04.03.1933
Neðri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (1329)

61. mál, útborgun á launum embættismanna

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég sé ekki ástæðu til annars en að taka vel meginhugsun þessarar till., þeirri, að embættismönnum sé gert sem hægast fyrir að fá laun sín greidd. En það getur verið spurning um, með hvaða hætti það verður bezt gert hér á landi, og hvað mönnum kemur bezt. Ég veit, að það yrði ekki öllum embættismönnum til þæginda að fá öll laun sín útborguð á næsta pósthúsi, eins og hv. þm. var að tala um. Sumir hafa miklar útborganir hér í Reykjavík og vilja því gjarnan hafa umboðsmann hér. Fyrir hina, sem heldur vildu fá launin heim til sín, ætti að vera hægt að finna eitthvert heppilegt fyrirkomulag. Annars er það nú þegar svo í mörgum tilfellum, að bankarnir taka við launagreiðslum úr ríkissjóði og láta útibúin greiða þau til hlutaðeigenda heima fyrir. Á sama hátt mætti e. t. v. láta pósthús annast útborgun launa, og er það þó örðugra hér á landi en annarsstaðar, vegna hinna seinu samgangna. Einkum mun það valda örðugleikum, að í mörgum tilfellum fá menn ekki laun sín greidd út óskoruð. Ýmiskonar frádráttur kemur til greina, sem stundum er mismunandi hina ýmsu mánuði ársins og ekki fyrirfram vitanlegt, hvað miklu hann nemur. Af þessum ástæðum og fleirum þykir mér rétt, að till. sé vísað til fjhn., og geri það að till. minni. Það er æskilegt, að rækilega sé talað um þetta við póstmeistarann og ríkisféhirði áður en till. er afgr. En ég get fúslega tekið undir það með hv. flm., að ástæða sé til að gera meira heldur en undanfarið hefir gert verið til þess að embættismönnum úti um land verði hægra að ná launum sínum.