09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (1340)

68. mál, innflutningsleyfi fyrir sauðfé

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég hefi ekkert á móti því, að till. sé vísað til landbn. En út af orðum hv. þm. Str. vil ég taka það fram, að það er ekki meining okkar flm., að innflutningurinn verði tekinn úr höndum stj. Við tókum það fram í niðurlagi till., að fullt öryggi verði að vera gagnvart því, að sjúkdómar berist ekki til landsins, og held ég ekki, að það geti orðið nema ríkisstj. annist innflutning fjárins og vörzlu þess fyrsta tímann, meðan sjúkdómshætta getur verið yfirvofandi. Dettur mér ekki í hug, að einstaklingar megi annast þetta hver út af fyrir sig, eftirlitslaust að mestu leyti eða öllu.

Hv. þm. sagði, að fyrir 4-5 árum myndi engum hafa dottið í hug að bera fram slíka till. sem þessa. Getur það verið rétt. Þeim mönnum, sem eitthvað vildu reyna í þessa átt, hefir verið haldið í skefjum, ekki af hræðslu við gin- og

klaufaveiki, heldur af því, að hinir ráðandi menn hafa jafnan beitt sér gegn slíku. Held ég, að vel mætti fyrirbyggja alla hættu, þótt þessi till. væri samþ. Hinsvegar veit ég fyrir víst, að ríkið getur ekki komið upp svo mörgum búum, að það geti fullnægt eftirspurn bænda eftir hrútum af þessum erlendu kynjum. Ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, að einstakir menn eða félög geti fengið hin erlendu fjárkyn og stundað stofnfjárrækt. Álít ég það að öllu leyti heppilegri leið. Þáltill. fer fram á það eitt, að mönnum verði gefið þetta tækifæri. Leggjum við áherzlu á, að ekki verði lokaðar leiðirnar fyrir því, að menn geti hafið innlenda stofnræktun hinna erlendu kynja, svo að ala megi upp hér innanlands nægilegt af hrútum til einblendingsræktar.

Þó að einstakir menn gætu fengið keypta innflutta hrúta af ríkinu, þá yrðu þær skepnur svo dýrar, að slíkt yrði ekki kleift. Væri réttara, að einstaklingar gætu sjálfir stofnað sauðfjárbú til þess að hreinrækta hið erlenda kyn, því að ríkið getur hvort sem er aldrei sett upp nægilega mörg slík bú.

Rétt er það hjá hv. þm. Str., að ýmsir erfiðleikar hafa komið fram við byrjunarframkvæmdir þessar. Þó hefir verið hjá mér einn skozkur hrútur, og hefir allt gengið mjög vel með hann. Hefi ég ekki orðið fyrir neinum örðugleikum, hvorki við hirðingu hans né notkun, og get ég því gert mér góðar vonir í þessu efni.

Ég vildi aðeins taka þetta fram og orða skýrar en áður, hvað fyrir okkur flm. hefði vakað.