menn, sem þetta gera, eftir á? Ef á að gera það á eftir, hví hefir stj. þá ekki látið taka þá menn höndum, sem þetta hafa gert? Hún hefir þó haft varalögreglu til þess í 6 mánuði.

Yfirleitt stangast þessar ástæður stj. allavega á. Sú raunverulega ástæða er sú, sem þeir vilja ekki segja, sem sé að halda niðri hreyfingu alþýðunnar. Þeir halda, að þetta geti skotið þeirri hreyfingu skelk í bringu. En það mun sýna sig, að það verður ekki til annars en að herða samtökin.