11.03.1933
Neðri deild: 22. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (1349)

87. mál, bættar samgöngur við Austfirði

Sveinn Ólafsson:

Ég sé mig knúðan til að hlaupa í skörðin fyrir hv. 1. flm. till. þessarar, af því hann er fjarstaddur.

Ég hygg, að engum muni dyljast, að ástæða sé til að minna á það, hve Austfirðir hafa orðið afskiptir við ráðstafanir allar um samgöngubætur hin síðari ár.

Síðan vegagerðir hófust, hafa þær aðallega verið bundnar við nágrenni höfuðstaðarins og héruð þau sunnanlands, norðan og vestan, sem honum eru næst. Þær taka nær ekkert til Austurlands ennþá. En þegar þar við bætist, að samgöngum á sjó hefir stórlega aftur farið síðustu missirin í þeim landshluta, þá er sannarlega ekki ástæðulaust, að hreyft er þessu máli.

Þáltill. þessi felur í sér það tvennt: Að auknar verði viðkomur Eimskipafélagsskipanna og teknar verði upp aukaferðir til Austfjarða með strandferðaskipum ríkissjóðs. Að áliti forstjóra Skipaútgerðar ríkisins eru þessar aukaferðir ekki aðeins æskilegar, heldur og vel framkvæmanlegar án mikilla — eða jafnvel nokkurra — fórna. Skipakost skortir ekki, enda er nú ráðgert að leggja upp öðru strandferðaskipinu í sparnaðarskyni, sem tvísýnn hagnaður mun þó að verða. Um fjárhagsútkomuna af auknum strandferðum verður ekkert með vissu sagt fyrirfram, enda hefir ekki alltaf verið mikið um hana spurt í sambandi við strandferðir, en ríkið jafnan lagt mikið af mörkum til þeirra, með hagsmuni landsmanna fyrir augum, og væri því ekkert undrunarefni, þótt þessar sérstöku aukaferðir borguðu sig ekki að fullu beinlínis eða framar öðrum strandferðum.

Ég skal ekki að sinni fjölyrða meira um þetta mál, þar sem hv. 1. flm. er kominn í deildina og mun færa fyllri rök fyrir máli okkar.